02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram við þessa 1. umr., að ég er í öllum meginatriðum sammála því sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. áðan og er í öllum meginatriðum sammála þeirri stefnu sem þetta frv. markar. Ég hef ekki haft tíma til þess að taka afstöðu til einstakra atriða, en stefnan sýnist mér hins vegar vera sú, að það eigi að taka af eins og unnt er vafa um eign á ýmsum landssvæðum sem um hefur verið deilt og um eign á orku og náttúruauðlindum, bæði í sjávarbotni og á landi. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt. Þær deilur, sem um þetta hafa staðið, hafa áreiðanlega ekki verið til góðs og ég fæ ekki séð raunar neinum til framdráttar, jafnvel ekki þeim sem hafa harðast sótt eftir því að hafa þennan eignarrétt.

Ég tek undir það með síðasta hv. ræðumanni, að ég hef fyrirvara um einstök atriði, eins og t.d. setninguna um afrétti og önnur óbyggð lönd utan heimalanda. Það finnst mér að þurfi að athuga nokkru nánar. Ég get tekið undir það með honum, að í mörgum tilfellum hygg ég að afrétt sé vel komin í höndum þeirra, sem afréttinn nýta. Hins vegar eru oft átök og deilur um einstök hlunnindi á slíkum afréttum sem ekki er hægt að feila að öllu leyti undir aldagamla nýtingu þeirrar beitar fyrst og fremst sem þar er um að ræða, t.d. veiði í vötnum og almenn útivist.

Ég tel ákaflega mikilvægt að allur fjöldi íbúa þessa lands verði hér þátttakandi og eignaraðili að landinu sjálfu. Það má alls ekki, eins og dálítið hefur borið á, útiloka þann mikla fjölda frá mikilvægri eignaraðild að landinu sem er hverjum manni, að ég hygg, nauðsynleg og eðlileg. En ég skil þetta frv. svo, að hér sé á það lögð áhersla að ganga ekki á þann afnotarétt af landinu sem bændur hafa haft til þessa. Þetta tel ég frumatriði og e.t.v. það mikilvægasta í þessu máli öllu.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins, eins og ég sagði, láta koma fram, að ég fagna þessu frv, sem ég tel mikilvægt, og vil óska þeim Alþb.-mönnum til hamingju með að því er mér finnst töluverða stefnubreytingu frá því sem mér hefur heyrst áður. Mér finnst þetta vera miklu meira niðri á jörðinni heldur en ég hef séð áður úr þeim herbúðum og æskilegt að taka þetta mál hér til umr.

Ég vil hins vegar segja það, — hv. 12. þm. Reykv. er nú ekki hér staddur, — en ég vil þó láta það koma fram, að ég á ákaflega erfitt með að skilja skilgreiningu hans á auðhringum sem kom fram áðan. Ef verkalýðsfélög eða sjóðir þeirra og sjóðir samvinnufélaga eru auðhringir, þá er það ólíkt þeirri skilgreiningu sem ég hef áður kynnst á þessu atriði. Þarna er um fjármagn að ræða sem einstaklingar, sem hafa valist þar til forustu á lýðræðislegan hátt, geta ekki ráðskað með að vild. Þeir eru bundnir í þessum félögum við ákveðin félagsleg málefni, sem þar er um að ræða, og það skilst mér vera töluvert annað en sú almenna skilgreining á auðhringum. (StJ: Ekki auðvald?) Sagði hann auðvald? Ég hef kannske ekki tekið rétt eftir. Mér heyrðist hann nefna auðhringa. Auðvald hefur nokkuð aðra merkingu. En í hugum flestra hygg ég þó að auðvald sé gjarnan skilið svipað og auðhringir, þ.e.a.s. vald sem getur notað fjármagn til þess að auka vald sitt og auka yfirráð sín á ýmsan kannske vafasaman máta. Staðreyndin er sú, að sem betur fer þá höfum við ekki slíkt auðvald hér á landi. Ég kannast ekki við að það sé hér, a.m.k. ekki í neinum þeim mæli sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, og ég held að við hljótum allir að fagna því.

Ekki fleiri orð um þetta. Ég vil sem sagt lýsa í meginatriðum ánægju minni með þá stefnu sem þetta frv. bendir til.