24.11.1977
Sameinað þing: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

44. mál, fræðslustarfsemi um efnahagsmál í sjónvarpi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil segja aðeins örfá orð við þessa umr. um þá till. sem hér liggur nú fyrir og hv. flm. hefur gert grein fyrir. Mér fannst á málflutningi hv. flm. að hann vildi raunverulega stefna að því með aukinni fræðslu um efnahagsmál að leysa nokkuð úr þeim mikla vanda sem við erum óneitanlega í varðandi allar þær deilur sem uppi eru um stefnuna í efnahagsmálum og hvaða ráð væru þar helst til úrbót; . Mér fannst það á öllum málflutningi hans, að það væri meining hans að reyna að ná þessu marki.

Ég tel út af fyrir sig að þetta sé góð meining, tel enda að það sé gott í hverju máli að auka þar nokkuð við þekkingu sína og það sé efnt til fræðslu svo að segja um alla hluti. Það er óneitanlega gott. Ég held hins vegar að menn verði að gera sér grein fyrir því, hvers konar vandamál hér er um að ræða. Fræðsla um efnahagsmál er fræðsla um pólitík. Efnahagsmálin verða ekki aðgreind frá almennum stjórnmálum. Þau eru einn gildasti þáttur stjórnmálanna á hverjum tíma. Vissulega væri hægt að halda í útvarpi af þar til fróðum mönnum fróðleg erindi almennt um stjórnmálabaráttu og hvernig hún gengi fyrir sig. En hér er um mjög vandasamt málefni að ræða, að ætla að taka upp fræðslu um þessi efni, og er þá betra að að því máli sé staðið af fullum heilindum og allir helstu þættir málanna fái að njóta sín í þeirri kennslu.

Þetta vildi ég nú alveg sérstaklega undirstrika, þannig að hv. flm. átti sig til hlítar á því, hvers konar mál hér er um að ræða, sem ég hlýt að ætlast til að hann hafi hugleitt. Ég mæli ekki á móti þessari till., tel sjálfsagt að hún gangi til n., hún verði athuguð og íhuguð vandlega, hvort hægt er að koma fyrir aukinni fræðslu í þessum efnum á þeim grundvelli að ekki lendi út í einhverjar meiri háttar þrætur og fræðslan verði þar af leiðandi að litlu gagni, af því að hér er verið að fást við mál af þessu tagi.

Ég tók eftir því, að hv. flm. sagði, eins og margir fleiri hafa sagt í umr. um efnahagsmál nú að undanförnu, að á miðju þessu ári hefðum við verið búnir að ná allverulegum árangri í baráttu okkar við verðbólguna. Menn hafa bent á það, að þá hafi verðbólguhraðinn raunverulega verið kominn niður í um 26% aukningu miðað við árið, það hafi verið sá hraði sem hafi verið á verðbólguvextinum á miðju ári, þá hafi sem sagt hraðinn verið orðinn allt að því að vera helmingi minni en hann hafi orðið mestur hjá okkur áður, þarna hafi verið um umtalsverðan árangur að ræða, en nú virðist hins vegar allt vera að fara úr böndunum hjá okkur og verðbólguhraðinn að aukast á nýjan leik. Út af fyrir sig má segja að þetta sé rétt. Ég held hins vegar að þetta sé mjög yfirborðskenndur dómur um það, hvernig ástatt var hjá okkur á miðju ári.

Sannleikurinn er auðvitað sá sem margir vissu, að við höfðum ekki nálgast lausn á okkar verðbólguvanda að neinu leyti. Það hafði ekkert gerst af okkar hálfu almennt séð eða af hálfu þeirra, sem ráða mestu um þróun efnahagsmála í okkar landi, sem gerði málið út af fyrir sig betra en það hafði verið. Það eina, sem gerði það að verkum að þessar tölur komu út á þessa lund, var að við áttum eftir að svara þeim vandamálum sem fyrir lágu. Við vitum það mætavel allir, sem hér erum inni, að ákveðið var á seinni hluta ársins 1974 eða á fyrstu dögum þeirrar ríkisstj., sem nú fer með völd í landinu, að gera efnahagslegar ráðstafanir sem fólu í sér óhjákvæmilegar verðlagshækkanir. Það var skoðun ríkisstj. og hennar stuðningsflokka, að þá þyrfti að grípa til efnahagsráðstafana sem leiddu af sér almenna kjaraskerðingu í landinu, lækkuð laun, og hún framkvæmdi þessa ákvörðun sína á þann hátt, að það leiddi til mikilla verðlagshækkana. Gengi krónunnar var lækkað 1. sept. 1974, sem auðvitað fól í sér verðlagshækkun. Gengi krónunnar var aftur lækkað í febrúarmánuði 1975, sem auðvitað fól í sér verðlagshækkun. Lagðir voru á nýir skattar, m.a. söluskattur hækkaður. Auðvitað vissu allir að þetta fól í sér verðlagshækkun. Fleira kom hér til. Síðan var gengi krónunnar látið halda áfram að síga með þeim afleiðingum að verðlag hækkaði.

