19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

3. mál, íslensk stafsetning

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég hef ekki séð þetta frv. áður, ég gat ekki tekið þátt í störfum Alþ. þegar það var lagt fram upphaflega. Ég hef lesið það núna og ég fæ ekki betur séð en þetta frv. sé hófsamlegt og skynsamlegt í öllum meginatriðum og hef í sjálfu sér enga aths. að gera við það. Að vísu er þarna á einum stað orðalag sem ég felli mig ekki alveg við. Það er talað um að nauðsynlegt sé að stuðlað sé að æskilegri festu í stafsetningu. Á því máli eru tvær hliðar.

Þess er getið í upphafi grg., að um þetta mál hafi mikið verið rætt á þingi 1975–1976. Ég fylgdist með þeim umr. með aðstoð fjölmiðla, og mér virtust þetta vera umr. af því tagi sem stundum spretta upp hér á Alþ. þegar í þjóðfélaginu eru mikil vandamál sem menn eiga erfitt með að festa hendur á. Þá ber einatt svo við að alþm. fara að deila hatrammlega um einskisverða hluti, algerlega ómerkilega hluti. Þetta hefur verið gert oft áður í minni tíð hér á þingi. Ég minnist hatrammlegra umr. sem urðu á sínum tíma um rjúpuna. Þetta voru umr. af nákvæmlega sama tagi. Menn æstu sig upp út af hlutum sem voru algert smáatriði og skipta ekki nokkru minnsta máli í sambandi við stafsetningu,

Ég ætla ekki að fara að stuðla að slíkum deilum með þeim fáu orðum sem ég segi hér. Ég er þeirrar skoðunar að um stafsetningu eigi aðeins að gilda ein regla, að hún eigi að vera sem auðlærðust og aðgengilegust fyrir fólk, og sem betur fer er íslensk tunga svo gagnsæ að það er hægt að koma þessu við hér á Íslandi. En markmiðið stafsetningar á að vera það eitt, að allir, sem ganga í barnaskóla, eigi að geta lært að stafsetja málið á sem auðveldastan hátt. Þessi regla ein á að gilda og ekkert annað.

Menn tala stundum um nauðsynina á samhengi í íslensku ritmáli. Það samhengi er vissulega til, en ekki í formi stafsetningar. Ef maður les forn handrit, eins og ég gerði dálítið endur fyrir löngu, þá sér maður að það er sérstök stafsetning á hverju einasta handriti og sú stafsetning gefur raunar ýmsar vísbendingar um skrifara handritanna sem fróðlegt er að hafa. Þessi skipan hélst allt fram á 19. öld. Sendibréf og alls konar plögg eru til frá þessu tímabili og þau eru skrifuð hvert með sinni stafsetningu, og þetta hefur reynst málvísindamönnum ákaflega mikill kostur, því að einmitt vegna þess að ekki voru staðlaðar reglur um stafsetningu geta málvísindamenn lesið úr þessum handritum ýmsar breytingar á framburði íslenskrar tungu, t.a.m. gert grein fyrir því, hvenær Íslendingar týndu niður að bera fram það hljóð sem merkt er stafnum ufsilon. Það hefði sennilega ekki vera hægt ef til hefði verið einhver samræmd stafsetning, einhver stöðluð stafsetning sem menn hefðu hlýtt, hvernig svo sem breytingar hefðu orðið á framburði landsmanna. Ég tel það mikinn feng að þetta kerfi var ekki til, að það var ekki til nein samræmd stafsetning þá, eins og danskur málfræðingur og kreddumaður, sem hét Wimmer, kom á á seinustu öld og síðan hefur verið notuð mestmegnis við útgáfu handrita. Ég get staðhæft, að það er miklu skemmtilegra að lesa handritin eins og þau voru, með rithætti skrifaranna, heldur en með þessari samræmdu stafsetningu fornu.

Að því er varðar nútímamálið, þá hygg ég að nútímastafsetning eigi rætur sínar að rekja til málfræðingsins fræga, Rasmusar Kristjáns Rask, sem kom hingað og skrifaði málfræðirit um íslenska tungu sem kannske er grundvöllur þeirrar þróunar sem þar hefur orðið. Það voru hér uppi á sínum tíma ákaflega ofstækisfullar skoðanir um stafsetningu. Það voru á sínum tíma sett lög hér á Alþ. sem höfðu þann tilgang að koma Halldóri Laxness í tukthúsið vegna þess að hann leyfði sér að gefa út forn handrit með nútímastafsetningu, en ekki þessari samræmdu stafsetningu fornrita. Hæstiréttur hratt að vísu þeirri fáránlegu lagasetningu.

Ég lýsi yfir þessari almennu skoðun minni, að ég tel að stafsetning eigi að vera sem einföldust og auðlærðust fyrir alla. Það er ekki nema sáralítill hluti þjóðarinnar sem fer í það að lesa gömul handrit eða miðaldahandrit, og ég get borið því vitni að það er ekkert ýkjaerfitt að komast upp á lag með það og þeir, sem það gera, geta haft mikla ánægju af því, einmitt vegna þess að stafsetningin var ekki samræmd.

