14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

121. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir undirtektir þær sem þetta frv. hefur hér fengið.

Út af því, sem hv, þm. Helgi Seljan minntist á, að gjald fyrir vínveitingaleyfi eftir lögum væri allt of lágt, þá er það rétt, eins og hann rakti, að því hefur verið breytt með reglugerð. Hefur verið talið, af því að ráðh. hefur nokkuð rúmt vald í sambandi við það, að það hafi verið heimilt og gæti staðist, En að sjálfsögðu er ekki lakara að fá inn ákvæði um þetta í frv., og ég hef auðvitað ekkert á móti því, að hv. allshn. taki það til skoðunar, hvort eigi að hækka gjöld fyrir vínveitingaleyfi.

Það er auðvitað álitamál og og getur verið álitamál, hversu hátt gjald eigi að taka fyrir slík leyfi. Ég efast ekki um að þeir, sem annast þennan veitingarekstur, muni hafa einhvern hagnað af honum. En ég álít þó miklu mikilvægara í því sambandi, að þeir hagi starfsemi sinni á þá lund, að hún sé í fyllsta samræmi að sjálfsögðu við lög og reglur og að þar sé gætt þess að hafa þá umgengni með áfengi, að þar verði ekki stór misbrestur á. Nú eru skoðanir manna skiptar um það að sjálfsögðu, hvort sé hægt að fara með áfengi á við skulum segja venjulegan hátt eða ekki. En ég hygg þó, þegar alls er hætt, að það sé mikils um vert að þan veitingahús, sem hafa þennan rétt, séu vel í stakk búin hvað allan útbúnað snertir og séu þannig að það sé ekki hægt að tala um að þessi hús séu hálfgerðar leiðindasjoppur, „búlur“, eins og stundum er kallað. Ég veit ekki hvort það út af fyrir sig að hækka gjaldið fyrir leyfunum hefur mikið að segja í því sambandi. En ég hef síður en svo á móti því að það sé athugað af hv. nefnd.

Enn fremur er þess að gæta, að auðvitað getur hún líka athugað, hvort eigi að binda þessi leyfi við eitt ár í staðinn fyrir að gert er ráð fyrir því, að það geti verið til fjögurra ára. Öll leyfi eru gefin út með fyrirvara, þannig að þau eru afturkallanleg ef verulegur misbrestur verður á. En fyrir þann, sem fer með valdið í þessum efnum, er auðvitað ekki lakara að hafa alveg ákveðin og glögg mörk við að styðjast, eftir því sem unnt er að setja í löggjöf.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson vék að varðandi aldursmarkið, þá verð ég að segja það, að það er vissulega atriði sem mikið hefur verið hugsað og menn hafa brotið mjög heilann um. Skoðanir manna eru skiptar um þetta. Ágætir bindindismenn telja það kannske óeðlilega tilslökun að lækka aldur þeirra, sem mega sækja vínveitingahús, almennt niður í 18 ár, En það eru takmarkanir á þessu, eins og menn vita, að það má ekki veita áfengi yngri manni en 20 ára. Aðrir aftur á móti hafa bent á, sem hafa eftirlit með veitingahúsunum, að þessi aldursákvæði eru ákaflega erfið í framkvæmd og leiða oft til þess, að af spretta nokkur leiðindi. Og það er auðvitað slæmt að hafa ákvæði í löggjöf sem ekki er eiginlega hægt að framkvæma. Ég skal fúslega játa, að þó að það sé e.t.v. sagt að maður sé með því að fljóta undan straumi, hefur mjög hvarflað að mér að það yrði að breyta þessum aldursmörkum og menn yrðu að beygja sig fyrir staðreyndum, leiðinlegum staðreyndum sjálfsagt, að menn neyta yfirleitt áfengis yngri heldur en átti sér stað t.d. þegar áfengislögin voru sett. Og ég efast um að þeirri staðreynd, sem á sér stað í þessum efnum, verði breytt með lagaákvæðum. Ég efast um að þau beri þann árangur. Þess vegna er það eitt þeirra atriða, sem verður að taka rækilega til athugunar í sambandi við annað hvort heildarendurskoðun á áfengislöggjöf eða í sambandi við endurskoðun á einstökum atriðum, hvort það er ekki karlmannlegast að viðurkenna staðreyndir í þessu efni og breyta lögunum til samræmis við það. Þetta þykir sjálfsagt, eins og ég sagði. einhverjum goðgá, ef menn tala um þetta á þennan veg. En þeir, sem hafa kynnst þessum málum, geta varla annað en haft opin augun fyrir þessum staðreyndum.

Svo er nú annað, að áfengismálin eru auðvitað óskaplegt vandamál hjá okkur. Þarf ekki annað en benda á þá sorglegu staðreynd, að allur þessi óskaplegi slysafjöldi, sem hér á sér stað, á æðioft rætur að rekja til áfengisneyslu. og til ofneyslu áfengis. En ég verð að segja það, og styðst þar nokkuð við umsagnir löggæslumanna, að af tvennu illu er þó skárra kannske að áfengis sé neytt í vínveitingahúsum heldur en í heimahúsum, vegna þess að alvarlegustu og leiðinlegustu misfellurnar í sambandi við ofneyslu áfengis eiga sér því miður einmitt stað í heimahúsum. Það er auðvitað svið sem erfitt er fyrir löggjafa að ná til. og það er svið, sem erfitt er fyrir löggæslumenn að ná til, og auðvitað koma þeir þar ekki að fyrr en komið er í óefni og þeir eru til kvaddir. En líka í sambandi við þann ölvunarakstur, sem því miður á sér allt of oft stað, þá býst ég við að það megi oftar rekja rætur hans til áfengisneyslu í heimahúsum eða á öðrum stöðum heldur en á opinborum vínveitingastöðum.

Ég held að menn megi ekki loka augunum fyrir þessum staðreyndum í sambandi við þessi mál, sem eru ákaflega mikil vandamál okkar þjóðfélagi. Og það eru náttúrlega ömurlegar, en sjálfsagt fróðlegar lýsingar sem menn gætu fengið í lögregluskýrslum á því ástandi sem stundum ríkir í þessum efnum í heimahúsum, þegar lögreglumenn eru kvaddir þangað til að stilla til friðar.

Ég held að þrátt fyrir allt sé það þó svo inni í vínveitingahúsunum, að menn fara þar ekki sér né öðrum að voða. Þess vegna hafa t.d. sumir komið fram með þær hugmyndir í fullri alvöru, að það ætti að hafa vínveitingahús opin lengur, og ég tek það fram, að þær ábendingar hafa ekki endilega komið frá þeim mönnum sem eru tengdir veitingahúsum, heldur jafnvel frá mönnum sem hugsa mikið um þessi málefni og vilja reyna að bæta ástandið í þessum efnum hjá okkur.

Um það mætti auðvitað tala langt mál, hversu alvarlegt og óviðunandi ástandið er hér hjá okkur Íslendingum í áfengismálum. En ég ætla ekki að fara lengra út í það í þessu sambandi, af því að þetta frv. eða efni þess er út af fyrir sig um takmarkað efni.

Þeim spurningum, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson spurði varðandi upptöku, er ég ekki viðbúinn að svara. En vafalaust mundi n. geta fengið mann eða menn á sinn fund sem gætu gefið ítarlegar upplýsingar um það, hvernig bæði ákvæðum um þetta er háttað og hvernig framkvæmdinni er háttað í þessum efnum.