Deilur hafa auðvitað staðið um það, eins og við allir vitum sem hér erum, hvort þetta hafi verið rétt leið sem valin var, hvort það hafi verið óhjákvæmilegt að grípa til þessara ráðstafana eða ekki. Fulltrúar launþegasamtakanna í landinu og ég ætla við allir, sem vorum í stjórnarandstöðu, töldum að það væri hægt að fara aðrar leiðir og það ætti að fara aðrar leiðir en farnar voru. En ríkisstj. og hennar meiri hl. á Alþ. ákvað að fara þessa leið sem leiddi til tiltekinna verðlagshækkana, og ætti enginn að reyna að skjóta sér undan því að þora að horfa á þær tölur sem þessar ákvarðanir leiddu til. Hitt er miklu nær sæmilegri röksemdafærslu að deila um hvort þessar ráðstafanir, sem ákveðnar voru, voru óhjákvæmilegar eða hvort þær voru kannske ekki nauðsynlegar. En verðhækkanirnar, sem við tölum um, urðu til á þennan hátt. Meira að segja stjórnvöld og aðrir, ég tala nú ekki um aðilana hinu megin við borðið hjá ríkisstj., — meira að segja stjórnvöld töldu að búið væri að gera svo mikið í þessum efnum að óhjákvæmilegt væri að hækka ýmis laun í landinu í kjölfar þessara ráðstafana, og ríkisstj. stóð að vissum launahækkunum ákveðinna aðila á eftir þessum ákvörðunum. Síðan hækkuðu laun eftir samningum og vísitöluhreyfingu sem auðvitað leiddi einnig af sér áframhaldandi verðlagshækkanir. Þessi dýrtíð, sem yfir okkur hefur gengið að þessu leyti til, átti því ekki að koma að óvörum að neinu leyti. Menn vissu að þeir höfðu ákveðið þetta sjálfir, reyndar með þeirri röksemd að þetta væri óhjákvæmilegt.

Til þess að gera þetta mál eilítið skýrara fyrir mönnum en það virðist oft vera í almennum málflutningi er rétt að benda á það, að auðvitað gátu stjórnvöld í þessum efnum náð nákvæmlega sama árangri með því að velja aðra leið. Þau hefðu t.d. getað ákveðið þessa kjaraskerðingu, sem ákveðin var og framkvæmd var, með beinni lagasetningu um lækkun á kaupi. Þá hefði auðvitað ekki geysast áfram sama verðbólga með þeim vandamálum sem verðbólgunni fylgja, en kjaraskerðingarvandamálið hefði verið það sama eftir sem áður. En ríkisstj. valdi ekki þá leið. Hún valdi verðbólguleiðina, verðhækkunarleiðina til þess að ná takmarki sínu.

Ég tel að það hafi í rauninni enginn maður verið í neinum vafa um það, að um það leyti sem nýir launasamningar voru gerðir nú á miðju þessu ári var komið að því að almenn hreyfing yrði gerð á kaupmætti launa vegna þeirrar kjaraskerðingar sem áður hafði verið framkvæmd. Hún hafði m.a. verið rökstudd, þessi kjaraskerðing, með því að vissar útflutningsvörur okkar hefðu lækkað í verði og þjóðarbúið hefði orðið fyrir vissum áföllum. Nú lá það alveg skýrt fyrir, að þessar röksemdir dugðu ekki lengur. Vörurnar höfðu hækkað í verði, hærra en nokkru sinni fyrr, og viðskiptakjörin voru orðin eins og þau höfðu verið best. Þjóðartekjurnar höfðu aukist. Ég tel að þeir menn hafi verið í rauninni algerir blindingjar í efnahagsmálum sem hafa búist við því, að það ástand, sem ríkti varðandi launakjör í landinu áður en síðustu launakjarasamningar voru gerðir á þessu ári, væri eitthvert varanlegt ástand sem þá var komið upp, að þær tölur, sem þá lágu fyrir, sýndu einhvern endanlegan árangur í baráttunni við verðbólgu. Nei, þar var aðeins um biðtíma að ræða. Svo stóðu menn eins og fyrri daginn frammi fyrr köldum veruleikanum. Kaupið lagaði sig að nýjum aðstæðum í efnahagskerfinu, eins og það hefur jafnan gert áður, og þá stóðu menn aftur í sama farinu nema bara með allar tölur miklu hærri en þegar byrjað var. Ríkisstj, hafði sem sagt ekki tekist að leysa nokkurn skapaðan hlut af þessum margumtalaða efnahagsvanda, heldur var þvert á móti að mínum dómi, að það fer allajafna svo þegar menn kasta sér út í verðbólguiðuna eða verðhækkunarskriðuna, að þá dregst þar margt með sem ekki verður auðveldlega fært aftur á bak. Nú standa menn hins vegar frammi fyrir því, að það er ekki aðeins að vísitalan, sem menn nota hér einkum sem mælikvarða, hafi farið úr 26% hraða upp í 32%, sem nú er talið að muni verða á þessu ári, heldur viðurkenna menn að sú tala muni enn hækka mjög verulega ef hjólið snýst áfram eins og allt virðist benda til.

