22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Fjmrh, (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þessum hv. þm., varaþm., ætti að vera ljóst að málefni járnblendiverksmiðjunnar heyra undir hæstv, iðnrh. A.m.k. ætti hann að kunna sögu málsins svo vel, að honum ætti að vera kunnugt um áhuga hæstv. fyrrverandi iðnrh. á þessu máli.

Þegar ég fékk fyrirspurn um fyrirtæki sem heyrir ekki undir fjmrn., þá ritaði ég iðnrn. bréf, og það bréf las ég upp áðan. Ég held að fyrirspyrjandi og hv. 2. þm. Austurl. hafi gert sér grein fyrir að svar mitt var eins og við var að búast, það yrði bréf frá iðnrn. sem ég læsi hér upp, hvað svo sem í því bréfi stæði. Ég las bréfið upp, og þar er bent á að stjórnir hlutafélaganna geti einar upplýst um laun forstjóra sinna. Ef þm., sem hér hafa tekið til máls, vilja með einum eða öðrum hætti ræða frekar launamál þessara forstjóra, sem hér um ræðir, þá hljóta þeir að víkja þeim atriðum að iðnrn., eins og ég gerði með því að leita eftir svari og koma með það svar sem ég fékk.