05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4601 í B-deild Alþingistíðinda. (3932)

58. mál, íslensk stafsetning

Gylfi Þ. Gíslsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur því að halda langar ræður á næturfundum og enn síður þegar þingslit fara að nálgast. Ég mun ekki heldur gera það í kvöld. Ég mun láta mér nægja fáein orð og til þess duga mér fáeinar mínútur.

Hér er um að ræða tillögu um hvernig haga skuli stafsetningu íslensks máls, og það sem mér finnst að verði að segjast við þessa umr. er þetta:

Málatilbúnaður í þessu máli af hálfu menntmrn. er blettur á rn., fyrst og fremst á fyrrv. menntmrh., en einnig á núv. menntmrh. Saga þessa máls síðan fyrrv. menntmrh. árið 1974 breytti meira en 40 ára gömlum stafsetningarreglum er enn fremur dæmi um valdníðslu af hálfu tveggja ráðh. gegnvart Alþingi. Það, sem gerst hefur, er það, að meira en 40 ára gömlum reglum var breytt, — reglum sem á sínum tíma voru settar að bestu manna yfirsýn. Meginhöfundur þeirra reglna var prófessor Sigurður Nordal, sem mér er persónulega kunnugt um að hafði frumkvæði að setningu þeirra að mjög rækilega athuguðu máli. Um þessar reglur hafði smám saman skapast fullkominn friður og þær höfðu verið viðurkenndar af öllum aðilum: blöðum, fjölmiðlum, rithöfundum, hinu opinbera, í marga áratugi, þegar skyndilega er til þess gripið að þeim er breytt 1974.

Hvers vegna tek ég þannig til orða, að þessi ráðstöfun sé blettur á menntmrn.? Á því er einföld skýring. Það sem gerðist, var það, að hæstv. þáv. menntmrh. skipaði 5 manna n. til að gera tillögur um breytta skipun stafsetningar. Ekki var meira við haft en svo, að engin tilkynning var birt um skipun þessarar nefndar. Það var ekki vitað að hún væri að störfum fyrr en hún lauk störfum og skilaði tillögum til þáv. hæstv. ráðh. Áður en hann fór að tillögum hennar og breytti reglugerðinni, sem gilti um stafsetninguna, leitaði hann ekki umsagnar nokkurs aðila. Hann gerði ekki þann sjálfsagða hlut t. d. að spyrja íslenskudeild Háskóla Íslands um álit hennar á málinu. Hann gerði ekki þann sjálfsagða hlut — og ég skal nefna annað dæmi — að spyrja Íslenska málnefnd, sem starfar lögum samkv., um álit hennar á málinu. Hann spurði engan. Ég spurði í umr. á sínum tíma hæstv. ráðh. hvort hann hefði skýrt ríkisstj., sem þá sat, frá hinum nýju reglum áður en hann gaf þær út. Þeirri spurningu svaraði hann ekki. Ég taldi það þá og tel það enn vera vott þess, að hann hafi ekki gert það, heldur gefið út reglurnar upp á sitt eindæmi.

Það stóð ekki á mótmælum. Ég rek þá sögu ekki nema í örfáum orðum. 60 af kunnustu menntamönnum þjóðarinnar mótmæltu þegar í stað þessari ráðstöfun. Auðvitað voru henni margir fylgjandi, einkum barnakennarar. En afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Það skapaðist þegar í stað og ríkir enn alger glundroði í stafsetningu íslenskrar tungu. Dagblöðin nota ekki sömu stafsetningu. Stærsta dagblað landsins, sem kemur á svo að segja hvert heimili í landinu, notar enn gömlu stafsetninguna. Stjórnarráðið sjálft notar ekki eina og sömu stafsetningu. Ýmis rn. nota enn gömlu stafsetninguna þó að önnur fylgi hinum nýju reglum. Læt ég þetta nægja sem dæmi um þá ringulreið sem þessi ráðstöfun fyrir 4–5 árum skapaði.

