24.10.1962
Sameinað þing: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (2722)

29. mál, rannsókn á orsökum sjóslysa

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Við hv. 8. þm. Sunnl. (KGuðj) höfum leyft okkur að flytja þáltill. þá á þskj. 29, sem hér er til umr. Till er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd og sé einn nefndarmaður tilnefndur af hverjum eftirtalinna aðila: Slysavarnafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands,

Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ríkisstj. skipar einn mann án tilnefningar, og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Verkefni n. skal vera að rannsaka, eftir því sem frekast er unnt, orsakir hinna mörgu skipskaða, sem orðið hafa við strendur landsins undanfarin 2–3 ár. Rannsókn þessari verði hraðað, eftir því sem frekast er unnt. Að henni lokinni verði, ef þurfa þykir, settar nýjar reglur um sjóhæfni íslenzkra fiskiskipa, um allar breytingar á skipum til stækkunar og um staðsetningar nýrra veiðita2kja um borð.

Kostnaðurinn við nefndarstörfin greiðist úr ríkissjóði.“

Eins og till. ber með sér, er þar lagt til, að hæstv. ríkisstj. skipi 5 menn í nefnd, sem rannsaki, eftir því sem frekast er hægt, orsakir hinna mörgu skipskaða, sem orðið hafa við strendur landsins undanfarin 2–3 ár. Fjögur félagasambönd skulu tilnefna einn mann hvert í nefndina, en þau eru Slysavarnafélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Landssamband ísl. útvegsmanna. Rétt þótti, að hæstv. ríkisstj. skipaði einn mann í nefndina, sem þá yrði jafnframt formaður hennar. Vel gat komið til mála að skipaskoðunarstjóri ríkisins væri sjálfkjörinn í nefndina, en flm, telja þó rétt, að það sé á valdi hæstv. ríkisstj., hvern hún tilnefnir. Aðalatriðið er, að í nefndina veljist starfhæfir menn, helzt með sérþekkingu á útbúnaði og sjóhæfni fiskiskipa. Eftir því sem betur er vandað val á mönnum til þess starfs, sem þáltill. gerir ráð fyrir, má ganga út frá því, að betri og jákvæðari árangur náist, og það er vitanlega aðalatriðið.

Það þykja að vonum hin mestu hörmungartíðindi, þegar skip farast. Sérstaklega eru slíkir atburðir sársaukafullir, þegar mannakaðar verða í sambandi við sjóslysin. Á undanförnum árum hafa átt sér stað margvíslegar aðgerðir til að auka öryggi skipshafna. í því sambandi má m.a. benda á stórauknar slysavarnir undir forustu Slysavarnafélags Íslands. Sumar deildir þessa ágæta félagsskapar hafa unnið slíkt afrek með björgun á mönnum, sem lent hafa í sjávarháska við strendur landsins, að vakið hafa alþjóðaraðdáun. Ný og fullkomin siglingatæki hafa og verið sett í skip, sem eiga að auka öryggi mjög mikið frá því, sem áður hefur verið. Þá. er og rétt að benda á hið stóraukna öryggi, sem fékkst með komu gúmmíbátanna. í mjög fróðlegu erindi um öryggi á sjó, sem skipaskoðunarstjóri ríkisins, Hjálmar R. Bárðarson, hélt 4. þ. m., kom fram, að gúmmíbjörgunarbátarnir hafa bjargað hér við land 261 mannslífi, frá því að þeir fyrst voru teknir í notkun á íslenzkum skipum. Í framhaldi af þessu segir skipaskoðunarstjóri orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Sennilega væru fæstir þessara manna nú á lífi, ef ekki hefði notið við þessara nýju björgunartækja.“ Áður í sama erindi upplýsir skipaskoðunarstjóri, að endurbætur hafi nú verið gerðar á gúmmíbátunum frá því, sem áður var, fangalínur styrktar og festingar í bátunum sjálfum. Allt er þetta góðra gjalda vert, svo langt sem það nær, en fleira þarf til að koma.

