05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4467 í B-deild Alþingistíðinda. (3845)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það hefur verið svo mikill hraði á afgreiðslu mála hér í d. núna í seinni tíð, að ekki hefur gefist kostur á því að fylgjast með hverju máli, jafnvel þótt maður hafi reynt að hafa sig allan við. Og þannig fór fyrir mér, að þetta mál leið hjá hér í d. án þess að ég næði því að gera aths. við það. Þess vegna vil ég nú nota það tækifæri sem gefst við 3. umr.

Ég minnist þess þegar lög um heilbrigðisþjónustu voru sett veturinn 1973, að ekki voru allir fullkomlega sáttir um þá niðurstöðu sem þá fékkst. Einkum voru það nokkrir minni staðir sem misstu af því með þeirri lagasetningu, að þar yrði áframhaldandi læknisumdæmi eða þar sæti læknir með sína þjónustu. Dæmi um þetta voru tvö í mínu kjördæmi: annað á Skagaströnd, þar sem læknir hafði setið um langt árabil, og hitt á Hofsósi. Það var einmitt megintilgangur lagasetningarinnar á sínum tíma að sameina kraftana, byggja upp stórar og sterkar heilsugæslustöðvar, gefa læknunum kost á því að hafa á milli sín hæfilega verkaskiptingu og gefa þeim kost á að leysa hver annan af, og var talið að meiri möguleikar yrðu fyrir hendi að ráða lækna í þau héruð sem lengi höfðu verið læknislaus. Ég held að bakgrunnur þeirrar lagasetningar hafi einmitt verið læknaskorturinn. Það var áberandi mikið vandamál í okkar þjóðfélagi, að víða úti um land fékkst ekki læknir, hafði ekki fengist læknir um langt árabil, og þannig var einmitt um þessa tvo staði sem ég nú nefndi, annars vegar Skagaströnd og hins vegar Hofsós, sem ég nefni hér kannske sér í lagi sem dæmi um slíka staði. En mörg dæmi önnur mætti að sjálfsögðu nefna. Þarna höfðu ekki fengist læknar árin á undan. Það var því mjög eðlilegt að stokka gamla kerfið upp. En hitt vil ég láta koma fram, að ég taldi að réttara hefði verið í slíkum tilvikum að heimild væri fyrir því, að einn af þremur læknum í nálægri heilsugæslustöð hefði búsetu og starfsaðstöðu á viðkomandi stað, og þetta hefði verið auðvelt að framkvæma í sambandi við Skagaströnd og vel hugsanlegt með nokkrum úrbótum að framkvæma á Hofsósi. Ég flutti till. um þetta efni, en þær voru felldar. Það var hins vegar almennt heimildarákvæði í lögunum sem gerði kleift að fara þessa leið. en heilbrigðisyfirvöld hafa ekki verið fáanleg til að framkvæma hana, ekki á þessum stöðum a.m.k.

Ég vil nú láta það koma hér fram, að ég tel að aðstæður hafi töluvert breyst frá því sem var fyrir fimm árum þegar heilbrigðislögin voru sett. Ég er að vísu ekki gjörkunnugur þeim málum og ekki eins vel kunnugur og sumir aðrir dm. sem eru öllum hnútum kunnugir í þessum efnum. Ég get þó leyft mer að fullyrða það, að læknum hefur mjög farið fjölgandi í seinni tíð og nú eru farnar að heyrast raddir um það, að e.t.v. sé um að ræða offramleiðslu á læknum, þeir kunni að verða of margir á næstunni. Ég dreg það mjög í efa, að nokkur raunveruleg hætta sé á slíku. En ég bendi á að fólk víðs vegar um land gerir auknar kröfur til læknisþjónustu, og ég er sannfærður um að við hljótum að veita fólki betri þjónustu en gert hefur verið. Og ég vil láta það koma hér fram, um leið og þetta mál er afgreitt, að ég tel að að því hljóti að stefna, að læknir verði búsettur og verði með starfsaðstöðu í öllum kauptúnum landsins, smáum og stórum, enda þótt ég telji hins vegar langeðlilegast að læknar verði allir í starfstengslum við stóra heilsugæslustöð og þeir þurfi ekki að vera einir á báti með neinn stað. Ég er alveg sannfærður um að sú skipan, sem upp var tekin 1973, að safna kröftunum saman og gefa læknum aukinn kost á verkaskiptingu, var rétt stefna. Og þó að við kæmumst að þeirri niðurstöðu að við hefðum efni á því að hafa lækni búsettan með starfsaðstöðu í hverju einasta kauptúni landsins, þá væri eðlilegt að þeir væru um leið allir í tengslum við heilsugæslustöðvar þar sem fleiri læknar væru starfandi.

