25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (3055)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli á máli, sem hljótt hefur farið og varðar mjög hagsmuni bænda. Þar á ég við útflutningsgjald af dilkakjöti. Í því sambandi verð ég að fá tækifæri til að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. landbrh.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vandamál landbúnaðarins hafa verið mjög í sviðsljósinu nú í seinni tíð. Það er ljóst, að bændur hafa orðið að búa við stórlega skert kjör, svo að vantað hefur árlega 25–30% til að laun þeirra jöfnuðust á við kjör svonefndra viðmiðunarstétta. Tekjulægstu bændur hafa vafalaust verið í hópi þeirra landsmanna sem búið hafa við allra lökust kjörin.

Ástæða þess, að þetta vandamál hefur farið vaxandi, er auðvitað í fyrsta lagi það öngþveiti í efnahagsmálum sem ríkt hefur hér á landi á undanförnum árum og þá sér í lagi verðbólguskeið núv. stjórnar, en verðbólguþróunin hefur að sjálfsögðu komið mjög þungt við efnahag bænda. Í öðru lagi er um að ræða skipulagsleysi og stefnuleysi í framleiðslumálum landbúnaðarins, sem lengi hefur verið ríkjandi hér á landi, en augu margra eru nú loks að opnast fyrir.

Það er rétt að vekja á því athygli í þessu sambandi, að engin veruleg framleiðsluaukning hefur orðið á kindakjöti á undanförnum árum. Það er ekki af þeirri ástæðu sem vandamál er nú fyrir hendi. Árið 1975 var heildarframleiðslan í landinu um 14700 tonn, en hún var á s. l. ári um 14000 tonn.

Ástæðan er fyrst og fremst sú, að sala innanlands hefur dregist saman, og á það sér ýmsar skýringar: Í fyrsta lagi minnkaðan kaupmátt launa meðal fólksins við sjávarsíðuna. Í öðru lagi minnkaðar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Í þriðja lagi hækkandi söluskatt sem hefur gert þessar vörur dýrari en ella þyrfti að vera, og má á það minna að t. d. er ekki söluskattur á sjávarafurðum. Afleiðingin hefur orðið sú, að neyslan hefur dregist nokkuð saman, sérstaklega á árunum 1976 og 1977.

Án þess að fjölyrða frekar um þetta vandamál má aðeins á það minna, að vandinn hefur vaxið verulega þar sem úrlausnin hefur dregist. Til þess að draga úr þessum vanda hefði strax á s. l. ári, ekki síðar en á s. l. hausti, þurft að fella niður söluskatt á kjötvörum og gera markaðsáætlun sem stefndi að því að komast hjá verulega auknum útflutningi. Ráðamenn landbúnaðarmála virðast hins vegar hafa snemma gefist upp á því að koma í veg fyrir, að bændur yrðu fyrir stórfelldum skell af völdum þessa markaðsvandamáls, og hafa lítið annað gert en hlýða á þetta. Bændur hafa þó allan þennan vetur hamrað á þeirri kröfu sinni, bæði á stéttarsambandsfundum og á almennum fundum um allt land, að söluskattur yrði afnuminn af kjötvörum, en þeir hafa, eins og kunnugt er, talað fyrir daufum eyrum. Nú virðast afleiðingarnar af þessu uppsafnaða vandamáli vera að dynja yfir af fullum þunga.

Spurst hefur að Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi sent kaupfélögum og öðrum sláturleyfishöfum um allt land kröfu um greiðslu útflutningsgjalds af kindakjöti — kröfu sem nemur í mörgum tilvikum 60–70 millj. kr. á sláturleyfishafa og allt upp í 150 millj. kr. Gjald þetta mun nema um 70 kr. á hvert kg dilkakjöts, þ. e. a. s. rétt um 1000 kr. á meðaldilk, og það þýðir fljótt á litið að bóndi með meðalsauðfjárbú fær á sig skell af völdum þessarar ákvörðunar sem nemur öðru hvorum megin við 1/2 millj. kr. Þetta mun vafalaust mörgum bóndanum þykja æðiískyggileg tíðindi, að ekki sé meira sagt. Segja má að með þessari gjaldtöku, um og yfir 1/2 millj. kr. á lítið bú, sé raunverulega verið að kippa rekstrargrundvellinum undan afkomu slíkra búa, og það er greinilegt að hér er á ferðinni slíkt vandamál fyrir fjöldann allan af bændum að ekki sér fyrir endann á.

Vegna þess að þetta mál hefur alls ekki verið upplýst í fjölmiðlum og mér er ekki kunnugt um að nein tilkynning hafi verið send út um þetta mál, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. nokkurra spurninga í þessu sambandi, en þessar spurningar hef ég þegar látið hann fá. Þær eru þannig:

1. Er það rétt, að ákvörðun hafi verið tekin um innheimtu útflutningsgjalds af kjöti sem nemur 70 kr. á hvert kg dilkakjöts og 35 kr. á kg ær- og hrútakjöts?

2. Ef svo er, gerir landbrh. sér ljósa grein fyrir því, hversu gífurleg kjaraskerðing er fólgin í þessari ákvörðun fyrir þá sem sauðfjárbúskap stunda?

3. Er það ætlun ríkisstj., að sauðfjárbændur beri slíkan skell án nokkurra gagnráðstafana til að rétta þeirra hlut?

4. Eru engar frekari ráðstafanir fyrirhugaðar til að auka sölu á dilkakjöti innanlands?

5. Eru engar ráðstafanir fyrirhugaðar til að skipuleggja betur framleiðslu á dilkakjöti innanlands í því skyni að samræma betur framboð og eftirspurn á inniendum markaði?