24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3833 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

169. mál, Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að rifja upp, að upphaflega fluttum við nokkrir hv. þm. frv. til l. um Kvikmyndasjóð. Ég var 1. flm. frv. Það var flutt ásamt mér af Jóni Árm. Héðinssyni og Steingrími Hermannssyni. Í þessu frv. var gert ráð fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs og stofnun Kvikmyndasafns, eins og er í því frv. sem hér er til umr. Einnig var gert ráð fyrir tekjuöflun til Kvikmyndasjóðs, þannig að um yrði að ræða ört vaxandi sjóðsmyndun í þessu skyni. Þetta frv. var flutt þrisvar sinnum áður en það var tekið til afgreiðslu á Alþ., en afgreiðslan varð að lokum með þeim hætti, að því var vísað til ríkisstj. með þeirri ósk, að hún legði fram nýtt frv. um sama efni þið allra fyrsta. Það tók menntmrn. hins vegar alllangan tíma að semja nýtt frv. Ég held að ég megi fullyrða að það hafi verið vorið 1975 sem frv, okkar um Kvikmyndasjóð var vísað til ríkisstj. Það hefur sem sagt tekið þrjú ár að endurskoða það frv. sem við á sínum tíma lögðum fram.

Ég verð að segja það alveg hreint út og umbúðalaust, að Ég tel að sú endurskoðun, sem fram fór á frv. okkar, hafi að litlu leyti verið til hins betra og nær að öllu leyti til hins verra. Ég held í fyrsta lagi að það sé óskynsamlegt, að Kvikmyndasafn Íslands hafi aðsetur í Fræðslumyndasafni ríkisins. Við gerðum ráð fyrir því á sínum tíma, að Kvikmyndasafnið yrði undir yfirstjórn menntamálaráðs og reyndar báðar stofnanirnar: Kvikmyndasjóður og Kvikmyndasafnið. Og það má færa mörg rök fyrir því, að þetta safn eigi tæpast heima með Fræðslumyndasafni ríkisins sem starfar á mjög ólíkum grundvelli. Þetta er hins vegar minni háttar atriði sem engin ástæða er til að gera of mikið úr.

Úr því að niðurstaðan varð sú í endurskoðuninni, að Kvikmyndasafnið skyldi sameinast Fræðslumyndasafninu, þá verður víst svo að vera. Sé ég ekki ástæðu til að gera neina brtt. við það atriði.

Hins vegar verð ég að vekja athygli á því, að ríkisstj. er ákaflega spör á fjármuni til Kvikmyndasjóðs og bersýnilegt að hann verður frá upphafi svo lítill og smár, að hann getur aldrei gegnt því hlutverki sem honum er ætlað. Í aths. með frv. segir berum orðum, aths. við 7. gr.:

„Um byrjunarfjárframlagið sjálft má deila og vafalaust er það fjárveitingavalds að meta þetta menningarframtak, en nefndin telur að minni fjárhæð en 30 millj. kr. miðað við verðgildi ársins 1976 komi ekki til greina.“ Ég endurtek: „minni fjárhæð en 30 millj. kr. miðað við verðgildi ársins 1978 komi ekki til greina.“

Svo leggur hæstv. ráðh. fram frv. þar sem gert er ráð fyrir því, að framlag til Kvikmyndasjóðs sé 30 millj. kr. á árinu 1979. 30 millj. kr. á árinu 1976 eru sennilega nærri 90 millj. á árinu 1979, a. m. k. ekki minni upphæð en 75–80 millj. Það er því greinilegt, að hérna á að skammta aðeins innan við helming af því sem nefndin telur algert lágmark. Þar að auki er enginn fastur tekjustofn ætlaður Kvikmyndasjóði, og það tel ég satt að segja vera það versta í þessu máli öllu.

Í frv. því, sem var hér til meðferðar á árunum 1973, 1974 og 1975 og var flutt upphaflega af okkur þremur hv. dm. og síðar líklega af einum 4 eða 5 dm., þ. á m. núv. formanni hv. menntmn., var gert ráð fyrir föstum tekjustofni til handa Kvikmyndasjóði. Var þar gert ráð fyrir að Kvikmyndasjóður fengi gjald af aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum samkv. lögum um skemmtanaskatt sem yrði 10%. En þar sem vitað er að með því mundu tekjustofnar annarra mikilvægra aðila skerðast, í þessu tilviki tekjustofnar Félagsheimilasjóðs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þá gerðum við ráð fyrir því, að tekjustofnar skemmtanaskatts yrðu nokkuð stokkaðir upp og þeim breytt á þann veg, að rúm yrði fyrir skattlagningu í þágu Kvikmyndasjóðs. en framlög til Félagsheimilasjóðs og Sinfóníuhljómsveitar skertast ekki. Í till. okkar var þetta fyrst og fremst þannig hugsað, að gjald við aðgang að vínveitingahúsum var hækkað lítillega, þ. e. a. s. úr 10 kr. í 30 kr. á sínum tíma. og þessi breyting á tekjustofnum Félagsheimilasjóðs og Sinfóníuhljómsveitar nægði til þess að fylla það skarð sem hér var um að ræða. Ég býst við að flestir hljóti að geta verið sammála mér um það, að auðvitað er eðlilegt að gjald af kvikmyndasýningum renni fyrst og fremst til að efla kvikmyndagerð í landinu til að efla íslenska kvikmyndalist, og það sé fullkomlega óeðlilegt eins og nú er, að þetta fé renni fyrst og fremst til uppbyggingar félagsheimila og til þess að styrkja Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég held að það verði alls ekki fram hjá því gengið, að það verði að stokka upp þessa tekjuliði alla. Það var einmitt gullið tækifæri sem menntmrn. fékk til þess að gera slíkt þegar frv. um Kvikmyndasjóð var vísað til menntmrn. Mér datt satt að segja ekki annað í hug en frv., þó það yrði kannske ekki nákvæmlega eins og frv. sem við lögðum fram á sínum tíma, fæli í sér einhverja uppstokkun á þeim tekjuliðum sem fyrst og fremst byggjast á aðgangseyri að kvikmyndahúsum. Þar er um að ræða dálítinn frumskóg gjalda af ýmsu tagi sem mörg hver eiga lítinn rétt á sér eins og nú er komið, og hefði verið fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að stokka þetta upp um leið, hvort sem meira eða minna af þessum gjöldum hefði síðan verið látið renna í Kvikmyndasjóð.

