03.05.1978
Neðri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4438 í B-deild Alþingistíðinda. (3781)

187. mál, lögréttulög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og á stendur mun ég ekki halda langa framsöguræðu um þetta mál. Ég vil aðeins geta þess, að það hefur gengið í gegnum hv. Ed. og verið samþ. þar með tveimur lítils háttar breytingum.

Þetta frv. er ekki nýtt, hvorki í þessari hv. d. né annars staðar. Þó það komi svo seint til d., þá hafa þm. auðvitað átt þess kost að lesa það og kynna sér það. Ég mun hins vegar leggja á vald hv. n., sem það fær til meðferðar, og d., hvort hún telur sér fært að afgreiða þetta mál á svo stuttum tíma sem nú er eftir þingtímans. Ég er ekki meðmæltur slíkum starfsháttum, en ef hún treystir sér til þess, þá mun ég að sjálfsögðu vera henni þakklátur fyrir það.

Um aðalefni þessa frv. má segja, að það hefur í sér fólgna mjög verulega og jafnvel gjörbreytingu á skipan dómstóla. Það er um að setja upp nýja dómstóla, lögréttur sem kallaðar eru, annan dómstólinn sunnan og vestan, sem hefur aðsetur í Reykjavík og í eiga að sitja 12 dómendur, hinn norðan og austan, sem í eiga að sitja 3 dómarar, og hann á að hafa aðsetur á Akureyri. Þó að talað sé um aðsetur þessara dóma á þessum stöðum, þá eiga þeir að geta og eiga að halda dómþing utan þessara staða eftir því sem þörf krefur. Þó að þarna sé um þriðja dómstigið — má segja — að tefla, þá er eftir sem áður gert ráð fyrir því, að hvert og eitt mál geti aðeins farið um tvö dómstig, þ. e. a. s. að sum meiri háttar mál verði höfðuð fyrir lögréttum sem fyrsta dómstig en þeim megi síðan áfrýja til Hæstaréttar. Um mörg mál, sem talin eru nánar upp í frv., er gert ráð fyrir því, að þau séu höfðuð fyrir héraðsdómi og þeim megi áfrýja til lögréttu. Þá fara þau ekki og geta ekki farið til Hæstaréttar.

Það má segja í stuttu máli, að aðalmarkmiðið með þessu frv. sé tvenns konar: Annars vegar að stefna að og stíga skref í átt að meiri aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds og gera dómstóla óháðari og í öðru lagi að flýta afgreiðslu dómsmála og m. a. létta störfum af Hæstarétti sem augljóst er að í framtíðinni geti varla annað þeim störfum sem til hans berast, nema þar verði þá fjölgað dómurum eða breytt um meðferð mála með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Er gert ráð fyrir því, að lögréttudómur starfi ýmist sem fjölskipaður dómur eða í honum sitji aðeins einn maður.

Ég leyfi mér, herra forseti, af því að tíminn er svo naumur, að vísa til frv. og hinnar ítarlegu grg., sem með því fylgir, og leyfi mér að óska eftir því, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.