05.12.1977
Neðri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

103. mál, gjaldþrotalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Nú um langt skeið hefur borið brýna nauðsyn til þess að löggjöf um, gjaldþrotaskipti væru endurskoðuð, enda hefur gjaldþrotameðferð sætt nokkurri gagnrýni. Sú gagnrýni á að mínum dómi nokkurn rétt á sér, þar eð meðferð á einstökum þrotabúum hefur oft á tíðum dregist úr hömlu, en það hefur aftur haft það í för með sér, að eignir búsins, hafi þær þá verið nokkrar, hafa að sjálfsögðu rýrnað með ári hverju. Ég vil segja það sem mína skoðun, að sennilega er ekki á neinu sviði réttarfarsins meiri þörf á endurbótum heldur en á sviði gjaldþrotameðferðar, og á það við enda þótt önnur svið hafi meira borið á góma í umræðum.

Ég hef látið kanna það, hvort unnt væri að breyta framkvæmd núgildandi laga um gjaldþrotaskipti án þess að gera jafnframt breytingar á þeim lögum. Niðurstaða þeirrar könnunar varð í stuttu máli sú, að ekki þótti unnt að gera æskilegar breytingar á framkvæmdinni nema lögunum væri áður breytt.

Frv. það til gjaldþrotalaga, sem nú hefur verið lagt fram, er allmikið að vöxtum. Þess er ekki að vænta, að þm. geti áttað sig á öllum þeim atriðum, sem fram koma í frv., á stuttum tíma. Hins vegar er það svo, eins og ég tók fram í upphafi, að það er mjög brýnt að frv. nái fram að ganga sem allra fyrst, og ég vil eindregið mælast til þess, að svo geti orðið á þessu þingi til þess að gjaldþrotameðferð hér á landi verði komið sem fyrst í viðunanlegt horf. Í því sambandi getur hvert árið sem líður skipt miklu máli.

Eins og sést á frv. sjálfu og athugasemdum við það, hefur frv. verið nokkuð lengi í smíðum, og ég tel að vel hafi verið vandað til undirbúnings þess. Það hefur líka verið stuðst við endurskoðun sem fram hefur farið og er að fara fram í þessum efnum á hinum Norðurlöndunum. En ég tel með tilliti til þess, sem ég sagði, að þess sé ekki að vænta, að þörf verði á því að gera verulegar breytingar á þessu frv, að því er varðar hina lagatæknilegu hlið þess. Hitt er auðvitað sjálfsagt, að þm. kynni sér meginefni frv. sem gleggst, enda má ekki skilja orð mín svo, að ég sé að hvetja til þess að mál þetta verði afgreitt í neinu flaustri.

Þessu frv, fylgir sérlega ítarleg grg, ásamt könnun sem gerð var á gjaldþrotaskiptum á sínum tíma á vegum Lagastofnunar Háskólans. Ég skal því reyna að fara fljótt yfir sögu og endursegja ekki það, sem í athugasemdum má lesa, nema þá að takmörkuðu leyti.

Lög um gjaldbrotaskipti voru fyrst sett hér á landi árið 1894. Lög þessi voru byggð á dönskum lögum frá árinu 1872. Árið 1929 voru sett hér á landi núgildandi lög um þetta efni. Þau lög byggðu í grundvallaratriðum á reglum hinna eldri laga, en var þó breytt í einstökum atriðum er ágreiningi höfðu valdið í lögunum frá 1894. Það er álit ýmissa, sem til þekkja, að með því að breyta fyrstu lögunum um gjaldþrotaskipti eins og gert var árið 1929 hafi verið stigið spor aftur á bak. Núgildandi lög hafa nefnilega frá upphafi verið haldin ýmsum annmörkum, sem þó er ekki ástæða til að fjölyrða um hér.

Gjaldþrotaskiptalögin frá 1929 hafa staðið svo til óbreytt fram á þennan dag. Árið 1972 voru að vísu gerðar breytingar á lögunum í því skyni að greiða fyrir rannsóknum á gjaldþrotamálum. Breytingar þessar hafa þrátt fyrir góðan vilja þeirra, sem að þeim stóðu, ekki náð þeim árangri sem vonir stóðu til. og vík ég e.t.v. að því síðar.

