27.04.1978
Neðri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4030 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

299. mál, jöfnunargjald

Gunnar J. Friðriksson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. skuli nú loks fram komið, en harma um leið hversu seint það er á ferðinni, þannig að teflt er á tæpasta vað með að það nái að fá fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.

Það eru aðeins tæp tvö ár eftir af aðlögunartíma íslensks iðnaðar að markaðsbandalögum Evrópu, þannig að eftir þann tíma eru burtu fallnir allir þeir verndartollar sem íslenskur iðnaður hefur búið við. Þessi 8 ár, sem liðin eru og iðnaðinum var ætlað að nota til þess að búa sig undir opna samkeppni, hafa því miður ekki notast eins og forsvarsmenn iðnaðar höfðu gert sér vonir um þegar gengið var í EFTA. Ber þar að vísu hæst verðbólgu þá sem hrjáð hefur þetta þjóðfélag og haft hefur geigvænleg áhrif á íslenskt atvinnulíf, ekki síst iðnaðinn. Það fer ekki milli mála, að nú, þegar 8 ár eru liðin frá því að við gengum í EFTA, eru mörg þau fyrirtæki, sem þá stóðu vel og áttu sæmilegt eigið fjármagn, verr stödd en þegar gengið var í EFTA. Fjármagn þeirra hefur meira og minna brunnið upp í verðbólgunni.

Í sambandi við frv. þetta sakna ég þess, að ekki skuli kveðið á um hvernig fjármunir þeir, sem innheimtir verða, skuli notaðir. Það væri mjög eðlilegt að þar væri kveðið ákveðið á um að þessum fjármunum, sem búið er að innheimta af iðnaðinum, skuli varið í hans þágu. Það er tekið fram í frv., að tekjurnar skuli að hluta til notaðar til eflingar iðnþróunar. Ég hefði kosið, að hér væri mun ákveðnar að orði komist, og vænti þess, að við meðferð í n. þeirri. sem frv. verður vísað til, muni þetta tekið til athugunar. Ég vil sérstaklega benda á að endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti fyrir árin 1975 0g 1976 þurfa nauðsynlega að eiga sér stað. Iðnaðurinn fékk endurgreiddan uppsafnaðan söluskatt vegna útflutnings árin þar á undan og hafði að sjálfsögðu gengið út frá að því yrði haldið áfram. Sú varð því miður ekki raunin og telur iðnaðurinn sig eiga þessar upphæðir inni hjá ríkissjóði. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að kveðið verði ákveðið á um það, að útflutningsiðnaðurinn skuli fá þessar endurgreiðslur fyrir árin 1975 og 1976.

Ég vil minna á að frv. þetta, ef að lögum verður mun leiðrétta að nokkru þann mismun sem íslenskur iðnaður býr við gagnvart erlendum keppinautum, og á það við bæði á erlendum og inniendum mörkuðum. En þetta er þó aðeins hluti af því sem laga þarf, því að enn á talsvert í land með að íslenskur iðnaður búi við sömu samkeppnisaðstæður og félagar þeirra í nálægum löndum. Vil ég þar sérstaklega nefna skatta og tolla og álögur á vélar og tæki. Er þar síðast að nefna nýleg dæmi um að gjöld af vörulyfturum, sem eru orðnir nær ómissandi tæki við alla framleiðslu, voru felld niður um tíma í samræmi við ákvæði í tollalögum og eins og iðnaðinum hafði verið lofað. Nú hefur þetta verið afturkallað. Nefni ég þetta sem dæmi um það misrétti og misræmi sem er á milli samkeppnisaðstöðu innlendra og erlendra framleiðenda.

Í sambandi við það, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni, að hér væri um skatt á neytendur að ræða, vil ég benda hv. þm. á að þetta gjald kemur eingöngu á innfluttar vörur sem eru hliðstæðar vörum sem framleiddar eru í landinu. Það er enginn neyddur til að kaupa þessar erlendu vörur. Það eru til inniendar vörur sem eru fyllilega sambærilegar að gæðum og verði. Ætti þetta þá frekar að verða til þess, að neytendur sneru sér að innienda varningnum, og er það vissulega kostur við þetta gjald, þó að ég sé áfram fylgjandi því, að innflutningsgjöld af iðnaðarvörum séu felld niður. Áhrif þessa gjalds á vísitöluna mun vera hverfandi. Ég vil vísa á bug fullyrðingum hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar um það, að innlendur iðnaður komi til með að hækka sínar vörur sem samsvari þessu gjaldi. Íslenskur iðnaður á í harðri samkeppni innbyrðis og við innflutning og hefur ekki svigrúm til þess að haga verðlagningu sinni eftir vild. Hins vegar kann þetta að leiða til lækkunar á íslensku verðlagi, ef gjald þetta verður notað í þágu iðnaðar.

Ég vil þá ljúka máli mínu með því að láta í ljós von um þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi með þeim breytingum sem ég hef nefnt.