Ég tel að á þeim tveimur stöðum, sem ég hef nú nefnt, Hofsósi og Skagaströnd, væri þetta fullkomlega raunhæft nú þegar, þar sem um er að ræða svo stórar heilsugæslustöðvar, að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að einn læknir af mörgum, sem eru á hvorum þessara staða, væru með búsetu og starfsaðstöðu annars vegar á Hofsósi og hins vegar á Skagaströnd. Ég minni á það, að á það hefur verið bent, að mannslíf hafi verið í veði vegna þess að enginn læknir hefur verið búsettur á Hofsósi. Það eru rúmir 40 km milli Hofsóss og Sauðárkróks, og það er dálítið langur vegur í norðanstórhríðum að fara. Og ég þori að fullyrða að þess eru fleiri en eitt dæmi, að fólk hefur ekki fengið nauðsynlega læknisþjónustu og látið fyrir það lífið, vegna þess að löng er leið milli þessara tveggja staða og of seint var fyrir lækna að grípa inn í þegar komið var með sjúklinginn á Sauðárkók. Þetta er staðreynd sem á hefur verið bent, og ég held að þetta sé svo alvarlegt mál, að það verði ekki undan því vikist að ráða bót á þessu fyrr eða síðar, og mér er nú næst að halda að þegar sé orðið tímabært að stíga þetta skref.

Ég er sem sagt ekki alveg ánægður með frv. eins og það liggur hér fyrir okkur. Ég held að það sé að vísu til bóta, að á báðum þessum stöðum, eins og mörgum öðrum sem líkt stendur á um, er gert ráð fyrir því, að um sé að ræða formlega heilsugæslustöð, nefnd H án númers. En ég hefði talið að þessu hefði þurft að fylgja ákvæði um búsetu og starfsaðstöðu læknis á þessum stöðum. Og um leið og ég segi að ég er ekki ánægður með frv., þá verð ég að harma það, að ráðh. skuli hafa séð ástæðu til þess að hraða málinu svo sem raun ber vitni í gegnum þingið. Ég veit ekki betur en tími hafi verið til þess í allan vetur að taka þetta mál til umr. ef rn. hefði lagt það fram, og að koma með þetta rétt undir þinglokin, án þess að fólkinu úti um landsbyggðina gefist kostur á að senda okkur umsagnir sínar og ábendingar, það er ekki forsvaranlegt. Ég vildi gjarnan mega heyra af vörum hæstv. ráðh. rök fyrir því, að óhjákvæmilegt sé að afgreiða þetta mál nú á þessu þingi, því að þau rök hef ég ekki heyrt. (Sjútvrh.: Ég rakti þau í deildinni) Já, það má vera að það hafi farið fram hjá mér.

Ég vil taka það fram, að ég hef ekki séð ástæðu til að flytja sérstakar brtt. varðandi Skagaströnd og Hofsós, þótt það verði að teljast ærið freistandi, vegna þess að ég veit að það stendur ákaflega líkt á um marga aðra staði heldur en þessa tvo og mér finnst eðlilegast að staðir, sem líkt stendur á um, fylgist að í þessum efnum og ekki séu einhverjir ákveðnir staðir teknir langt á undan.

