05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (3797)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Flm. (Ólafur B. Óskarsson):

Herra forseti. Á þskj. 656 flyt ég ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssyni, till. til þál. um notkun raforku í atvinnufyrirtækjum. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna hagkvæmni þess að nýta raforku til atvinnufyrirtækja í stað olíu, þar sem því verður við komið af tæknilegum ástæðum.“

Eins og fram kemur í tillgr. og meðfylgjandi grg. er lagt til með þessari till., að kannaðir verði möguleikar til þess að nota raforku í stað olíu í atvinnufyrirtækjum.

Í þessu sambandi ber að hafa í huga þann gjaldeyrissparnað, sem felst í því að nota innlenda orku í stað innfluttrar í sem ríkustum mæli. Í grg. með till. er bent á það, að ætla megi, að innan tíðar verði fyrir hendi nægilegt framboð á raforku framleiddri með vatnsafli og jarðgufu. Bæði hefur verið unnið að miklum virkjunarframkvæmdum að undanförnu og aðrar standa fyrir dyrum, svo sem Hrauneyjafossvirkjun, auk annarra sem eru á rannsókna- og undirbúningsstigi, t. d. Blönduvirkjun o. fl. Allt verður þetta að teljast liður í eðlilegri nýtingu einnar af mestu auðlindum lands okkar, jarðvarma og vatnsorku. En jafnhliða því sem unnið er að öflun orkunnar verður að huga að markaðnum. Þar kemur venjulega fyrst í hugann ýmiss konar nýr orkufrekur iðnaður, og má nefna, að nú virðist nokkur hreyfing í þá átt að nýta ýmis innlend jarðefni til iðnaðarframleiðslu, t. d. perlustein og fleiri efni.

En jafnframt því sem hugað er að nýjum iðngreinum í þessu sambandi er ekki síður nauðsyn að huga að aukinni nýtingu innlendrar orku í þeim atvinnugreinum sem fyrir eru. Þar koma að sjálfsögðu til greina bæði raforka og jarðvarmi, þó að við flm. þessarar till. höldum okkur við þann þátt sem snýr að raforkunni.

Segja má, þegar þetta mál er athugað, að það séu einkum þrír þættir, sem mest þörf er á að beina athyglinni að:

Í fyrsta lagi bein nýting raforku, þar sem olía er notuð nú, og fyrst og fremst yrði um notkun forgangsorku að ræða.

Í öðru lagi könnun á aukinni notkun afgangsorku.

Og í þriðja lagi könnun á staðsetningu og leiðbeiningar um staðsetningu nýrra fyrirtækja, auk þess sem kannaðar verði leiðir til samræmingar í orkunotkun með það fyrir augum, að heildarframleiðsla og dreifikerfi nýtist sem best.

Varðandi fyrsta þátt þess, sem ég nefndi hér áðan, má benda á ýmsa möguleika. Þar má nefna ýmis fyrirtæki t. d. sem nota gufukatla kynta með olíu, en kynda mætti með raforku í staðinn. Þar sem katlar þessir eru mjög dýrir kemur mjög til greina að veita fyrirtækjum sérstaka fyrirgreiðslu í því skyni að skipta um og einnig að sjálfsögðu að greiða fyrir því, að ný fyrirtæki velji fremur tæki sem knúin eru raforku.

Þá skal nefnt atriði sem e. t. v. tilheyrir ekki beinlínis atvinnurekstri, en rétt er þó að vera vakandi fyrir, en það er notkun rafknúinna ökutækja. Mér er sagt að sums staðar erlendis séu slíkar bifreiðar í notkun og eru það enn sem komið er aðallega fremur smáir sendiferðabílar.

