29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4270 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég verð nú að játa eins og fleiri hv. þm. að ég hef ekki átt kost á því að kynna mér þetta frv. svo sem skyldi. Hér er um stórmál að ræða, allsherjarendurskoðun á þessum mikla lagabálki. Ég mun því ekki ræða um málið almennt séð.

Ég hef veitt því athygli í umr. nú um málið, að ein allmikilvæg breyting er gerð með þessu frv. varðandi rekstur sjúkrahúsa. Í 34. gr. frv., 4. lið, er nú skýrt sagt að viðhald fasteigna og tækja í sjúkrahúsum skuli greiðast að jöfnu af ríki og sveitarfélögum. En í reyndinni hefur þetta verið þannig, að þessi kostnaður eins og annar hefur fallið saman við hinn almenna kostnað húsanna og það er daggjaldakerfið sem þarna hefur komið á móti eða ráðið tekjunum. Þessi hús hafa verið undir sérstöku eftirliti í sambandi við þær tekjur sem húsin geta haft, og kostnaður jafnt af viðhaldi fasteigna og endurnýjun tækja hefur fallið inn í hinn sameiginlega kostnað. Nú er það tekið mjög skýrt fram í lögunum, að eignaraðild sjúkrahúsa sé sú sama og gildir um stofnframlag aðila til húsanna, þ. e. a. s. að ríkið eigi 85% og sveitarfélögin 15%. Ég hef því alltaf litið þannig á, og ég hygg að það hafi allir gert, að ef til þess kæmi að upp á vantaði hjá húsunum í rekstri þeirra til þess að standa undir eðlilegu viðhaldi og endurnýjun tækja, þá auðvitað greiddi hvor aðili sitt: sveitarfélögin 15% og ríkið 85%. Nú er þessu breytt með þessu frv. og því er slegið föstu, að sveitarfélögin skuli greiða jafnan hluta af þessum kostnaði, þ. e. a. s. viðhaldi eignanna og endurnýjun tækja. Þess er að vísu getið um leið, að það er verið að taka af öll tvímæli um að þessar reglur skuli gilda varðandi viðhaldskostnað og endurnýjun tækja í heilsugæslustöðvum, og á það er bent, að því hafi verið haldið fram að túlka bæri eldri lög þannig að þessir kostnaðarliðir ættu að hvíla eingöngu á sveitarfélögunum þar sem um heilsugæslustöðvar væri að ræða, en nú væri þessu lyft upp í 50% eða helming á hvorn aðila og þetta væri til bóta fyrir heilsugæslustöðvarnar. Þetta er eflaus rétt, og ég tek undir það, að sjálfsagt er að leiðrétta það.

En ég hlýt að vekja athygli á því, að það e verið að stíga skref aftur á bak varðandi rekstur sjúkrahúsanna, og að mínum dómi er þetta skref, sem þarna er stigið aftur á bak, órökrétt , óeðlilegt á allan hátt. Viðhald á nútímasjúkra húsi er ekkert smáræði ef þar er staðið eðlileg að, og endurnýjun á tækjum sjúkrahúsanna, sé nú teljast til stofnkostnaðar, er auðvitað stór mál líka.

Nú er auðvitað hægt að hugsa sér að þetta falli áfram inn í daggjaldakerfið í sambandi við hinar almennu tekjur. Ég hygg þó að þegar þetta er sagt á svona skýran hátt eins og hér er, að hvor aðili skuli greiða þetta að jöfnu, þá verði gengið eftir því að sveitarfélögin borgi sinn helming af þessum kostnaði, alveg án tillits til þess sem daggjöldin geta gefið í tekjur. Ég er algerlega á móti þessu og tel þetta órökrétt. Ef það er svo, að ríkið á að eiga 85% af sjúkrahúsunum, þá verður ríkið líka að halda eign sinni við til jafns við mótaðilann. Það var nokkuð deilt um það á sínum tíma, að þessi undirstrikun á eignaraðildinni meira að segja gengi svo langt að hún breytti fyrri eignaraðild að þeim sjúkrahúsum sem byggð höfðu verið eftir eldri lögum. Það var nokkuð deilt um það á sínum tíma. En sem sagt, ákvæði í lögunum eru mjög skýr um þessa eignaskiptingu, og satt að segja sýnist mér að ríkið hafi gengið mjög stíft eftir því, að það réði öllu varðandi byggingu, breytingu og annað þess háttar á þessum húsum, hefur raunverulega tekið að sér yfirstjórnina varðandi þetta atriði. Það er búið sem áður var, að stjórnir húsanna mættu hafa t. d. með byggingarframkvæmdir að gera sjálfar. Nú er það Innkaupastofnun ríkisins sem býður öll verk út og stjórnar þeim og ræður menn og hefur algerlega með þetta að gera í krafti þess að ríkið á 85% af eigninni. Endurnýjun tækja er heldur ekkert smáræði í sambandi við sjúkrahús því að tækin eru dýr.

