28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

289. mál, heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn, Ed. hefur fjallað um frv. til l. um heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Svo sem fram kom í ræðu ráðh. við 1. umr. um þetta mál er frv. það, sem hér liggur fyrir árangur af starfi nefndar sem heilbr.- og trmrh. skipaði fyrir u. þ, b. einu ári í þeim tilgangi að gera till. um skipulegt samstarf háls-, nef- og eyrnadeildar Borgarspítalans og heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og félagsins Heyrnarhjálpar. Enn fremur átti nefndin að gera heildartillögur um framtíðarfyrirkomulag talmeina- og heyrnarþjónustu og skipulag heyrnarmálefna hér á landi.

Mikil og vaxandi þörf er fyrir bætt skipulag og aðstöðu til rannsókna og lækninga á þessu sviði hér. Verði það frv. að lögum, sem hér liggur fyrir, þá ætti það að tryggja eina fullkomna rannsókna- og lækningastöð í landinu í þessum efnum. Það er einnig mjög mikilvægt ákvæði í þessu frv., að hægt er að stofna deildir í heyrnar- og talmeinahjálp við heilsugæslustöðvar úti á landi og þessar deildir mundu þá njóta sérfræðiþjónustuaðstoðar frá aðalstofnuninni í Reykjavík.

Það, sem unnið hefur verið hér í heyrnarhjálp, hefur sérstaklega — og fram undir það síðasta einnig á talmeinasviði — verið unnið á vegum félagsins Heyrnarhjálpar, sem notið hefur lítilfjörlegs ríkisstyrks til þess að sinna þessari þjónustu. Þar af leiðandi hefur sú þjónusta ekki verið fullnægjandi. Félaginu hefur verið ljóst síðustu árin, að breytingu þurfti að gera á. Ég held að þetta sé að frumkvæði þess félags, sem málum á nú að skipa á annan veg en hingað til hefur verið.

Við búum við vaxandi heyrnarskerðingu af tveimur eða kannske fleiri orsökum: í fyrsta lagi vegna hávaðasamrar vinnu, sem með tækniöldinni hefur orðið meira heyrnarskaðandi en áður var, en einnig af því að skemmtanalífið er orðið á þann veg, að þaðan má einnig vænta heyrnarskertra sjúklinga. Aftur á móti hafa framfarir orðið á ýmsum sviðum í þessum málum, þ. á m. hafa mjög mikilvægar skurðaðgerðir orðið algengar nú upp á síðkastið, sem geta gjörbreytt möguleikum heyrnardaufra, og lukkast mjög oft að gefa þeim aftur sæmilega heyrn. Allt þetta stuðlar að því, að nauðsynlegt sé að fá hér fullkomna heyrnar- og talmeinastöð. Slíkt er talið að verði best gert með samþykkt þessa frv.

Samkv. beiðni þeirra aðila, sem að frv. stóðu, flytur n. brtt. við 6. gr. frv. 6. gr. hljóðar svo nú: „Stofnunin skipuleggur ferðir sérfræðinga til aðstoðar heyrnardaufum úti á landi. Skulu slíkar ferðir farnar a. m. k. árlega. Stofnunin skal hafa náið samstarf við háls-, nef- og eyrnadeild Borgarspítalans í Reykjavík.“

Viðbótin, sem við leggjum til að komi, er svo hljóðandi :

„Við greinina bætist: enda sé henni ætluð framtíðarstaðsetning í þegar hönnuðum húsakynnum göngudeildar H.N.E. í Borgarspítalanum.“

Enn fremur leggjum við til að 7. gr. verði breytt á þann veg, að eitt orð bætist þar inn í. Greinin hefjist svo:

„Stofnunin hefur sérfræðilega umsjón með heyrnaruppeldis- og læknisfræðilegri meðferð.“ Að öðru leyti höfum við gefið út svofellt nál.: „N. hefur fjallað um frv. Hún hefur fengið á sinn fund ýmsa þá aðila, er að málinu hafa unnið. N. leggur einróma til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum er hún flytur till. um á sérstöku þskj.