29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4236 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu á þessu stigi um það skattalagafrv. sem hér er lagt fram, enda eins og síðasti hv. ræðumaður ekki kynnt mér þær breytingar sem komið hafa frá Nd. nú í nótt.

En það er ýmislegt í þessu frv. sem ég vil gera aths. við og þá fyrst taka undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég tel að ekki sé nægjanlega gætt hagsmuna þeirra sem eitthvað eiga, skulum við segja. Það er ein af skyldum Sjálfstfl. að standa vörð um hagsmuni einstaklingsins og eignarréttinn, en mér finnst að sumu leyti höggið að honum.

Þá stendur, svo að ég fari aftarlega í frv., á bls. 29, í 94. gr., um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir, með leyfi forseta:

„Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða aðra aðila sem hann getur veitt upplýsingar um.“

Nú skulum við segja að þær lögregluaðgerðir, sem getið er um, verði teknar útúr. Þó finnst mér allt of langt gengið ef með lögum er hægt að skylda hvern sem er til að njósna um hvern sem er hvenær sem er, ef skattayfirvöldum dettur í hug að leita upplýsinga um náungann, t. d. ef skattyfirvöldum dettur í hug að hann geti veitt þær upplýsingar sem gætu klekkt á viðkomandi aðila.

Ég vil enn gera að umræðuefni 59. gr, þessa frv., sem varð til þess má segja, að frv. sem ekki komst í gegn á síðasta þingi, var tekið til endurskoðunar víðar en í þn. Það er enn þá talað um að áætla tekjur þeirra atvinnurekenda sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, eins og þar kemur fram, og tel ég það andstætt þeim lífsskoðunum, sem ég hef, og trúi því tæplega, að sjálfstæðismenn hér á þingi séu þessu ákvæði samþykkir. Ég tel fjarstæðu að ætla sér að láta ríkisskattstjóra setja árlega viðmiðunarreglur til ákvörðunar um skattlagningu á fólk, hvernig sem útkoma þessara smáatvinnurekenda annars kann að vera.

Það er annað í þessari 59. gr. sem ég er einnig á móti, og ég ætla að fá leyfi til þess hjá hæstv. forseta að lesa það upp. Þar er vitnað í 2. mgr. 1. tölul. A-liðar í 7. gr., og þar er talað um almenn ákvæði um skattskyldar tekjur í II. kafla, það sem til tekna skal telja, og skiptir eigi máli hver innir greiðslu þeirra af hendi.

Í 7. gr. segir svo: „Hvorki skiptir máli hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum.“

Nú vitum við að ungt fólk kemur upp þaki yfir höfuðið að miklu leyti í vinnuskiptum, og ég verð að segja það, að það hefur verið eitt af baráttumálum verkamanna í Sjálfstfl. að fá að vera í friði með vinnuskipti sín á milli þegar menn hjálpa hver öðrum til að koma sér þaki yfir höfuðið. Og ég geri ráð fyrir því, að þetta sé mál sem skiptir svo til hvern einasta byggingaraðila, sem á unga aldri fer út í fjárfestingar í stað þess að skemmta sér fyrir tekjur sínar. Ég vara við þessu, því að hér er ríkisskattstjóra gert að skyldu að meta þessi vinnuskipti.

Þá get ég ekki séð að það sé jöfnuður á milli hlutabréfaeigna annars vegar í hlutafélögum, sem eiga fasteignir, og hins vegar í hlutafélögum, sem eiga ekki fasteignir. Hlutafélag, sem á ekki fasteignir, getur verið miklu betra fyrirtæki heldur en félag sem á fasteignir.

Svona gæti ég talið nokkuð lengi, en ég ætla ekki að gera það á þessu stigi, Ég vil þó benda á, áður en ég lýk máli mínu um þetta mál hér og nú, að ég hef talsvert við 4. gr. frv. að athuga. Það eru taldir aðilar undanþegnir skattskyldu og þar er nr. eitt forseti Íslands og maki. Ég er ekki með núv. forseta Íslands í huga, heldur almennt þá sem gegna forsetastörfum. Ég geri ekki ráð fyrir að forsetafrúin hafi það í huga nú eða upplýsingar liggi fyrir um að hún ætli að fara að vinna úti. En það gæti komið að því, að forseti Íslands væri kona og eiginmaðurinn ynni úti. Mér finnst alveg fráleitt, ef það væri hátekjumaður, bara vegna þess að hann er giftur forseta Íslands, að hann sé ekki skattskyldur. Það getur verið stóreignamaður. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, ef ættum Rockefeller og hann yrði forseti Íslands, að hann yrði skattlaus af öllum þeim tekjum sem hann hefur utan við embættistekjur sínar. En mér finnst jafneðlilegt að forseti Íslands og maki, ef hann hefur embættistekjur, sé skattfrjáls af þeim embættistekjum sem hann hefur, en ekki af tekjum sem hann hefur annars staðar frá.

Þá er þar í sömu grein nr. tvö ríkissjóður, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki. Af hverju eiga ríkisfyrirtæki ekki að geta borið nákvæmlega sömu gjöld og önnur fyrirtæki, ef á annað borð er talið heppilegt að hafa þau starfandi á vegum ríkisins. Þau gæfu af sér tekjur til ríkissjóðs ef þau væru ekki rekin af ríkinu. Sama er um 3. lið: Sýslufélög, sveitarfélög og fyrirtæki sem þau reka. Og í 4. lið sömu greinar er talað um erlend ríki og alþjóðastofnanir og fasteignir sem þær nota vegna viðurkenndrar starfsemi sinnar hér á landi. Þar finnst mér að eigi að koma inn: ef í gildi eru gagnkvæmir samningar, og þá náttúrlega eins og vant er þurfi að sækja um leyfi hverju sinni til þess að festa hér fé í fasteignum. Það þarf að liggja ljóst fyrir, að það sé þá vegna viðurkenndrar starfsemi erlendra ríkja hér á landi og að það ríki þá gagnkvæmir samningar þar um eins og á öllum öðrum sviðum í samskiptum milli þjóða.

En sem sagt, ég ætla ekki á þessu stigi að hafa þessi orð fleiri, en eins og frv, er í dag mun ég greiða atkv. gegn því.