22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

241. mál, manneldisráð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég á ekki sæti í n. þeirri, er fjallað hefur um frv. um manneldisráð, en ég hef lesið það og þykir það horfa til bóta. En þegar nú er kveðið á um það samkv. till. n., hverjir skipa skuli að nokkru fulltrúa í manneldisráð, þá þykir mér nokkurs í vant þar sem ekki er gert ráð fyrir því, að þar verði fulltrúi matreiðslumanna á landi hér. Það er sannast sagna, að enda þótt hollusta hinna ýmsu matvælategunda skipti miklu máli í grundvallaratriðum, þá er hitt einnig nokkurs um vert, að menn hafi lyst á þeim. Og fyrir utan það, að þekking matreiðslumanna, sérþekking þeirra, kemur þarna mjög til greina. þá hygg ég að ýmsir menn úr þeirra hópi hafi til að bera þá þekkingu sem nauðsynleg getur verið til þess að leita skynsamlegra ráða til þess að beina neyslu landsmanna inn á hollustubrautir. Þeir kunna að segja fyrir um það, með hvaða hætti sé hægt að gera hin hollustusamlegu matvæli fýsileg fyrir landsmenn. Og ég vildi gjarnan að þau atriði, sem lúta að smekk, sem er ákaflega þýðingarmikið í sambandi við matvæli verði ekki þarna algjörlega fyrir borð borin. Það er kveðið á um það, að þarna sitji læknir og fulltrúi háskólans. Verkfræðideildar háskólans, en mér finnst alveg bráðnauðsynlegt að kveðið verði á um það, líka, að þarna sitji fulltrúi samtaka matreiðslumanna.