Rn það er eins og þeir menn, sem stóðu að endurskoðun frv. af hálfu menntmrn., hafi viljað spara sér verkin sem allra mest með því að fara eins yfirborðslega í þetta mál og hugsast getur. Þeirra lausn var einfaldlega sú að nefna til ákveðna upphæð, sem ætti að vera framlag úr ríkissjóði, og láta þar við sitja. Og svo fór það auðvitað eins og ævinlega fer í slíku tilviki, að í þeirri ógnarverðbólgu, sem yfir okkur dynur nú um stundir, varð þessi tala ákaflega smá frá þeim tíma er nefndin skilaði frv. og þangað til frv. komst hingað inn í Alþ. og á að vera til leiðbeiningar við úthlutun til Kvikmyndasjóðs á næsta ári. Það er stór munur, eins og ég nefndi hér áðan, á því, hvort 30 millj. koma til greiðslu á árinu 1976 eða hvort þær koma til greiðslu á árinu 1979.

Ég hafði vænst þess, að menntmn. Alþ. kæmu sér saman um breytingu hvað þetta atriði snertir, því að hér er augljóslega um ákveðin mistök að ræða. Það hefur greinilega verið ætlunin, þegar þetta frv. var samið á sínum tíma, að þarna yrði um að ræða 30 millj. á verðgildi ársins 1976. Það er bersýnilegt af grg. En frv. hefur bara legið einum of lengi í salti í menntmrn. og kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1979. svo að þessi upphæð er orðin æðirýr. Auðvitað hefði ég helst kosið að n. hefðu tekið tekjuöflunina til verulegrar endurskoðunar og umbreytingar, en kannske var ekki þess að vænta. Ég hefði talið að það hefði verið mikils virði, að upphæðin hefði verið hækkuð verulega, að hún hefði t. d. farið upp í 90 eða 100 millj. Sú lausn væri út af fyrir sig vel hugsanleg, þó að ég hins vegar óttist að þessi upphæð muni rýrna með tíð og tíma. Það er tilhneiging hjá fjárveitingavaldinu til að láta slíkar upphæðir hækka hægar en nemur breytingum á verðgildi íslensku krónunnar. Það er því mjög óhyggilegt, ef menn vilja slíkum sjóði vel, að miða tekjustofn hans við einhverjar ákveðnar upphæðir og einnig að fjvn. skuli algerlega ráða því, hvað í slíka sjóði fer. Sjóðir eins og þessir þurfa að hafa einhverja fasta tekjustofna til þess að styðjast við, og búast má við að aðeins með þeim hætti haldi sjóðirnir verðgildi sínu. Ég hef því leyft mér að flytja till. á þskj. 665 þar sem segir, með leyfi forseta, en brtt. er við 7. gr.:

„Leggja skal sérstakt gjald á alla selda aðgöngumiða að kvikmyndahúsum. Nemur gjald þetta 10% af brúttóverði og rennur í Kvikmyndasjóð.“

Ég veit að það er dálítið vandasamt að koma með brtt. af þessu tagi á seinustu stundu, sem hefur þær afleiðingar að annaðhvort er verið að hækka verð á aðgöngumiðum að Kvikmyndahúsum um 10% ellegar verið að skerða tekjur annarra stofnana. Ég hef því talið óhjákvæmilegt að þessari brtt. fylgdi svofellt ákvæði til bráðabirgða:

„Þrátt fyrir ákvæði laga um skemmtanaskatt, nr. 58 12. maí 1970, er fjmrh. heimilt að lækka gjöld af kvikmyndasýningum samkv. 2. og 7. gr. þessara laga úr 16.5% í 6.5%, en hækka aðgöngugjald að vínveitingahúsum samkv. 5. flokki 2. gr. sömu laga að því marki, að tekjur Félagsheimilasjóðs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands skerðist ekki.“

Þetta er reyndar alveg sama till. og ég var með á sínum tíma og hefur ekki hlotið náð fyrir augum menntmrn. En ég tel óhjákvæmilegt að koma með þetta ákvæði til bráðabirgða, enda þótt hugsanlegt væri að einhver önnur lausn yrði fundin á þessu tekjuöflunarvandamáli. Ég er svo sem ekkert allt of bjartsýnn um það, að hv. d. fáist til þess að samþykkja þessa breytingu sem ég hef gert hér till. um, en ég hef talið alveg óhjákvæmilegt að koma fram með þessa till., þannig að ljóst megi vera að það fyrirkomulag á Kvikmyndasjóði, sem hér er gerð till. um, er engan veginn fullnægjandi. Ég áskil mér a. m. k. fullan rétt til að vinna að breytingum á þessu fyrirkomulagi ef frv. verður að lögum nú á þessu þingi. Ég tel að þetta sé alls óviðunandi og að unnendur kvikmyndalistar og kvikmyndagerðarmenn verði áfram að herja á að þessi sjóður fái fastan tekjustofn.