24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

250. mál, endurnýjum á stöðum forstöðumanna ríkisstofnana

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 173 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um endurnýjun í stöðum forstöðumanna ríkisstofnana. 2. gr. frv. er aðalefni þess og er hún svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Forstöðumenn ríkisstofnana skulu þrátt fyrir ákvæði annarra laga skipaðir, settir eða ráðnir til 6 ára í senn. Að þeim tíma liðnum skulu stöður þeirra auglýstar að nýju. Heimilt er að endurráða þá til starfa, en stuðla ber að hæfilegri endurnýjun í þessum stöðum, einkum þegar sami maður hefur verið í starfinu í 12 ár eða lengur.“

Í 3. gr. er tiltekið til hverra þessi lög ná, þ. e. a. s. þar er um að ræða nánari skilgreiningu á hverjir eru forstöðumenn ríkisstofnana. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til ráðuneytisstjóra, bankastjóra, sendiherra, rektora og skólastjóra, sýslumanna. bæjarfógeta og annarra yfirmanna dómsmálaembætta, forstjóra atvinnufyrirtækja í eigu ríkisins og annarra forstöðumanna ríkisstofnana.

Lögin taka ekki til starfa, sem skipað er í að undangenginni kosningu, ekki til hæstaréttardómara, sbr. 61. gr. stjórnarskrárinnar, og ekki til forstöðumanna skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, þar sem starfa færri en 10 fastráðnir starfsmenn.“

Eins og hér kemur fram, ná ákvæði frv. aðeins til eins manns í hverri ríkisstofnun, þ. e. a. s. til yfirmannsins. En með því er alls ekki verið að segja að ekki sé víðar þörf á eðlilegri endurnýjun í störfum ríkisstarfsmanna. Hins vegar er ljóst að hvergi er jafnbrýnt að forðast stöðnun og kyrrstöðu og einmitt í starfi forstöðumanns stofnunar. Ég tel því að það sé alveg sérstök ástæða til þess að opna leið til að endurmeta skipan þessara embætta með skömmu eða ekki allt of löngu millibili.

Frv. þetta breytir að sjálfsögðu ákvæðum fjölmargra laga, og þar má auðvitað sérstaklega nefna lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en hins vegar haggar frv. ekki ákvæðum 20. gr. stjórnarskrárinnar sem einnig fjallar um réttindi embættismanna. Í 20. gr. stjórnarskrárinnar kemur skýrt fram, að það er heimilt að skipta um menn í embættum. En þar segir einnig:

„Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmætum eftirlaunum eða lögmætum ellistyrk.“ Þar segir einnig: „Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru upp í 61. gr.“ En í 61. gr. er fjallað um hæstaréttardómara. Þó að þar sé að vísu ekki talað um þá berum orðum, þá er ljóst af öllu samhengi málsins að ákvæðið á við þá eina.

Þessi ákvæði, sem ég hef hér rakið, fela að sjálfsögðu í sér einstæð fríðindi í þágu embættismanna. En það er ekki víst að þau séu eðlileg og sjálfsögð að sama skapi í augum nútímamanna, enda eru þau samin af embættismönnum fyrir rúmum 100 árum. Hins vegar er ljóst að þessi fríðindi verða ekki sniðgengin nema gerð sé breyting á stjórnarskránni, og ég hef því að sjálfsögðu tekið tillit til þess við samningu þessa frv.

Ég tel að réttur embættismanna til æviráðningar sé óeðlilegur og enn óeðlilegra sé þó að ekki megi skerða laun þeirra hið minnsta þegar þeir hverfa til annarra starfa. Eðlilegra væri að samhliða rétti til áframhaldandi starfa í þágu ríkisins ættu þeir rétt til ákveðinna hámarkslauna, sem t. d. gætu verið tveim. þrem eða fjórum launaflokkum neðar en það starf sem þeir áður gegndu. Ég tel líka alveg fráleitt að embættismaður geti komist á eftirlaun kannske 35 ára gamall vegna þess eins að nauðsynlegt er að láta hann breyta um starf innan ríkiskerfisins. Þetta eru ákvæði sem eru ekki í nokkru samræmi við skilning nútímamanna á því, hvað er eðlilegt og sjálfsagt. En fram hjá þessu verður ekki gengið. Ég geri því ráð fyrir að forstöðumaður ríkisstofnunar, sem hættir starfi sínu að 12 árum liðnum, geti tekið við einhverjum öðrum störfum og fái þá sömu laun og hann hefur áður fengið. Eins getur hann auðvitað kosið að komast á eftirlaun, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, en ég vek á því athygli að eftirlaunin eru mjög lág. Eftir 12 ára starf eru eftirlaun hjá ríkinu aðeins 15.5% og eftir 20 ára starf eru þau aðeins 30.5% af fullum launum. Því má nú gera ráð fyrir að menn, sem hafa fulla starfsorku, muni veigra sér við að hverfa úr störfum hjá ríkinu, a. m. k. er óhugsandi að þeir lifi á eftirlaunum einum saman, þannig að í langflestum tilvikum mundu þeir kjósa önnur störf innan ríkiskerfisins. Þar sem hér er venjulega um vel hæfa menn að ræða, þá er fullkomlega raunhæft að gera ráð fyrir því, að hægt væri að finna störf við þeirra hæfi.