Árið 1972 var Þór Vilhjálmssyni, þáv. prófessor, nú hæstaréttardómara, falið að endurskoða löggjöf um skipti og þá fyrst og fremst gjaldþrotaskipti. Þór skilaði fyrst frv. til breytinga á reglum um skuldaröð og var það frv. síðan samþ, sem lög nr. 32 frá 1974. Í haust skilaði hann svo frv. því sem hér liggur nú fyrir til umr. Síðan var farið yfir frv. í dómsmrn. og gerðar á frv. tvær smábreytingar, þ.e.a.s. á 21. gr. og 119, gr. frv. Fyrri breytingin lýtur að því, að skiptaráðandi skuli jafnan krefja lánardrottin um tryggingu vegna kostnaðar eða bóta áður en gjaldþrotaúrskurður er kveðinn upp. Síðari breytingin miðar að því, að sá, sem krafist hefur gjaldþrotaskipta, beri ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar ef eignir búsins hrökkva ekki fyrir skiptakostnaði.

Það má segja að tveir meginágallar hafi verið á framkvæmd gjaldþrotaskipta hér á landi síðustu ár. Í fyrsta lagi fá kröfuhafar sjaldnast nokkuð upp í kröfur sínar, og í öðru lagi taka skiptin allt of langan tíma. Þessi atriði eru reyndar samtvinnuð oft og einatt, þar sem dráttur á því að ljúka skiptum hefur að sjálfsögðu það í för með sér, að minni eignir koma til skipta en ella væri. Í frv. er reynt að ráða bót á þessum tveimur megingöllum, en jafnframt er leitast við að færa reglur um sjálfa skiptameðferðina í nútímalegra horf.

Fjölmörg ákvæði frv. eiga að flýta fyrir skiptum á gjaldþrotabúum. Í því sambandi er e.t.v. mikilvægast að stefnt er að því að létta álagi af skiptaráðendum. Álag á skiptaráðendur er í dag allt of mikið og er ugglaust aðalástæðan fyrir því, hve skipti, einkum á hinum stærri þrotabúum, dragast á langinn. Það, sem veldur þessu mikla álagi, er að mínum dómi einkum tvennt. Annars vegar eru kveðnir upp hér á landi óvenjulega margir gjaldþrotaúrskurðir, og segir tala úrskurðanna þó ekki alla söguna, þar eð fjöldinn allur af gjaldþrotabeiðnum er ýmist afturkallaður eða felldur niður áður en úrskurður er upp kveðinn, en hefur samt kostað tíma og fyrirhöfn fyrir skiparáðanda. Hins vegar hvílir svo til öll vinna við skiptameðferð, svo sem könnun eigna og skulda og búsuppgjör, á herðum skiptaráðenda. Þessu er öðruvísi farið í nágrannalöndun­ um, þar sem sérstakir skiptastjórar eða bústjórar án dómsvalds sjá að mestu leyti um skiptameðferðina eftir að gjaldþrotaúrskurður hefur verið kveðinn upp.

Í frv. er lagt til að þessi háttur verði tekinn upp hér á landi. Í XIIL kafla frv. er gert ráð fyrir sérstökum skiptastjóra er fari með önnur þrotabú en þau, þar sem um tiltölulega lágar fjárhæðir er að tefla eða meðferðin með öðrum hætti sérlega einföld. Í 85. gr, frv. er skiptaráðanda að auki veitt heimild til að ráða bústjóra til bráðabirgða uns eiginlegur skiptastjóri hefur verið valinn. Og í 93. gr. er skiptaráðanda heimilað að ráða sér aðstoðarmann fari skiptaráðandi sjálfur með búskipti.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um störf og skyldur skiptastjóra eða annarra þeirra sem koma nálægt þeim skiptum, þar sem frv, geymir ítarlegar reglur um það efni og gera verður ráð fyrir því, að hv. alþm, kynni sér þær. Ég vil þó aðeins vekja athygli á því, að þóknun til þessara aðila, skiptastjóra og aðstoðarmanna sem ráðnir kunna að verða, skal að sjálfsögðu greidd af eignum búsins. Þessar tillögur ganga í meginatriðum í svipaða stefnu og samþykktir Lögmannafélags Íslands sem um það efni hafa verið gerðar og vitnað er til í athugasemdum.

