29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós ánægju mína yfir því að sjá hæstv. samgrh. aftur hér í þingsölum. Hann hefur verið nokkuð mikið fjarverandi undanfarið. Ég vil líka nota tækifærið til þess að óska honum til hamingju með niðurstöðu í prófkjöri á Vesturlandi.

En ég læt um leið í ljós undrun yfir því, að hann er farinn að tala miklu lægra en hann gerði áður. Maður á stundum erfitt með að heyra til hans þegar maður situr svona langt frá ræðustólnum eins og ég.

En ég heyrði nóg til þess að vita að það stendur ýmislegt til hjá Skipaútgerð ríkisins. Sannleikurinn er sá, að þau mál, sem hér eru til umr., mættu gjarnan vera oftar til umr. Það er að mínum dómi furðulegt með þjóð eins og okkur Íslendinga, sem byggir mest strendur lands síns, að við skulum ekki nota sjóinn meira til flutninga. Það ætti líka að vera sérstakt kappsmál okkar á Vesturlandi, að úr þessum málum yrði bætt að því er Vestfirðinga snertir, enda getur auga leið að ein ástæðan til þess, hversu illa er komið vegakerfi okkar, er sú, að þungaflutningar fara um Vesturlandsvegi til Vestfjarða, og reyndar annarra landshluta líka. Og að sjálfsögðu er það líka skýringin á því, hversu illa er komið vegakerfi yfirleitt, að um veginn fer allt of mikið af þungaflutningum. Ef við gætum létt þessum flutningum af vegunum yrði ástand vegakerfisins allt annað. Og ég á von á því, að hinn ungi forstjóri Skipaútgerðar ríkisins láti að sér kveða í þessum málum. Ég vænti þess, að hann sjái til þess að flutningar á sjó aukist og þar með dragi úr þungaflutningum á vegum okkar. Þar væri fengin mikil vegabót.