Það leiðir nokkuð af eðli máls, að með hugtakinu forstöðumaður ríkisstofnunar er ekki átt við forseta- eða ráðherraembætti. Í 3. gr. er sérstaklega tekið fram, að lögin taki ekki til embættismanna sem hafa fengið starf sitt að undangenginni kosningu. Þau taka því ekki til presta eða biskups.

Ég vil taka það fram, að ég tel eðlilegt að í ýmsum tilvikum sé forstöðumaður ríkisstofnunar kosinn af starfsmönnum stofnunar og þá til ákveðins tíma, en skipun ráðh. sé fyrst og fremst formsatriði. Ég hefði t. d. vel getað hugsað mér að koma með till. um það, að starfsmenn Þjóðleikhússins kysu þjóðleikhússtjórann, — um það mál vorum við einmitt að fjalla hér rétt áðan, — en hef þó ekki gert um það till. hér. Um þá hugmynd verður að fjalla alveg sérstaklega. Hún er það sérstaks eðlis, að ástæðulaust er að blanda henni saman við þá meginhugmynd sem felst í þessu frv.

Í frv. þessu er gerð undantekning um forstöðumenn ríkisstofnana, þar sem starfa færri en 10 fastráðnir starfsmenn, þ. e. a. s. forstöðumenn skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Ástæðan er sú, að svo fámennar stofnanir eru flestar staðbundnar. Það gæti verið hætta á því, að erfitt reyndist að finna þeim hæfa forstöðumenn, ef mannaskipti væru lögbundin, að tiltölulega skömmum tíma liðnum.

Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir því, að sú nýskipan, sem í þessu frv. felst, komi til framkvæmda í áföngum á næstu þremur árum og yrði við það miðað, að nýtt 6 ára ráðningartímabil í þriðjung þessara embætta hefjist á síðari hluta þessa árs og ráðið verði í annan þriðjung starfanna á árinu 1979. Ákvæði þetta skýrir sig nokkuð sjálft. Hugsunin er sú, að ekki verði um það að ræða að skipt sé um forstöðumenn ríkisstofnana alla í einu, heldur dreifist þessi umskipti þannig að um verði að ræða ákveðinn hóp forstöðumanna á hverju ári sem skipt er um.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni þessa frv. Það er flutt í þeim tilgangi að stuðla að hæfilegri endurnýjun og mannaskiptum í ríkiskerfinu. Það felur það í sér í fyrsta lagi, að forstöðumenn ríkisstofnana eru aðeins ráðnir til takmarkaðs tíma. þ. e. a. s. til 6 ára í senn, og ráðning þeirra er því tekin til endurskoðunar á 6 ára fresti. Í öðru lagi er beinlínis ætlast til þess, að þegar þeir hafa gegnt starfi sínu tvívegis í 6 ár, þ. e. a. s. í 12 ár, þá sé að öðru jöfnu stuðlað aðumskiptum. En ég tek það skýrt fram og bendi á að lögin skylda ekki ráðh. til að skipta um eftir 12 ára tímabil. Einungis segir í lagaákvæðinu segir í lagaákvæðinu að stuðla beri að hæfilegri endurnýjun í þessum stöðum, einkum þegar sami maður hefur verið í starfinu 12 ár eða lengur. Ef ráðh. þykir óhjákvæmilegt og eðlilegt að sami maður gegni starfinu áfram, þá hefur hann fulla heimild til þess, en lagaákvæðið er hins vegar til þess fallið að gera ráðh. auðveldara að skipta um og gera þeim manni, sem vikið er úr starfinu eftir 12 ára tímabil, sjálfum auðveldara að sætta sig við að hann verði að hverfa úr starfinu, þar sem hér er um almenna stefnu laganna að ræða sem ráðh. beri að taka ákveðið tillit til.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni þessa frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. allshn.