Þá er lagt til í frv. að þeirri skyldu verði létt af skiptaráðendum að annast rannsókn á því, hvort þrotamaður eða aðrir hafi gerst eða kunni að hafa gerst brotlegir við refsilög. Með lögum nr. 32 frá 1972, sem áður eru nefnd, var skiptaráðendum falið þetta hlutverk. Þá var talið að með þeirri breytingu væri stefnt til bóta í þessu efni, en því miður hefur sú breyting ekki komið að tilætluðum notum.

Nú hefur verið sett á stofn rannsóknarlögregla ríkisins, og í kjölfar þess hefur rannsóknarlögreglumönnum verið fjölgað nokkuð og aðstaða þeirra bætt talsvert, þó að þar standi enn margt til bóta, þannig að rétt þykir að rannsóknarlögreglan annist rannsókn á miklum brotum á þessu sviði eins og á öðrum skyldum sviðum. Í 87. og 90. gr. frv. er þannig gert ráð fyrir því, að skiptaráðendur eða skiptastjórar skuli tilkynna ríkissaksóknara ef þeir telja að þrotamaður eða aðrir kunna að hafa gerst sekir um refsivert athæfi, Saksóknari kveður svo á um rannsókn málsins og fer hún fram að hætti opinberra mála.

Í tengslum við þetta er rétt að geta þess, að ein af ástæðum fyrir því, hve skipti á þrotabúum hafa dregist á langinn, er að oft á tíðum hefur gengið erfiðlega að ná til þrotamanns. Skiptaráðendur hafa ekki átt þess kost að leita aðstoðar lögreglu, þar sem ekki hefur verið mælt fyrir um slíkt í lögum. Í 81, gr, frv. segir aftur á móti að lögreglumönnum sé skylt að sækja þrotamann og færa hann á fund skiptaráðanda eða annarra þeirra sem með skiptin fara. Önnur leið til þess að létta álagi af skiptaráðendum er sú að fækka gjaldþrotabeiðnum og þá um leið gjaldþrotaúrskurðum, þ.e.a.s. að fækka tilefnislausum gjaldþrotabeiðnum og gjaldþrotaúrskurðum þá um leið, að það sé ekki verið að leggja á dómendur að sinna beiðnum um slíkt þegar fyrir fram er alveg augljóst að ekki er um neinar eignir að ræða og skiptameðferð getur ekki orðið að neinu gagni til að fá kröfur greiddar, heldur leiðir aðeins til ómaks og skriffinnsku hjá dómara. Í nágrannalöndunum okkar berast skiptarétti mun færri beiðnir um gjaldþrotaskipti en tíðkast hefur hér á landi, einkum þó í Reykjavík. Ástæðurnar fyrir þessu eru eflaust fjölmargar og að sjálfsögðu t.d. sá óstöðugleiki sem hefur verið hér í efnahagslífi.

En það, sem þó skiptir sennilega meira máli í þessu sambandi, er sú venja, sem komist hefur á á síðustu árum, að gjaldþrotameðferð sé notuð sem einhvers konar innheimtuaðgerð, en ekki fullnustugerð, eins og henni er þó ætlað að vera.

Á ári hverju berast borgarfógetaembættinu í Reykjavík t.d. hundruð gjaldþrotabeiðna á einstaklinga sem fyrirsjáanlega eru algjörlega eignalausir. T.d. hefur sú siðvenja verið tekin upp, að Gjaldheimtan lætur sér ekki nægja að vanefni skattþegns séu sönnuð með árangurslausu lögtaki, heldur krefst gjaldþrotaskipta á búi þeirra. Slík krafa er vafasöm að mínum dómi, skilar ekki árangri og er óþörf, það sýnir reynslan. Mikið af dýrmætum tíma skiptaráðenda fer í að afgreiða slíkar beiðnir, að sjálfsögðu oftast nær með litlum eða engum árangri.