Þá kem ég að síðara atriðinu. Hvers vegna nefni ég valdníðslu í sambandi við sögu þessa máls síðan þessi reglugerð var gefin út 1974? Ég geri það af eftirfarandi ástæðum:

Hinn 29. apríl 1974, sama árið og reglugerðin var gefin út, reglurnar voru gefnar út, samþykkti Alþ. ályktun um að hinum nýju reglum skuli hrundið og gamla skipanin tekin upp aftur. Alþ. samþykkti skýlausa ályktun um þetta. En ráðh. fjögurra manna þingflokks leyfði sér að hundsa þessa skoðun Alþingis, þessa ályktun Alþingis í skjóli þess, að hann hafi haft samkv. hefð og hafi samkv. hefð rétt til þess að segja fyrir um stafsetningu íslenskrar tungu. Ég hef aldrei efast um og geri ekki enn — ég hef margtekið það fram, að ráðh. hafi haft fullan rétt til þess sem hann gerði. En hina skoðunina hef ég jafneindregna, að eftir að ráðh. vissi um skoðun meiri hl. Alþingis á málinu, þá var það siðleysi að hlíta ekki þeim vilja. Sá ráðh., sem neitar að haga stjórnarathöfnum sínum í samræmi við ályktanir Alþingis, á ekki lengur að sitja í ráðherrastóli. Það er mergurinn málsins. En það gerði þessi ráðh. og það hefur núv. ráðh. einnig gert, eins og ég mun koma að rétt á eftir.

Núv. hæstv. menntmrh. lýsti því yfir við umr. um þetta mál hér á hinu háa Alþ., að hann sjálfur mundi aldrei hafa sett hinar nýju reglur. Þetta er staðfest í þingtíðindum. En, sagði hann, fyrst þær hefðu verið settar vildi hann ekki breyta þeim. Þessi afstaða mun lengi í minnum höfð. Þetta er svipað því að dómari í þjófnaðarmáli segði sem svo: Auðvitað átti þjófurinn ekki að stela, en fyrst hann er búinn að stela, þá verður við það að sitja, svo að ekki er rétt að vera að dæma hann. — Það skiptir ekki máli, hvað var eða er rétt eða rangt, heldur hitt, hvað er búið og gert. Þetta var og er hugsunarháttur hæstv. núv. menntmrh. Hann fékk þegar í upphafi starfs síns, eða á árinu 1975, í hendur áskorun 33 alþm. af 60, — hann fékk í hendur á fyrsta starfsári sínu áskorun 33 alþm. af 60 um að breyta reglunum frá 1974. Þessi hæstv. ráðh. hundsaði einnig þennan þingmeirihl., og þess verður minnst í þingsögunni.

1976, það er þriðja dæmið um valdníðsluna sem ég leyfi mér að nefna, var flutt frv. um lögfestingu hinna gömlu stafsetningarreglna. Fyrrv. menntmrh. beitti ósæmilegu málþófi hér í hv. Nd., hann talaði t. d. einu sinni til kl. 6 að morgni — klukkan er þó ekki nema tæplega 4 núna. Í Nd. hlaut frv. þá afgreiðslu, að það var samþ. með 25:14 atkv., — það var samþ. í Nd. með 25:14 atkv., og allir hv. þm. vissu að það var meiri hl. fyrir frv. í hv. Ed. En með bolabrögðum tókst núv. og fyrrv. menntmrh. að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins í Ed. á síðasta starfsdegi þeirrar deildar.

Síðustu orð mín skulu vera þessi: Það er vitað að meiri hl. þm. nú er andvígur hinum nýju reglum, en hæstv. menntmrh. hefur undanfarna daga með hjálp fyrirrennara síns misbeitt þeirri aðstöðu sem hann hefur sem ráðh. til þess að koma í veg fyrir að þessi þingmeirihl. fái að njóti sín eða skoðanir hans fái komist í framkvæmd. Þá sögu rek ég ekki frekar hér nú að næturlagi. En ég kemst ekki hjá því að segja að síðustu, að öll framganga fyrrv. og núv. menntmrh. í þessu máli er þeim því miður — vægast sagt — ekki til sóma og mun verða lengi minnst í þingsögunni.