Ég held að þetta sé ekki rökrétt, þetta sé óeðlilegt og þetta muni leiða af sér viss vandkvæði og það sé ekki fært að stíga þetta skref aftur á bak. Ég hef því leyft mér að flytja skrifl. brtt. við þennan lið og hún hljóðar þannig — það er við 34. gr. frv., lið 34.4 og till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna, en greiða viðhald fasteigna og tækja að jöfnu“ komi: og greiða viðhald fasteigna og tækja í sömu hlutföllum“ — en áður er búið að tala um eignarhlutfallið.

Ég vil taka það fram, að verði þessi till. mín samþ. við 2. umr. tel ég sjálfsagt að það verði einnig flutt brtt. við ákvæðin í 20. gr. sem fjalla um sams konar atriði varðandi heilsugæslustöðvar. En í henni segir að viðhalds- og endurnýjunarkostnaður fasteigna og tækja greiðist að jöfnu af hvorum aðila, ríkissjóði og sveitarfélögum, varðandi heilsugæslustöðvar. Ég mun þá hlutast til um það að flytja brtt. einnig við þennan lið í 20. gr. til þess að setja heilsugæslustöðvarnar þarna á sama stig, þannig að það verði líka eignarhlutfallið sem ræður í þessum efnum og heilsugæslustöðvarnar fái þá 85% af viðhaldskostnaði og 85% af kostnaði við endurnýjun tækja frá ríkinu og heimastaðurinn leggi þá fram 15%. Þá þarf ekki að koma til neins vanda með það, því að þá gildir það sama varðandi þetta atriði um sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. En að þurfa að leiðrétta málin gagnvart heilsugæslustöðvunum eins og gert er í þessu frv. með því að gera hlut sjúkrahúsanna lakari, það tel ég fráleitt. Ég er á móti því að leysa málið á þann hátt. Ég veit að hv. þm. sjá að það er óeðlilegt þegar ríkið á 85% af eign og hefur ráðið byggingu og gerð og ákvörðun tækja og ráðið öllu um kaup tækja og allt saman og ráðið reyndar yfirmennina sem eiga að vinna með þessum tækjum, að þá sé sagt að sveitarfélagið eigi að endurnýja öll tækin sem æðioft kemur til. Þetta fær, held ég, ekki staðist í framkvæmd. Þetta er óeðlilegt og það á að breyta þessu.

Ég efast auðvitað ekkert um að hæstv. heilbrrh. getur stutt þetta. En hann hefur eflaust ekki treyst sér til að komast lengra í leiðréttingu á þessum málum en aðviðhalds- og endurnýjunarkostnaður varðandi heilsugæslustöðvar yrði greiddur að hálfu og þá þótti eðlilegt að setja þetta hvort tveggja á sama stig. Og ég get vel viðurkennt það sjónarmið. Till. mín beinist að þessu, og ég vænti að hún nái fram að ganga.

Um önnur atriði, sem hér hafa verið rædd, sé ég ekki ástæðu til þess að ræða. Ég hef ekki sett mig svo inn í þessi mál að ég treysti mér til þess. Ég sé að hér er verið að hreyfa nokkuð til í þessari löggjöf, þessari tiltölulega nýju löggjöf, og eflaust er þetta gert til bóta. Ég mun því ekki verða meinsmaður þess á neinn hált, að þetta mál nál fram að ganga, eða tefja fyrir því á neinn hátt, en get tekið undir það með mönnum sem hér hafa talað í málinu, að æskilegra hefði að sjálfsögðu verið að hafa lengri tíma til þess að fara yfir mál eins og þetta. Ég mun styðja framgang málsins, en flyt þessa till. Till. er sem sagt skrifleg og þarf að leita afbrigða fyrir henni, og ég óska eftir því, að hæstv. forseti leiti eftir afbrigðum fyrir þessari tillögu.