Í 21. gr. frv. er, sem fyrr segir, gert ráð fyrir því, að tryggingar vegna kostnaðar verði jafnan krafist áður en gjaldþrotaúrskurður er kveðinn upp. Með þessu á að setja undir þann leka, að lánardrottnar séu út í bláinn, að ég segi ekki að gamni sínu, að krefjast gjaldþrotaskipta í tilfellum þar sem augljóst er að þau geta ekki borið neinn árangur. Þess vegna yrði t.d. Gjaldheimtan, ef hún vildi hafa þann hátt á sem mér sýnist að hafi nokkuð tíðkast, að setja tryggingu fyrir kostnaði sem af því leiddi, áður en úrskurður væri kveðinn upp um beiðni frá henni.

Jafnframt segir svo í 119. gr. frv-, að þegar skuli ljúka skiptum, ef í ljós komi að búið eigi ekki eignir umfram skiptakostnað. Hrökkvi eignir hússins ekki fyrir skiptakostnaði beri sá, sem krafist hafi gjaldþrotaskipta, ábyrgð á greiðslu kostnaðar.

Með þessum tveimur ákvæðum er leitast við að koma í veg fyrir það, eins og ég sagði, að krafist sé gjaldþrotaskipta á búi einstaklinga eða félaga, þar sem fyrirsjáanlegt er að eignir eru alls engar og engum eignum hefur verið skotið undan óeðlilegum hætti. Kostnaður sá, er kröfuhafar bera, kemur til með að verða mun meiri en nú er með tilkomu skiptastjóra þeirra sem fyrr eru greindir, en þóknun þeirra verður sem fyrr segir greidd af eignum búsins eða kröfuhöfum, ef þóknunin nemur hærri fjárhæð en eignir þær sem fyrirfinnast í búinu. Ég held að með þessum ákvæðum eigi að vera komið nokkuð í veg fyrir það sem ég vil kalla misnotkun á dómstólum.

Fleiri ný mæli er að finna í frv. sem stuðla eiga að fljótvirkari gjaldþrotameðferð. Benda m.a. á ákvæði XV. kafla frv., þar sem kveðið er á um eftirlit skiptaráðenda með störfum skiptastjóra og annarra þeirra sem koma nálægt skiptunum. Þá gerir 125. gr. frv. ráð fyrir því, að skiptum verði lokið þótt enn séu ekki til ráðstöfunar allar eignir búsins, þótt tekið hafi verið frá fé vegna umdeildra og skilyrtra krafna eða þótt afmarkaður hluti búsins sé með öðrum hætti óuppgerður, það sé ekki verið að veltast með bú, þegar þannig stendur á, hjá skiptarétti og í bókum skiptaráðenda sem bú sem ólokið sé skiptameðferð á. Í slíkum tilvikum skal endurupptaka búsmeðferð, ef tilefni gefst til. Fleiri ákvæði XVIII. kafla frv, stefna og í sömu átt.

Annar meginágalli á gjaldþrotameðferð hér á landi er sá, að kröfuhafar fá of lítið upp í kröfur sínar. Í könnun, sem birt er sem fylgiskjal með frv. því sem hér er til umr., kemur t.d. fram að í fjórum af hverjum fimm þrotabúum fundust engar eignir — alls engar eignir. Ef nokkrar eignir komu fram, greiddist yfirleitt ekkert upp í almennar kröfur og forgangskröfur greiddust aðeins að hluta. Þetta eru að mínum dómi óskemmtilegar tölur. Ástæðan fyrir þessu er e.t.v. sú, að það er of seint hafist handa um að beiðast gjaldþrotameðferðar á búi aðila, þar sem það þó er skylt að lögum, og hann lætur farast fyrir að framselja bú sitt til gjaldþrotaskipta þegar hag hans er svo komið. Enn fremur ræður að sjálfsögðu hér nokkru um, að búskiptin dragast oft lengur en hóf er á. En margt fleira kemur auðvitað til.