Þá verður ekki hjá því komist að nefna stóra orkunotendur á landi hér, þar sem eru loðnubræðslurnar í landinu. Tæknilegir möguleikar munu vera á því að nota að mestu eða öllu leyti raforku í verksmiðjum þessum í stað svartolíu sem nú er notuð, og yrði þá væntanlega að taka upp gufuþurrkun í verksmiðjunum. Til þess að átta sig á því orkumagni, sem hér þyrfti til, skal þess getið, að hver verksmiðja þyrfti ca. 6–10 mw. orku miðað við notkun raforku eingöngu. Vandamálin við þetta eru hins vegar þau, að aðalvinnslutími verksmiðjanna er yfir vetrartímann þegar önnur orkuþörf er mest, og því um mikla notkun forgangsorku að ræða. Þá ber að nefna sem vandamál hinn stutta árlega notkunartíma verksmiðjanna. Og síðast, en ekki síst skal það nefnt, að dreifikerfi raforku eru engan veginn svo úr garði gerð að þau geti tekið við því álagi sem þarna skapaðist og miklar fjárhæðir kostar að endurbæta þau þannig að þau gætu flutt þá orku sem hér þarf til. Hins vegar er á það að líta, að olíunotkun þessara verksmiðja kostar einnig miklar fjárhæðir, og skal það nefnt til dæmis, að Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði notaði olíu fyrir 1.3–1.4 millj. kr. á sólarhring miðað við það olíuverð sem gilti á seinni hluta árs 1976 og fyrri hluta árs 1977. Það er því fyllsta ástæða til þess að þessu máli sé gaumur gefinn, sérstaklega ef þess er gætt, að olíuverð getur stórhækkað hvenær sem er, auk þess sem spár eru um að beinlínis verði um olíuskort að ræða á heimsmarkaði á næstu áratugum.

Í sambandi við það að auka nýtingu framleiddrar raforku er eflaust um ýmsa möguleika að ræða og er ekki ástæða til að fara út í langa upptalningu á slíku.

Þó skal þess getið, að heykögglaverksmiðjurnar, ef í þeim væri notuð raforka í stað olíu eins og nú er gert, þá væri að verulegu leyti um afgangsorku að ræða, og ber því sérstaklega að greiða fyrir því, að þar verði breytt um til notkunar raforku.

Þá ber að nefna hina svokölluðu aflmarkstaxta sem bændur eiga kost á að fá. Ég hef þær upplýsingar að þessi raforkusala sé fremur hagstæð fyrir rafmagnsveiturnar, og byggist það á því, að þar er álagstoppnum haldið niðri, en hagur notandans felst í því að ná sem bestri nýtingu orkunnar innan hins fyrrgreinda taxta og er þá með góðri nýtingu hægt að fá mjög hagstætt orkuverð. Það kemur því að mínu áliti til greina að gefa öðrum atvinnurekendum kost á að kaupa raforku með svipuðum hætti, telji þeir sig geta nýtt afgangsorku þannig að meðalverð til þeirra geti lækkað verulega.

Ég nefndi það hér áðan sem þriðja atriði þeirrar könnunar sem gera þarf, að nauðsynlegt væri, eftir því sem hægt er, að leiðbeina um og skipuleggja orkunotkun þannig að orkuframleiðsla og dreifikerfi nýtist sem best. Þetta er atriði sem eflaust er erfitt í framkvæmd, en ber fullkomlega að hafa í huga, m. a. með tilliti til orkusparnaðar. Þar er nauðsynlegt að hyggja að hagkvæmri staðsetningu orkufrekra fyrirtækja og auk þess þar sem um er að ræða fyrirtæki með árstíðabundna starfsemi, að fyrirtæki, sem starfa á mismunandi árstímum, séu byggð upp á sama veitusvæði og þannig verði dreifikerfin arðbærari, og ætti það að geta leitt til lægra orkuverðs, auk þess sem þetta er að sjálfsögðu atvinnuspursmál.

Það mun flestum ljóst, að alltaf má búast við stórfelldum verðhækkunum á olíu á heimsmarkaði, eins og dæmin sanna, auk hættu á beinum olíuskorti. Hlýtur því einnig að verða ljós nauðsyn þess, að markvisst verði stefnt að nýtingu innlendrar orku í atvinnurekstri landsmanna, þannig að við verðum sem óháðust innfluttu eldsneyti þegar að því kemur, að það stórhækkar í verði eða verður jafnvel illfáanlegt.

Herra forseti. Ég legg til að nú að lokinni umræðu verði till. vísað til hv. atvmn.