03.05.1978
Neðri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Á fundi í þessari hv. d. í gær vakti ég athygli á því utan dagskrár, að þá um morguninn, þ. e. a. s. í gærmorgun, hefðu þær fregnir borist af hæstv. iðnrh., sem hélt til útlanda s. l. miðvikudag, að hann hefði ekki í hyggju að koma aftur heim fyrr en að þingi loknu. Til þeirrar stundar hygg ég að allir þm. hafi staðið í þeirri trú, að hæstv. iðnrh. kæmi aftur til landsins um s. l. helgi. Ég veit að þeirrar skoðunar var m. a. forseti Sþ. þegar hæstv. iðnrh. baðst leyfis til þess að mæla fyrir Kröfluskýrslu sinni s. 1. þriðjudag og að frekari umr. yrði síðan frestað þar til hann kæmi aftur til þings. Þessar nýju upplýsingar um fyrirætlanir hæstv. iðnrh., að koma ekki til þings fyrr en þá eftir þinglausnir, gerðu það að verkum, að ljóst var að ekki gæti svo farið að hæstv. ráðh. mælti fyrir skýrslu sinni um Kröflu á Alþ. eins og þingsköp gera ráð fyrir. Ef skýrslan hefði þrátt fyrir það verið tekin til umr., hefði orðið að gera það án þess að ráðh. sá, sem ber ábyrgð á skýrslunni til Alþ., væri viðstaddur.

Ég óskaði þess í gær, að hæstv. forsrh. beitti sér fyrir því, að hæstv. iðnrh. breytti fyrirætlunum sínum og kæmi til þings fyrir þinglok til þess að sinna þingskyldum sínum. Hæstv. forsrh. svaraði því til, að hann mundi tafarlaust gera hæstv. iðnrh. viðvart. Ég hef þá trú, að það hafi verið gert, og nú leikur mér forvitni á að fá að vita frá hæstv. forsrh., hvort líkur séu til að hæstv. iðnrh. hafi saknað Alþ., þegar honum var gert viðvart, og hvort líkur séu á að Gunnar snúi aftur.