Ég vil aðeins víkja að einu atriði, sem ég drap reyndar á, en ofurlitið nánar, og það er um að bú koma of seint til gjaldþrotaskipta, áður hefur einstökum lánardrottnum verið ívilnað eða eignum búsins sóað með öðrum hætti. Til þess að stemma stigu við þessu hafa verið tekin upp í frv. ákvæði um svonefnda greiðslustöðvun. Slík ákvæði hafa verið í gildi um tveggja ára skeið í Danmörku og gefist vel að dómi þeirra sem til þekkja. Með ákvæði um greiðslustöðvun er m.a. leitast við að greiða fyrir samningum milli þrotamanns og kröfuhafa um skuldaskil. Í tengslum við þetta nýmæli er svo ætlunin að leggja fram frv. til breytinga á lögum um nauðasamninga, nr. 19 frá 1924, og vænti ég þess, að það geti orðið nú alveg á næstunni. Sú leið, sem lögin um nauðasamninga gera ráð fyrir, hefur því miður verið lítið notuð fram að þessu, en verður vonandi raunhæfari með tilkomu sérstakra ákvæða um greiðslustöðvun í gjaldþrotalögum.

Í VIL kafla frv. er að finna ákvæði um riftun á ráðstöfunum þrotamanns fyrir skiptin svo og riftun á vissum fullnustugerðum lánardrottna hans á sama tíma. Lagt er til að riftun á þessum ráðstöfunum verði gerð mun greiðari en nú er.

Í frv. er enn fremur lagt til að reglur um meðferð á gjaldþrotabúum verði teknar upp í gjaldþrotalög, en þær reglur hefur hingað til að mestu leyti verið að finna í lögum um skipti á dánarbúum, félagsbúum o.fl., nr. 3 frá 1878. Ef frv. yrði að lögum yrðu reglurnar um gjaldþrotameðferð meira í takt við tímann, ef svo má segja. Meginbreytingin yrði sú,að sá sem færi með skiptin, hvort sem það væri skiptaráðandi sjálfur eða skiptastjóri, fengi mun frjálsari hendur en nú tíðkast. í frv. er lagt til að hann geti haldið eða látið halda áfram atvinnurekstri um sinn á vegum búsins, hann geti ráðstafað eignum án þess að selja þær á uppboði og hann sé ekki eins háður ákvörðunum skiptafundar og nú er. Á móti er svo gert ráð fyrir því, að heimilt sé að skipa sérstaka kröfuhafanefnd til að fylgjast með gerðum skiptaráðanda eða skiptastjóra en sú nefnd á þó ekki að hafa neitt ákvörðunarvald. Um þessi atriði og fleiri skyld er einkum fjallað í XII.–XIV. kafla frv. Þess er að vænta, að hin breytta gjaldþrotameðferð hafi það hvort tveggja í för með sér, að meðferðin verði fljótvirkari og kröfuhafar fái meira upp í kröfur sínar en nú á sér stað.

Í frv. er að sjálfsögðu að finna mörg önnur nýmæli en þau sem gerð hefur verið grein fyrir hér. Öll eiga þau að miða að því að gera gjaldþrotameðferðina einfaldari og tryggja jafnframt réttaröryggi þeirra sem í hlut eiga. En ég sé ekki ástæðu til að telja þau hér upp eða fjölyrða um þau, þar sem fyrir þeim er ítarleg grein gerð í aths. sem fylgja frv.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins leggja áherslu á að ég tel mjög nauðsynlegt að færa gjaldþrotameðferð hér á Íslandi í viðunandi horf sem allra fyrst. Stórt skref í þá átt væri að frv. það, sem hér er til umr., næði fram að ganga. Hinu má svo auðvitað ekki gleyma, að þeim breytingum, sem gert er ráð fyrir í frv., verður að sjálfsögðu að fylgja eftir í framkvæmd. Lögin ein út af fyrir sig eru ekki hér fremur en endranær einhlít, heldur verður framkvæmdin að fara eftir og vera í samræmi við það sem til er ætlast.

