22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

30. mál, skipulag orkumála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. gerði mjög glögga grein fyrir henni í framsögu sinni og ekki þarf um að bæta. En ég stend nú hér upp m.a. vegna gagnrýnisraustar, sem hér hljómaði áðan, um siðleysi og óhæf vinnubrögð sem fælust í slíkum tillöguflutningi. Ég vísa þeim ásökunum gersamlega á bug, og ég get ekki fundið að nefndarseta Steingríms Hermannssonar, hv. þm., bindi hendur mínar á nokkurn hátt í tillöguflutningi um raforkumál hér á Alþ. Ég finn ekki raunar heldur, að nefndarsetan bindi Steingrím Hermannsson sjálfan, og vafalaust er hann sammála því. Hann hefur haft ágæta forustu fyrir mótun þessarar stefnu innan flokksins. Það hefur verið lögð talsverð mikil vinna í að samræma sjónarmið okkar framsóknarmanna um þessi efni, og við höfum markað okkur þessa stefnu. Steingrímur Hermannsson, hv. þm., er ritari flokksins og auk þess á hann sæti í iðnn. og er sérfræðingur okkar í þessum efnum og það er eðlilegt að hann veljist til þess að hafa forustu fyrir málinu hér á Alþ. Og ég finn ekki betur en að nefndarstörfin beinlinís auðveldist vegna þess frumkvæðis, sem við höfum með því að leggja þessa till. fram og ræða hana, vegna þess að ég finn ekki betur en að mikill meiri hl. þm. sé hlynntur því að fara þessa leið, sem við leggjum til. Nefndarstarfið auðveldast, þegar það er lýðum ljóst hver hinn pólitíski vilji er, og þá er léttara fyrir nefndina að skila raunhæfu og skynsamlegu verki.

Við þekkjum dæmi þess að nefndir ágætra sérfræðinga hafa samið frv., sem hafa ekki verið í takt við hinn pólitíska vilja, þ.e.a.s. þau hafa ekki átt greiðan framgang hér á Alþ. í óbreyttu formi eða litið breyttu. Mér dettur í hug dæmigert sérfræðingafrv., sem var hér til umfjöllunar í fyrra, þ.e.a.s. skattalagafrv. Ég hygg að það hefði betur verið athugað strax um hinn pólitíska þátt, vilja stjórnmálamanna, á undirbúningsstigi þess máls.

Þessari till., sem hér er til umr., er ætlað að ráða bót á vanköntum sem okkur eru ljósir á núverandi skipulagi. Þetta er ekki fullkomin till. Þetta eru sjálfsagt ekki endanleg lausnarorð, sem í henni finnast, og mér dettur í hug að það gæti verið spursmál t.d. um 3. lið till., hvort Orkustofnun er betur komin undir sérstökum hatti eða innan þessa fyrirtækis.

Landsvirkjun hefur náð ákaflega góðum tökum, að minni hyggju, á því verkefni að beisla vatnsorku og hefur í sinni þjónustu okkar færustu menn á því sviði. Ég veit ekki nema það gæti allt eins komið til mála að þróa það í þessa átt, þó að hitt sé leið líka.

Við getum ekki lokað augunum fyrir því, að nokkuð hefur skort á heildarskipulag orkumála. Við höfum stundum unnið að tveimur lausnum á sama verkefninu. Tímasetning hefur orkað tvímælis. Stundum höfum við flýtt okkur helst til mikið. Ég nefni orkuvandamál á Norðurlandi, sem að vísu voru nú ekki eins mikil og menn gerðu þau í orði, þ.e.a.s. það var talað um orkusvelti og mikla þrengingu byggðar fyrir norðan vegna orkuskorts. Þetta var nú ekki raunhæft tal, enda var ráðist í að bæta úr þessu og ráðist var í að bæta úr því á tvennan hátt. Fyrst var ráðist í byggingu byggðalínu, síðan voru tekin upp úr skúffu heimildarlög um jarðgufuvirkjun við Kröflu, hikað um stund við framkvæmdir á byggðalínunni og rokið til af fullum krafti að byggja Kröfluvirkjun og sett sérstök nefnd til þess að annast það verkefni. Þarna hefði betur verið nánara samband og betra skipulag.

Ég var alla tíð mikill áhugamaður um byggðalínuna og ég er áhugamaður um aðrar linur, sem tengja saman landshluta. Mér er þó fullkomlega ljóst, að raflínur framleiða ekki rafmagn. Ég vil taka það fram til þess að taka það ómak af mönnum að fræða mig á þessu. Ég veit líka vel að rafveitustjóra á Akureyri, Knúti Otterstedt, er fullkunnugt um að raflínur framleiða ekki rafmagn. En Sigölduvirkjun var komin á fulla ferð hér fyrir sunnan og þá hefði mátt taka rafmagn frá henni og flytja norður eftir, eins og raunar er nú gert vegna þess að Krafla hefur tafist af óviðráðanlegum ástæðum.

Ég vil taka það fram, að ég er ekki með þessu að færast undan neinni ábyrgð á Kröfluvirkjun. Ég tel, að tímabært hafi verið og eðlilegt að ráðist yrði í það að athuga með jarðgufuvirkjanir, því að ef rafmagnsframleiðsla með jarðgufuvirkjunum er mjög miklum annmörkum háð þurfum við að fara margfalt gætilegar í meðhöndlun vatnsorkunnar og fá heildarmynd af ástandinu. Hins vegar kann að orka tvímælis, hvort ástæða var til að ráðast í svo stóra virkjun og enn fremur að flýta sér svona mikið. En Sigölduvirkjun var virkjunarþrep, að sumu leyti of stórt. Ég lít svo á, að Sigölduvirkjun hafi verið of stór. Stærð Sigölduvirkjunar og von í raforku þaðan er notuð sem ein af ástæðunum til þess að hnoða niður járnblendiverksmiðju á Grundartanga. En það er náttúrlega fyrirtæki sem verður fyrr en varir baggi á þessu þjóðfélagi, og þá ekki síst raforkusala til þess fyrirtækis. Við hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, flytjum till. til þál. um raforkusölu á kostnaðarverði til orkufreks iðnaðar og ég mun fjalla nánar um hana síðar, en þar kynnum við m.a. skynsamlega tilhögun í Noregi. Það er ekki nóg að afla orkunnar, það verður að nota hana skynsamlega. Það er t.d. ekki skynsamleg notkun á rafmagni að selja það til álvers eða járnblendiverksmiðju.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson flutti hér að mörgu leyti ágæta ræðu fyrr í dag. Hann óskaði eftir upplýsingum og þótti á skorta tölulegar upplýsingar með þessari till. okkar til þál. Ég get fallist á það, að þó að margar tölulegar upplýsingar kæmu fram í framsögu, þá hefði mátt prenta eitthvað af þeim sem fskj. með till. En úr því að hv. þm. spurði eftir þessu, þá get ég — með leyfi forseta — rakið hér nokkrar tölur úr bæklingi sem Samband ísl. rafveitna hefur gefið út og heitir „Raforka á Íslandi 1976“. Þar er m.a. eftirfarandi upplýsingar að finna, að raforkusala til notenda 1976 skiptist þannig: Sala rafveitna var 892 gwst., þ.e.a.s. 41.1% framleiddrar orku seldar fyrir 7422 millj. kr., þ.e.a.s. þetta 41% var selt fyrir 87.5% af söluverðmætinu. Hins vegar voru seldar til stóriðju 1217 gwst. eða 56.1 %, þ.e. 56.1 % af notkuninni, og fyrir það fengust einungis 874 millj. eða 10.3% af söluverðmætinu. Keflavíkurflugvöllur er líka inni í þessu dæmi og hann er eiginlega stærri líður en ég átti von á. Hann fær selda 61 gwst., þ.e.a.s. 2.8% af orkunni, en fær þetta á lágu verði, fyrir 189 millj., þ.e. 2.2%.

Ég vil rekja aðrar tölur, t. d, heildsöluverð á raforku 1. jan. 1977. Það er meðalverð miðað við 5 þús. klst. nýtingartíma, og þá áttu rafveitunnar kost á því að kaupa þessa orku á 3.40 kr., en álverksmiðjan átti kost á því að kaupa þessa orku á 77 aura, — ég endurtek: 77 aura. Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson spurði um taxtana, og þeir eru líka hér prentaðir. Þetta er útsöluverð á raforku 1/6 1977: Raforka til heimilisnota í Reykjavík er 13:65 kr. á kwst., í Hafnarfirði 13.97 kr., en hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sem eru sá aðili sem sér okkur sveitamönnum fyrir rafmagni, þá var það ekki 13.65 eins og í Reykjavík, heldur voru það 21.48 kr. sem við urðum að gjalda fyrir hverja kwst. Þetta er meðalverð. Þá þarf ekki að undra það, þó að okkur fýsi að stefna að jöfnun á rafmagnsverði. Mér finnst að hv. þm. hafi gert óþarflega mikið úr erfiðleikum og annmörkum, sem eru á því að jafna raforkuverðið. Þetta er kannske ekki hægt að gera gersamlega, en það verður að vera meiri jöfnuður þarna á. Jöfnuður næðist auðveldlega með því að sameina raforkuvinnsluna hjá einu fyrirtæki.

Við leggjum til í till. okkar, við hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, að komið verði upp nokkurs konar raforkuvísitölu, þ.e.a.s. fundin vísitala framleiðslukostnaðarverðs á raforku. Síðan viljum við vinna að því að breyta langtímasamningum, sem gerðir hafa verið um sölu á raforku, til samræmis og tengja þá þessari vísitölu, þannig að þegar framleiðslukostnaður ykist í landinu, eins og hefur nú verið undanfarið, þá liggi ekki eftir samningar við stóra notendur eins og gerst hefur með álverið. Þegar álverið keypti fyrst raforku af Landsvirkjun árið 1969 galt álverið fyrir raforkuna 68% af því raforkuverði sem rafveiturnar urðu að greiða. Þetta skertist svo með því að teknar voru dýrari virkjanir í gagnið, nýjar virkjanir, og rafmagn framleitt með olíu o.s.frv., o.s.frv., og 1975 var þetta hlutfall ekki 68%, nei, það var komið niður í 24% af því verði, sem rafveiturnar urðu að greiða. Þá keypti álverið sér stækkunarleyfi á kerskála 2 og nú eru í kringum 32 % sem álverið greiðir. Og það er náttúrlega ekki nóg að framleiða raforkuna skynsamlega, líka þarf að nota hana skynsamleg. Ég vil leyfa mér að lesa örfáar setningar úr niðurlagi grg., því að hún segir raunar nokkuð mikið.

„Orkulindir landsmanna, bæði í fallvötnum og jarðvarma, eru einhver dýrmætasta eign þjóðarinnar. Mjög mikilvægt er, að þessar orkulindir verði virkjaðar og notaðar af skynsemi og hagkvæmni“ — ég endurtek: „skynsemi og hagkvæmni. Því miður hefur þar skort mjög á. Fyrst og fremst virðist þetta eiga rætur sínar að rekja til þess, að yfirstjórn orkumála er þess vanbúin að takast á við verkefnið. Því verður að vinda bráðan bug að bættu skipulagi og yfirstjórn. Með þessum till. er stefnt að því að leggja grundvöll að slíku skipulagi, sem án tafar þarf að vinna nánar í ýmsum smáatriðum og hrinda í framkvæmd.“

Það verður ekki nógsamlega undirstrikað, að þessar orkulindir eru okkur mikilvægar og þær eru okkar þjóðarauður. En það þarf að hagnýta þær af mikilli fyrirhyggju. Það þarf að reisa þær með þeim hætti, að þær komi okkur sem best til gagns, reisa þær með þeim hætti, að þær falli að umhverfi sínu og spilli ekki landinu. Það þarf að ráðstafa þessari orku með mikilli fyrirhyggju.

Það hefur verið hér mjög á lofti orkuspá, sem samin var í fyrravetur eða birt var í fyrravetur. Hún hljóðar að vísu í ýmsum atriðum nokkuð tortryggilega og það eru í henni veikir punktar, en framreiknuð gerir hún ráð fyrir því, að aðgengileg vatnsorka okkar verði fullnýtt einhvern tíma upp úr miðri næstu öld og það án þess að til kæmu náir stórkaupendur, nýr orkufrekur iðnaður. Nú eru þarna inni í þessu dæmi virkjunarmöguleikar, sem ég hef ekki trú á að ráðist verði í í bili, en vera kann þó að við verðum að ganga nær landi okkar þegar þar að kemur að við erum komnir í orkukreppu. Þá getur vel verið, að þjóðin spillti landinu út úr neyð, það getur vel verið að til þess komi að við verðum að ganga nærri landinu einhvern tíma og það er ekki það langur tími, sem við eigum þessa auðlegð ótæmandi, að við megum fara glannalega í ráðstöfun þessara auðlinda. Ég legg áherslu á það, að við eigum að virkja fyrir okkur sjálfa, við eigum að búa hér sjálfir í þessu landi og reisa þær virkjanir fyrst, sem falla inn í okkar notkunarminnstur, því að sannleikurinn er sá, að við höfum verið of stórtækir. Við höfum reist virkjanir, sem eru stærri en það, að við getum hagnýtt þessi virkjunarþrep á mjög skömmum tíma, og svo best er virkjun hagkvæm að hún hafi kaupendur að mestallri orkunni, og þá höfum við neyðst til þess að ráðstafa orku í þessa óskynsamlegu samninga, sem ég hef hér gert að umtalsefni.