10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

318. mál, verðlag

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að láta í ljós fylgi mitt við þá skoðun sem hv. fyrirspyrjandi hefur lýst hér. Ég fæ ekki séð rök fyrir því að endurgreiða ekki söluskatt 1975 og 1976. Því hefur verið borið við, að gengisskráning hafi verið leiðrétt á þeim árum og því sé ekki til þess nauðsyn eða grundvöllur. En uppsafnaður söluskattur er fyrst og fremst til umræðu til samanburðar við annað skattaform sem gildir í samkeppnislöndum, þar sem virðisaukaskattur er og slíkur uppsafnaður söluskattur myndast ekki. Á meðan við búum ekki við virðisaukaskatt sýnist mér að endurgreiða eigi söluskatt og með því móti einu sé staðið við þau loforð sem íslenskum iðnaði voru gefin. Ég vil því taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það er von mín að ríkisstj. endurskoði þessa afstöðu sína.