Við vitum að nýlega hafa verið teknar ákvarðanir um að hækka alla verslunarálagningu í landinu um 10% og þó líklega öllu meira, þar sem ýmis sérstök álagning hefur hækkað meira. Auðvitað vita allir að þessi ákvörðun þýðir hækkað verðlag.

Við vitum líka að það liggja fyrir kröfur um það frá bændum landsins, að verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða verði nú hækkaður um ca. 26%. Það er ekki búið að taka ákvörðun um það enn þá hvað þessi hækkun verður mikil. Málið mun vera komið til yfirnefndar og hún á eftir að vinna sitt starf. En það vita allir, að þarna er á ferðinni talsverð verðhækkun.

Við höfum líka fengið hér á borð okkar flestir, hygg ég, upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um að fiskverkunin í landinu sé raunverulega rekin með miklum halla, eða eins og segir í nýjustu skýrslu hennar, að telja megi, að fiskimaðurinn þurfi að fá hækkun sér til handa sem nemi í kringum 2.5 milljarða ef hann eigi að verða rekinn með eðlilegum hætti og standa eðlilega gagnvart verðjöfnunarsjóði. Þeir voru að koma saman núna á sinn venjulega ársfund, útgerðarmenn í landinu, og formaður L.Í.Ú. flutti þar ræðu sem menn máttu svo sem vita algerlega fyrir fram hvernig hljóðaði að því leyti til, að hann leggur þar auðvitað áherslu á að um næstu áramót verði fiskverð að hækka, Fiskverð hækkaði ekki neitt I. okt. s.l., þegar laun voru að hækka almennt í landinu, og útgerðarmenn segja að sjálfsögðu eins og sjómannasamtökin hljóta að segja: Við krefjumst þess, að fiskverð hækki þannig að laun sjómanna geti hækkað eitthvað í takt við það sem laun hjá öðrum hækka og allt annað hækkar. Sú krafa kemur fram sem afleiðing af því sem á undan er gengið.

Við höfum einnig verið upplýstir um það, að útflutningsiðnaður landsmanna sé rekinn með stórfelldum halla og þurfi að koma til styrkjagreiðslu sem nemur hundruðum millj, kr., svo að við vitum mætavel að við stöndum þannig núna að fram undan eru sjáanlegar margar og miklar verðlagshækkanir.

Eins og ég sagði áður í sambandi við þessa till., hef ég ekki á móti því að fram fari hlutlaus kennsla og sanngjarnar upplýsingar séu veittar almenningi í landinu um ástand þessara mála. En hitt er augljóst mál, að í þeirri kennslu verða menn ekki allir á eitt sáttir um útskýringar. Og þó að við tölum um að fela Þjóðhagsstofnun þennan kennsluþátt, þá er Þjóðhagsstofnun og forstöðumaður hennar, sá ágæti maður og glöggi maður, ráðunautur ríkisstj, í efnahagsmálum og ber því sinn hlut af ábyrgðinni á þeirri stefnu sem upp hefur verið tekin. Við vitum að það er grundvallarmunur út af fyrir sig að þessu leyti til á Þjóðhagsstofnun og t.d. á Hagstofunni, sem reiknar út beinar staðreyndir og birtir þær aðeins hlutlægt í tölum. Það gerir Þjóðhagsstofnun vissulega líka í mörgum og mikilvægum greinum, en þar að auki hefur forstjóri Þjóðhagsstofnunar þetta sérstaka verk, að hann er trúnaðarmaður ríkisstj, varðandi þessi mál og ráðunautur hennar um aðgerðir í efnahagsmálum. En auðvitað er hægt að gera þetta allt með þeim hætti, að þarna komi fram fulltrúar frá hálfu atvinnurekenda, fulltrúar frá hálfu launþega, fulltrúar frá hálfu fræðimanna, sem ýmist halda þessu fram eða hinu. Hvort almenningur í landinu verður svo öllu fróðari á eftir, það skal ég ekkert segja um. Það er sjálfsagt að athuga það nánar.

Ég ætla mér ekki við þessa umr. að fara hér í neinar almennar umr, um efnahagsmál, ásakanir eða harðar deilur. Ég vildi aðeins draga þetta fram, sem ég held að eigi ekki að vera hægt að deila neitt um, eins og ég hef sagt það hér. Ég vildi aðeins undirstrika það, að óhjákvæmilegt er að huga vel að því, hvernig á að búa um þessa fræðslu, því að þetta er ekki mál af neinni venjulegri tegund, ekki svo sem eins og efnt væri til almennrar fræðslu um hættu af áfengisneyslu eða eitthvað þess háttar, sem ég held að mætti gjarnan fara fram í auknum mæli í útvarpinu, eða þá fræðslu um það, hvernig menn eigi að komast hjá offitu. Þetta eru allt saman hlutir, sem vel er hægt að halda uppi kennslu um. En þegar kemur að því að það eigi að halda uppi þar kennslu um pólitík, þá vandast málið. Ég vek athygli á þessu og vil vænta þess, að sú n., sem fjallar um till., hugleiði það vel áður en verður farið að efna til einhvers þess sem gæti jafnvel gert málið enn þá flóknara en það hefur nokkurn tíma verið til þessa tíma.