Ef athuguð eru þau sjóslys, sem orðið hafa á íslenzkum fiskiskipum frá 4. jan. 1980 til 1962, kemur í ljós eftirfarandi: 33 íslenzk skip og bátar hafa farizt, þar af 2 erlendis. Af rúmum 30 skipum, sem farizt hafa hér við land, virðist sem 11 skipanna hafi farizt vegna óviðráðanlegs leka. Nokkur skipanna hafa farizt vegna bruna o.s.frv. Ýmislegt bendir til þessa, að 2 af þessum skipum hafi kantrað, máske að einhverju leyti vegna of lítils botnþunga og þá líka vegna of mikils yfirþunga á bátapalli. Þau skip, sem hér er átt við, en þau eru skipin Stuðlaberg frá Seyðisfirði, og Hamar frá Sandgerði, munu hafa verið með síldarnætur á bátapalli, en venjulegar síldarnætur vega 3–5 tonn eftir því, hversu stórar þær eru og hvort þær eru blautar eða þurrar. Hinar nýju, stóru kraítblakkir með þeim útbúnaði, sem þeim fylgir, gera vitanlega sitt til að auka á yfirþunga skipanna. Slík yfirhleðsla beinlínis krefst aukins botnþunga, en slíks öryggis virðist því miður ekki ætíð vera gætt sem skyldi. Eftir því sem bezt verður vitað, var sjóveður ekkert tiltakanlega vont, er þessi skip fóruat. Talið er, að 6 vindstig hafi verið á þeim alóðum, sem Hamar frá Sandgerði fórst, og ekki ýkjamikill sjór. Aftur á móti mun sjóveður hafa verið verra, þegar Stuðlabergið fórst, enda eru á þeim slóðum straumbrot mikil í slæmum veðrum. Þó ægja mér menn, sem voru á sjó um líkt leyti og á svipuðum slóðum og skipið fórst á, að veðrið hafi ekki verið sérstaklega vont og af þeim ástæðum einum hafi ekki átt að vera nein sérstök hætta fyrir vel útbúið skip af þessari stærð. Því miður er nú enginn til frásagnar um það, hvað hefur orðið þess valdandi, að þetta nýja og glæsilega skip skyldi farast. Það er þungbært að sjá á bak hraustum og dugandi mönnum ásamt skipi þeirra. Þvílíkir atburðir hljóta að verða til þess, að allt sé gert, sem í mannlegu valdi stendur, til að fyrirbyggja, að slík slys endurtaki sig. Um Hamar frá Sandgerði er öðru máli að gegna. Þar björguðust allir mennirnir í gúmmíbát skipsins, m.a. vegna sérstaks snarræðis skipstjórans við að losa bátinn, sem kominn var í kaf. Þetta skip var 80 rúmlestir, nýviðgert eftir að hafa brunnið og sokkið í Keflavíkurhöfn. Skipið hafði verið á vetrarvertið, eftir að viðgerð hafði farið fram. Skipið hafði að dómi þeirra manna, sem á því voru, reynzt sæmilegt sjóskip. Skipið ætlaði á sumarsíldveiði fyrir Norðurlandi, en það fórst á leiðinni 30 sjómílur suðaustur af Jökli, 30. júní s.l. Hvað kom fyrir skipið? ærhöfnin telur, að veðrið hafi ekki verið sérstaklega slæmt, 6 vindstig af suðvestri, og sá sjór, sem kom á skipið, hafi ekki verið mikill. Sem sagt, ekkert sérstakt hafði komið fyrir, skipið hafði bara lagzt á hliðina og síðan sokkið eftir tæpar 15 mínútur. Hvað varð þess valdandi, að skipið fórst? Var yfirhleðsla skipsins of mikil? Var botnþungi skipsins ekki í samræmi við yfirhleðslu þess? Þessar og þvílíkar spurningar hljóta að koma fram, þegar skip farast með slíkum hætti og hér hefur verið lýst. Hvað þá um öll hin skipin, sem sokkið hafa vegna leka úti fyrir ströndum Íslands undanfarin ár? En þau eru Straumey frá Reykjavík, Helga frá Reykjavík, Helgi Flóvents, Húsavík, Sleipnir frá Keflavík, togarinn Elliði frá Siglufirði, Skarðsvík frá Rifshöfn, Guðbjörg Jónsdóttir, sem sökk á Stapavík, Stella frá Grindavík, og Gunnar Hámundarson frá Reykjavík. Eftir því sem bezt verður vitað, hafa öll þessi skip farizt af einni og sömu ástæðu, að þeim hefur komið óstöðvandi leki, skipsdælurnar hafa ekki haft undan. Skipverjar hafa orðið að yfirgefa hin sökkvandi skip. Oft hafa menn bjargazt í gúmmíbátunum eða verið bjargað af skipum, sem komin hafa verið á slysstaðinn. Slík björgun hefur oft og tíðum verið framkvæmd við hin erfiðustu skilyrði, stundum í stórsjó og náttmyrkri, eins og átti sér stað við björgun á skipshöfninni á togaranum Elliða.

