06.05.1978
Neðri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4628 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

38. mál, iðnaðarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka iðnn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli og tel mjög mikilvægt að þetta frv. til iðnaðarlaga verði nú að lögum. Ég tel einnig rétt að fallast á og mæla með samþykkt þeirrar till. sem iðnn. deildarinnar flytur varðandi 8. gr. En ég vil í sambandi við það mál taka fram um þetta ákvæði í 8. gr. sem nú er lagt til að breyta, það ákvæði að ráða megi þó verkafólk til iðnaðarstarfa, að þetta sjónarmið, sem hv. frsm. n. gerði að umtalsefni, kom að sjálfsögðu til umræðu bæði í undirbúningsnefndinni og til athugunar í rn. Sú n., sem undirbjó þessi lög, varð sammála um það orðalag sem er í greininni nú, og það er skýrt nánar í grg., þannig að þó að þetta ákvæði virðist víðtækt, að ráða megi verkafólk til iðnaðarstarfa, þá takmarkast það að sjálfsögðu af kjarasamningum. Í grg. um 8. gr. segir: „Iðnlært fólk hefur ætíð forgang til iðnaðarstarfa samkv. kjarasamningum.“ Í framkvæmd mundi þetta því ekki verða eins rúm og víðtæk heimild og orðalagið kann að benda til, vegna þess að kjarasamningar mundu að sjálfsögðu alltaf tryggja fullan rétt hinna iðnlærðu.

Hins vegar hefur verið óskað eftir því, eins og hv. frsm. gat um, af vissum stéttarfélögum að breyta þessu. Ég vil að sjálfsögðu fallast á það og mæli með þessari brtt. og vænti þess, að frv. verði samþ. nú við þessa umr., og mun það þá fara aftur til hv. Ed. þar sem ég geri fastlega ráð fyrir að iðnn. og sú deild muni fallast á þessa brtt.

Ég vil aðeins endurtaka það, að ég legg mikla áherslu á að þetta frv. verði að lögum nú á þessu þingi.