Ég get til fróðleiks vísað mönnum á þá könnun sem gerð var í Lagastofnunum háskólans og er prentuð sem fskj. með frv. Þar er að finna athyglisverðar upplýsingar ýmsar hverjar, m.a. um það, hve búskipti hafa oft og einatt dregist óhæfilega lengi. Þar geta menn kynnt sér þær upplýsingar sem þá lágu fyrir um þetta efni. En ég tel rétt að það komi fram hér og nú, að fyrir rúmu ári leitaði dómsmrn. upplýsinga um það hjá skiptaráðendum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, hversu mikil brögð væru að því að gjaldþrotameðferð drægist á langinn. Í ljós kom, að í Reykjavík var skiptum enn ólokið í 47 þrotabúum sem tekin höfðu verið til skipta á árunum 1967–1973. Í Kópavogi og Hafnarfirði var skiptum aftur á móti lokið í næstum öllum þeim þrotabúum er tekin höfðu verið til skipta á fyrrgreindu tímabili. Í framhaldi af þessum upplýsingum skiptaráðenda í Reykjavík lagði rn. svo fyrir með bréfi, dags. 13. jan. s.l. að ljúka skiptum við 27 þrotabú er tekin höfðu verið til skipta á árunum 1967–1973. Skiptum á þessum búum er nú lokið eða um það bil að ljúka. Standa þá enn eftir 20 þrotabú frá fyrrnefndu tímabili þar sem skiptum er enn ólokið. Ástæðurnar fyrir því, hversu meðferð á þessum þrotabúum hefur dregist, eru margar, og skal ég ekki ræða það ítarlega. En þær voru að sjálfsögðu færðar fram í svörum skiptaráðanda á sínum tíma. T.d. má benda á að rannsókn á meintu misferli þrotamanna, hvort sem sú rannsókn fór fram í sakadómi eða rannsóknardeild skiptaréttar, hefur í sumum tilfellum dregist úr hófi fram. En hér kemur fleira til. eins og t.d. það sem ég hef áður nefnt: óhæfilega mikið álag á skiptaráðendur.

Það er ljóst, hvað sem líður öllum tilraunum til þess að færa gjaldþrotameðferð hér á landi í betra horf, að það verður ekki gert sem skyldi að óbreyttri löggjöf.

Ég hef nú rakið í stórum dráttum hvernig því frv., sem hér til umr., er ætlað að bæta úr því hálfgerða — svo að ég taki nú ekki sterkar til orða — ófremdarástandi er nú ríkir á þessu sviði réttarfars. Ég vil leyfa mér að vænta þess að hv. þd. taki frv. þessu vel og hraði afgreiðslu þess svo sem kostur er. Þess vegna vil ég nú mælast til þess við þá hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún reyni að hafa þann hátt á um meðferð þess sem leiðir til skjótari afgreiðslu en stundum tíðkast, þ.e.a.s. hún hafi frekar þann hátt á, eftir því sem við verður komið, að kalla þá fyrir sig, sem hún telur ástæðu til að ræða þessi mál við, í stað þess að senda frv., kannske litið athugað í öndverðu, til umsagnar ýmissa aðila, sem senda svo umsagnirnar kannske seint eða ekki. Mér væri einnig mikil þökk í því, að nefndir beggja þd , sem þetta mál fer til, hefðu þann háttinn á að vinna saman að þessu máli, þannig að það gæti flýtt fyrir meðferð þess í síðari deild. En ég vil endurtaka það, að ég legg hið mesta kapp á, mér er það mikið kappsmál að þetta frv. fái fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Ég heyrði að formaður þeirrar n. hefur orlof í dag, en ég vænti þess, að þeir, sem hér eru úr hv. allshn., komi þessum tilmælum mínum á framfæri við hann.