29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4275 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

289. mál, heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hinn 4. mars 1977 skipaði ég n. sem hafði það hlutverk að gera till. um skipulegt samstarf háls-, nef- og heyrnardeildar Borgarspítalans, heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og félagsins Heyrnarhjálpar. Enn fremur var þessari n. falið að gera heildartillögur um framtíðarfyrirkomulag talmeina- og heyrnarþjónustu og skipulag heyrnarmálefna hér á landi. Í þessari n. áttu sæti tryggingayfirlæknir, Björn Önundarsonar, sem jafnframt var formaður n., Hallgrímur Sæmundsson yfirkennari, Stefán Skaftason yfirlæknir, Erlingur Þorsteinsson yfirlæknir og Birgir Á. Guðmundsson heyrnarfræðingur.

Þessi n. tók þegar til starfa og skilaði eftir tiltölulega skamman tíma heildartillögum um framtíðarfyrirkomulag talmeina- og heyrnarþjónustu og skipulag heyrnarmálefna í landinu. Að þessum tillögum fengnum var ákveðið í heilbr.- og trmrn. að útbúa frv. til l. um heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Frv. þetta er að mestu leyti byggt á till. þessarar n. En áður en að fullu var gengið frá frv., sem hér liggur fyrir, var það sent til umsagnar landlæknis og lýsti hann sig fyllilega samþykkan frv, og svo hafa reyndar allir þeir aðilar gert sem starfað hafa að þessum málum á undanförnum árum.

Það var álit rn., að ekki væri annað fært en að skipa fyrir um þessi mál með lögum bæði vegna þeirrar samræmingar, sem þeim er ætlað að hafa í för með sér, og þess kostnaðar, sem af þeim mun leiða, jafnvel þótt hann sé í dag að langmestu leyti greiddur úr ríkissjóði.

Eins og fram kemur í 2. gr. þessa frv. á sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins að greiða kostnað af lögum þessum eða 90% af rekstrarkostnaði, en sveitarfélögin 10%. Þessi stofnun á að heyra undir heilbr: og trmrh. sem skipar henni sérstaka stjórn, sem er skipuð samkv. tilnefningum eins og segir í 4. gr. frv.

Ed. Alþ. gerði smávægilega breytingu á 6. gr. frv. Við var bætt að stofnunin skyldi hafa náið samstarf við háls-, nef- og heyrnardeild Borgarspítalans í Reykjavík, og henni er ætlað í framtíðinni að vera í hinni nýju stofnun við Borgarspítalann sem Ed. Alþ. taldi rétt að taka öll tvímæli af um, og bætti því við 6. gr. eins og hún liggur nú fyrir eftir afgreiðslu málsins í Ed. Frv. var þar samþykkt shlj. og um það var full samstaða í nefndinni.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.og trn.