Hins vegar neita ég því ekki, að frv. ber það með sér, að ákveðnir staðir hafa haft forgang — staðir sem mjög líkt stendur á um og einmitt þessa staði, — og ég vildi gjarnan heyra það af vörum hæstv. ráðh., hver er skýringin á því. Ég nefni hér sem dæmi, að það er heilsugæslustöð 1 á Hvolsvelli og það er heilsugæslustöð 1 á Hellu. Það eru 13 km á milli þessara tveggja staða. Ég tel að víða annars staðar hefði verið brýnni þörf á að dreifa læknisþjónustunni en á þessum stöðum þar sem svo stutt er á milli, prýðilegur vegur og reyndar steinsnar að fara í bíl. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur einhverjar sögulegar skýringar á þessu atriði, en ég vil gjarnan spyrja hann, hvort honum finnist þetta eðlilegt, að þessi skipun sé höfð á varðandi Hvolsvöll og Hellu annars vegar, meðan staðið er fast á móti því, að staðir eins og Skagaströnd eða staðir eins og Hofsós fái aukna þjónustu með búsetu og starfsaðstöðu læknis á þeim stöðum. Ég vil taka það fram, að ég er alls ekki að átelja ráðh. fyrir að flytja hér frv. sem gengur út frá óbreyttri skipan þessara mála hvað snertir Hvolsvöll og Hellu. Ég ætla ekki að átelja ráðh. fyrir það. Það er mál sem aðrir þekkja betur en ég. En ég spyr bara hvort það sé ekki talsvert ósamræmi í þessu frv. þegar svona lagað blasir við. Og ég bendi einnig á það, að milli staða eins og Hveragerðis og Selfoss eru aðeins 12 km. Það eru hins vegar heilsugæslustöðvar 2 á báðum þessum stöðum. Og er ekki í nokkurri mótsögn við fyrirkomulag frv., að á Patreksfirði skuli vera heilsugæslustöð 2, en engin sérstök þjónusta á Tálknafirði og aðeins læknismóttaka, en engin búseta læknis á Bíldudal. Ég efast ekkert um áhuga ráðh. á því að bæta þjónustu í heilbrigðismálum á Vestfjörðum og minnist þess reyndar að hæstv. ráðh. flutti einmitt till. um það hér í þinginu á sínum tíma, að komið yrði upp heilsugæslustöð 1 væntanlega á Bíldudal, en sú till. náði ekki fram að ganga. En ég spyr, úr því að þessu skipulagi hefur nú verið komið á á Suðurlandi í þessum tveimur tilvikum sem ég nú hef nefnt, hvers vegna beitir þá ráðh. sér ekki fyrir því, að um verði að ræða aukna þjónustu á öðrum stöðum sem miklu verr stendur á fyrir, því að auðvitað er ekki á nokkurn hátt hægt að bera saman ástandið annars vegar á Bíldudal með tvo fjallvegi að fara yfir til Patreksfjarðar eða á Hvolsvelli eða Hellu þar sem er skotvegur á milli, svona rétt eins og að skjótast til Hafnarfjarðar eftir rennisléttum vegi. Þarna er um að ræða bersýnilegt ósamræmi sem ég rek mig á og á erfitt með að skýra og á erfitt með að rökstyðja fyrir t.d. kjósendum mínum á Norðurlandi vestra. Ég vil því enn spyrja ráðh. að því, hvort ekki væri ástæða til þess að athuga þetta mál svolítið betur, þannig að hægt væri að afgreiða heilbrigðislöggjöfina með svolítið meira innra samræmi en raun ber vitni. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að ég er ekki að fetta fingur út í það, að heilsugæslustöð skuli vera bæði á Hveragerði og Selfossi og bæði á Hvolsvelli og Hellu. Ég hef þegar tekið það fram, að það þekkja aðrir betur, þær sögulegu skýringar og forsendur sem skýra þær aðstæður. En þarna er um að ræða ósamræmi hvað snertir aðra staði sem hafa sótt hart á um aukna þjónustu, og yfirmenn heilbrigðismála og alþm., sem standa að samþykkt þessa frv., verða þá að geta útskýrt hvernig á þessu ósamræmi stendur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hef þegar tekið það fram, að ég er ósáttur við frv., flyt þó ekki brtt., vegna þess að ég tel að það þyrfti að samræma frv. í heild, en ekki bara hvað snertir einstaka staði, þó að þeir staðir séu í mínu kjördæmi. En ég vildi gjarnan heyra frekari skýringar ráðh. á því ósamræmi sem er innbyrðis í þessum væntanlegu lögum.