05.12.1977
Efri deild: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. forsrh. vil ég láta koma fram þá skoðun mína, að þessi fsp. eigi fyllsta rétt á sér og sé harla tímabær til umr. hér á Alþingi. Það er að vísu rétt, sem hæstv. forsrh. segir, að um þetta mun hafa verið fjallað á sérstökum fundi þingmanna kjördæmisins og ríkisstj. í síðustu viku, en mér skilst að ekki hafi legið fyrir nægilega skýr svör í lok þess fundar. Staðreynd er, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar fjallaði um þetta mál á föstudagsmorgni, og þá kom ljóslega fram að afstaða ríkisvaldsins í þessu máli lægi ekki nægilega skýrt fyrir. Það liggur fyrir að staðan í atvinnumálum á Þórshöfn er mjög alvarleg og margir, sem gerst þekkja tii, telja að það mál þoli alls ekki neina bið. En til þess að hægt sé að sjá fyrir endann á þessum málum verður það að liggja fyrir, hvort ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir því, að síldarverksmiðjan á staðnum verði keypt eða hvort hún ætlar að láta málið kyrrt liggja.

Það er ósennilegt, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sjái sér fært að kaupa þessa verksmiðju, miðað við hin mörgu fjárfestingarplön sem Síldarverksmiðjur ríkisins hafa uppi um þessar mundir, án þess að Síldarverksmiðjum ríkisins verði með einhverjum hætti auðveldað, og þess vegna sýnist mér á öllu að það standi upp á hæstv. ríkisstj. að svara því, hvort hún ætlar að beita sér fyrir því að Síldarverksmiðjum ríkisins verði gert kleift að ráðast í þessi kaup sem eru greinilega lykillinn að lausn vandans. Ef þessi kaup eiga sér ekki stað, þá er bersýnilegt að atvinnulíf á staðnum hrynur bókstaflega talað í rúst og stendur þá ekki steinn yfir steini, hvorki varðandi útgerð né fiskvinnslu, og slíkt má að sjálfsögðu alls ekki ske.

Ég lít svo á að hér sé um að ræða harla óvenjulegt mál og að þetta sé ekki mál sem varði fyrst og fremst Síldarverksmiðjur ríkisins, hvort atvinnulíf á þessum stað hrynur í rúst eða ekki. Þetta er mál sem varðar Alþ., varðar hæstv. ríkisstj. vegna þess að Þórshöfn er óvenjulega viðkvæmur hlekkur í byggðakeðjunni á norðaustanverðu landinu og það hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir nálæg byggðarlög ef hrun yrði í atvinnustarfsemi á þessum stað.

Þetta vildi ég láta koma skýrt fram vegna orða hæstv. forsrh., sem gaf í skyn að ef hv. þm. Stefán Jónsson hefði verið viðstaddur þennan þingmannafund, þá hefði hann e.t.v. ekki þurft að spyrja hér. Ég lít svo á að þannig standi nú málin ekki. Ég held að við þm. allir þurfum að fá að vita hver verði afstaða hæstv. ríkisstj. í þessu máli, því að það er greinilegt að það er ríkisvaldið með ríkisstj. í broddi fylkingar sem heldur á lyklinum til lausnar þessu vandamáli.