Stafsetningin er ákaflega mikilvægt atriði, og við Íslendingar erum þar vel settir vegna þess hve gagnsætt mál okkar er. Ég vil minna t.a.m. á náfrændur okkar Færeyinga. Þeir tóku upp á sínum tíma stafsetningu sem var sniðin eftir íslenskri stafsetningu. Þetta er mjög hagkvæmt fyrir okkur. Það er enginn vandi fyrir Íslendinga að lesa færeyskan texta. En þessi stafsetning, sem Færeyingar tóku upp, er mjög erfið fyrir færeysk börn, því að bilið á milli ritaðs máls og talaðs er þar ákaflega mikið. Og þetta þekkjum við úr ýmsum þjóðtungum öðrum, t.a.m. ensku, sem er ákaflega þægilegt mál í sjálfu sér. Stafsetning þar er svo erfið að það getur enginn maður lært hana. Jafnvel menn, sem hafa þá atvinnu að skrifa hvern einasta dag, munu á hverjum einasta degi þurfa að gá í uppsláttarrit til að vita hvernig sum orð eru stafsett. Og þetta er áreiðanlega óhemjulegur þröskuldur fyrir almennt fólk í landi eins og Bretlandi. Mig minnir að rithöfundurinn Bernard Shaw hafi gefið allar eignir sínar, þegar hann lést, til þess að hægt væri að koma fram breytingum á stafsetningu enskrar tungu. En ég held að lítið hafi verið gert í því þrátt fyrir þetta. Þetta var víst allhá fúlga. Í hana runnu m.a. höfundarlaun fyrir bækur hans. Þetta er mikið vandamál víða um lönd. T.a.m. í Kína og fleiri löndum er ekki notað stafróf, heldur rittákn sem merkja hvert sitt orð. Í Kína t.a.m., ef menn vilja verða sæmilega skrifandi eða læsir, þá verða þeir að læra hvorki meira né minna en 3000–5000 rittákn. Það er margra ára erfitt starf fyrir barn að læra þetta. Stafsetning skiptir því ákaflega miklu máli. En ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Afstaða mín er sú að hún eigi að vera sem allra einföldust. Ég er mjög á bandi Fjölnismanna það árið sem þeir gáfu Fjölni út undir forustu Konráðs Gíslasonar með stafsetningu sem var ákaflega lík framburði.

En ég ætla aðeins að gera aths. við eitt atriði og það var tilefnið til þess að ég kvaddi mér hljóðs. Á 4. síðu þessa þskj. er auglýsing um breytingu á auglýsingu frá 1974 um íslenska stafsetningu. Í þessari auglýsingu er fjallað um óhemjulega ómerkilegt atriði, þ.e.a.s. það, hvaða orð eigi að skrifa með stórum staf og hver með litlum. Þetta byrjar á langri þulu. Ég sé orðið Stokkseyringur og tek eftir því, af því ég er Stokkseyringur sjálfur og þykir vænt um Stokkseyri, en mér er alveg hjartanlega sama hvort Stokkseyringur er skrifaður með litlum staf eða stórum, það skiptir ekki nokkru minnsta máli. En það er eitt atriði í þessari auglýsingu sem skiptir máli, því að þar er komið inn á allt aðra hluti en stafsetningu. Í seinni hluta auglýsingarinnar er brtt. við 12. gr. upphaflegrar auglýsingar og þar stendur: „Nöfn á fylgismönnum stefna, jafnframt stjórnmálastefna sem annarra, svo og nöfn á fylgismönnum einstakra forustumanna skal rita með litlum staf, t.d. framsóknarmaður, sjálfstæðismaður, alþýðuflokksmaður“ — og svo heldur þulan áfram og endar á „hitlerssinni, maóisti, gaullisti“ o.s.frv. Ég vil biðja menn að veita athygli muninum sem þarna er í upphafi: framsóknarmaður, sjálfstæðismaður, alþýðuflokksmaður. Af hverju stafar þessi munur? Hann stafar af því að það er til á íslensku orðið alþýðumaður og það er ekki hægt að nota orðið alþýðuflokksmaður í sömu merkingu og alþýðumaður, það væri ofbeldi gagnvart málskynjuninni. Um þetta væri hægt að hafa ýmsar útleggingar um eðli Alþfl, t.a.m. og ég kæri mig ekkert um það. Ég er að benda þarna á atriði sem ég tel skipta miklu máli. Því er alveg eins farið með orðin framsóknarmaður og sjálfstæðismaður, að þau hafa allt aðra merkingu en framsóknarflokksmaður og sjálfstæðisflokksmaður. Þau hafa allt aðra merkingu og það er ofbeldi af hæstv. menntmrh. að heimta það að menn skrifi sjálfstæðismaður og framsóknarmaður með litlum staf í merkingunni sjálfstæðisflokksmaður og framsóknarflokksmaður. Þetta er ofbeldi við tunguna og þessu vil ég mótmæla. Ég mun aldrei gera þetta sjálfur. Hvað sem hæstv. ráðh, auglýsir þetta margsinnis og jafnvel þó að hann setji lög um að refsa mönnum fyrir að gera þetta ekki, þá mun ég aldrei hlýða þessu. Ég mun annaðhvort skrifa sjálfstæðisflokksmaður og framsóknarflokksmaður með litlum staf, eða ég gæti líka skrifað Framsóknarmaður og Sjálfstæðismaður, með stórum staf, vegna þess að þessir menn vilja heita þetta og þeir mega heita það sem þeir vilja. En þetta er heiti. Þetta er ekki það sama og sjálfstæðismaður og framsóknarmaður hafa sem merkingu í orðinu sjálfu og er miklu eldri merking en þessir tveir flokkar. (Gripið fram í:) Það má hafa það innan gæsalappa.) Það má hafa það innan gæsalappa, já, en það felst ekki í þessari auglýsingu. Og ég vil vara hæstv. menntmrh, mjög alvarlega við því að blanda saman merkingu tungunnar, sem er ákaflega mikilvægt atriði, og formsatriðum eins og stafsetningu. Það er gert þarna á þann hátt sem ég mótmæli algerlega, og ég endurtek þá tilkynningu mína til hæstv. menntmrh. að ég mun aldrei fylgja þessari auglýsingu hans um stafsetningu á íslenskri tungu.