26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4003 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

45. mál, Iðnþróunarstofnun Austurlands

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frekar en orðið er. En ég vil mótmæla því, að nokkuð sé óheiðarlegt við það að vísa máli til ríkisstj. Hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan, að það væri óheiðarlegt. Þetta er gömul þingvenja. (Gripið fram í.) Þetta er ekki nýtt og er eðlilegra undir mörgum kringumstæðum. Ef málin eru þannig, að þau þyki þess virði að þau verði athuguð frekar, þá er miklu eðlilegra að vísa þeim til ríkisstj. heldur en beinlínis að fella þau. Sannleikurinn er sá, að meiri hl. iðnn. var alls ekki mótfallinn því, að þessi stefna gæti verið sú rétta. að koma upp svona stofnunum úti á landi, ekki aðeins á Austurlandi, heldur í öllum landsfjórðungum, en meiri hl. iðnn. taldi þetta alls ekki tímabært eins og er. miðað við það fjármagn sem er úr að spila. Með því að fella frv. ekki, en hafa þann hátt á að vísa því til ríkisstj., er lögð áhersla á að málið skuli athugað, og hæstv. ríkisstj., þegar hún fær málið í sínar hendur, veit, að iðnn. og sá meiri hl. sem kann að standa að afgreiðslu málsins, vill að málið sé athugað. Málið er þess virði, að það sé kannað. Málið er ekki þannig, að þd. vilji fella það. Það er reginmunur á þessu. Þess vegna er það á miklum misskilningi byggt þegar hv. 3. þm. Reykv. fullyrðir að þetta sé óheiðarleg afgreiðsla og hún sé óeðlileg, það hefði verið betra fyrir n. að leggja til að frv. yrði fellt. Meiri hl. iðnn. taldi ekki ástæðu til þess, heldur leggur til að málið fari til ríkisstj. til frekari athugunar og þá til áherslu á því, að það sé þörf á meira fjármagni og frekari athugun á þessum málum.

Það er svo alltaf hægt að deila um það, þegar mál eru send til umsagnar, hvort umsagnirnar eru á rökum reistar, hvort þær skoðanir, sem koma fram í umsögnum, eru réttar eða rangar. Hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan að það kæmi fram röng skoðun í umsögnunum. Sú er skoðun hv. þm., en ekki er alveg víst að sú skoðun sé rétt. Og ég fyrir mitt leyti tel að umsagnirnar séu að því leyti til réttar, að það sé alls ekki tímabært og alls ekki eðlilegt, meðan ekki er um meira fjármagn að ræða, að leggja í þann kostnað sem því fylgir að stofna svona útibú á Austurlandi og þá sennilega fljótlega annað á Norðurlandi og svo þar næst kannske það þriðja á Vestfjörðum, að dreifa kröftunum meðan fjármagnið, sem úr er að spila, er svo lítið, og leggja í mikinn stofnkostnað. Það getur ekki verið rétt á meðan málin standa þannig.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði að alls ekki væri ætlunin að taka verkefni af öðrum stofnunum, eins og Iðnþróunarstofnun Íslands. Það hljóta að vera skiptar skoðanir um það. Ef stofnun væri sett niður á Austurlandi, þó hún væri lítil, þá yrði hún að taka að sér verkefni sem Iðnþróunarstofnunin eða væntanleg tæknistofnun hefði annars tekið að sér.

En það er ástæðulaust að vera að deila um þetta eins og sakir standa. Ég tel að það sé ekki tímabært og það sé ekki skynsamlegt, á meðan við erum ekki sterkari en þetta fjárhagslega og á meðan við treystum okkur ekki til að leggja miklu meira til þessara mála, að dreifa kröftunum og leggja í aukinn kostnað. Ég tel að við getum gert meira með því að bæta skipulagið og taka upp betri vinnubrögð á ýmsum sviðum. Ég vil þá taka undir það, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan, að landsbyggðin þarf að vera með í uppbyggingunni og í iðnaðarþróuninni og tileinka sér iðntæknina. Það þarf landsbyggðin að gera. En það getur hún jafnvel gert betur með því að leita til einnar stofnunar, þótt hún sé í Reykjavík, ef hún er öflug og vinnur skipulega, heldur en þótt hver landsfjórðungur hefði eigin stofnun sem væri vanmáttug og fjárvana.