Ég hef bent á nokkur af þeim sjóslysum, sem orðið hafa hér við land undanfarin ár. Ég hef rætt alveg sérstaklega um tvö sjóslysanna, Stuðlabergs- og Hamarsslysin, m.a.. vegna þess, að mér hafa fundizt þau bæði einna dularfyllst. Sama mætti raunverulega segja um Elliðaslysið. Öll þessi slys og raunverulega mörg fleiri eru að mjög litlu leyti upplýst. Um Stuðlabergsslysið er enginn til frásagnar, þar sem öll skipshöfnin fórst. Ljóst er þó, að eitthvað meira en lítið hefur komið fyrir. Nýtt og vel útbúið stórt skip ferst með öllu saman. Hvað hefur þá orðið skipinu að grandi? Það er hin þráláta spurning. Hver getur upplýst um botnþunga skipsins? Skipaskoðunarstjóri talar um, að þótt skipið væri svo til tómt, en með síldarnót á palli, hefði það samkv. hallatilraun, sem gerð var á skipinu í Noregi, átt að þola alta venjulega sjóa í slíku ástandi. Skipaskoðunarstjóri telur að áliti kunnugra, að straumbrot hafi grandað skipinu. En þá er bara spurningin: Hefði skipið þolað straumbrotið, ef það hefði haft viðhlítandi botnþunga? Mitt álit er, að þetta spursmál ætti að vera hægt að upplýsa frekar en gert hefur verið, og tel ég það hina mestu þörf. En um flest þau sjóslys, sem orðið hafa vegna skyndileka, liggja mjög takmarkaðar upplýsingar fyrir. Það skal þó tekið fram, að mér hefur ekki gefizt tækifæri til að kynna mér sjóprófsskýrslur um slysin, en hins vegar hef ég kynnt mér allrækilega blaðaskrif um þessi mál, en á þeim er mjög lítið að græða. Annars virðist það furðulegt, að skip, sem fengið hefur haffæriskírteini og máske nýkomið úr skoðun, skuli án sérstakra áfalla farast vegna leka. Þarna hlýtur eitthvað meira en lítið að vera að, sem er hin mesta nauðsyn á að verði kippt í lag, eftir því sem frekast er hægt. Fyrir því er þessi þáltill. flutt, ef verða mætti til þess, að hægt yrði að finna leiðir til úrbóta.

Í grg. okkar flm. fyrir till. tökum við það alveg sérstaklega fram, að í flutningi hennar felast engar ásakanir á einn eða neinn aðila og ekki sé till. fram komin af neinu sérstöku einu tilfelli, en við teljum tjón þjóðarinnar á mönnum og verðmætum á undanförnum árum svo mikið, að einskis megi láta ófreistað um að stemma hér við stigu, að svo miklu leyti sem það kann að vera á valdi forráðamanna þjóðfélagsins.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til við hæstv. forseta, að till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu.