15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Jón Helgason:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði, að ég fékk óljóst svar við spurningu minni á þeirri forsendu að Sunnlendingar hefðu ekki borið fram neina ósk um þetta. En þegar samtök sveitarfélaga á Suðurlandi óskuðu eftir athugun um að fá að gerast aðilar að Landsvirkjun, þá var ekki búið að gera þennan samning við Orkubú Vestfjarða, þannig að það getur verið að forsendur breytist dálítið þegar hann liggur fyrir ef þar með er mörkuð stefna. En þrátt fyrir það að ég fékk ekki mikið svar við þessu, þá langar mig að varpa fram annarri spurningu, áður en þetta frv. kemur nú til atkv., vegna þess sem Þorv. Garðar Kristjánsson, hv. 3. þm. Vestf., sagði hér áðan, að ef ekki væri samþykkt þessi skipting á verðjöfnunargjaldinu, þá yrði ekkert úr stofnun Orkubús Vestfjarða. Og þá langar mig að spyrja að því, hvort þar með sé búið að slá því föstu að skipting verðjöfnunargjaldsins verði þannig í framtíðinni, hvort samningurinn sé þannig, að hann teljist rofinn af hendi ríkisstj. ef þessu eða öðrum ákvæðum samningsins yrði breytt. Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið fyrir okkur að það sé ljóst. Ég tel, eins og ég held að hafi komið fram hjá mér áðan, að það séu stórir annmarkar á þessu fyrirkomulagi þrátt fyrir þann ávinning sem augljóslega er af þessu, en hægt sé að breyta þessu til bóta bæði fyrir Vestfirðinga og aðra landsmenn, því sé nauðsynlegt að það verði ekki litið á það sem samningsrof þó að Alþ. breyti þessu eitthvað. Mig langaði að fá svar við þessu.