14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

131. mál, jöfnunargjald af sælgæti, brauðvörum o.fl.

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti, Þetta frv. er lagt fram og tekið til umr. með stuttum fyrirvara við þær aðstæður, að það er ómögulegt annað en að lita svo á, að það eigi tilverusíma að þakka fjárþörf ríkissjóðs. Það er flutt í syrpu frv, til að tryggja jöfnuð á fjárl. Hins vegar er óneitanlegt, að frv. veki athygli, vegna þess, að það fjallar um innflutning og vernd iðnaðar hér á landi. Ég sé því ástæðu til að ítreka það, sem ég sagði í ræðu um eitt af fyrri frv., þar sem ég raunar fjallaði um þau öll nema útsvarsfrv., að ég hef það á tilfinningunni að við Íslendingar höfum verið allt of linir í sambandi við framkvæmdir á þessum málum. Þó að til séu almennar reglur um fríverslun virðist að hvenær sem þátttökuþjóðir í efnahagsbandalögum eru í vandræðum á einhverju tilteknu sviði atvinnuvega, þá gera þær það, sem þær þurfa, og þær komast alltaf upp með það, þær finna alltaf leiðir til þess. Við, sem erum allra þjóða duglegastir að tala um sérstöðu okkar og höfum að mörgu leyti ríka ástæðu til þess, hefðum að minni hyggju átt að vera grimmari í þessum efnum, en ekki svo þægir við alþjóðasamtökin og bókstaf samninganna, þar sem talað er um heildarreglur fyrir viðskipti mörgum sinnum stærri þjóða en við erum. Þess vegna tel ég að þetta frv. muni vekja umr, sem muni halda áfram eftir að við höfum lokið þessum jólaönnum og að það sé rík ástæða til þess fyrir okkur að fara vel og af raunhæfni ofan í þessi mál.