16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

Minning Jóhanns Hafsteins

Forseti (Jón Helgason):

Áður en gengið er til dagskrár vil ég leyfa mér að minnast Jóhanns Hafsteins fyrrv. alþm. og ráðh., sem andaðist aðfaranótt uppstigningardags, 15. maí, 64 ára að aldri.

Jóhann Hafstein var fæddur á Akureyri 19. sept. 1915. Foreldrar hans voru hjónin Júlíus Havsteen, síðar sýslumaður Þingeyinga, og Þórunn Jónsdóttir fræðslumálastjóra og alþingismanns Þórarinssonar. Æskustöðvar Jóhanns voru á Húsavík, en hann fór ungur til langskólanáms, lauk stúdentsprófi á Akureyri 1934 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1938. Veturinn 1938–1939 var hann í London við framhaldsnám í þjóðarétti.

Jóhann Hafstein hóf ungur afskipti af stjórnmálum og var lengi í sveit forustumanna. Hann var einn af stofnendum og fyrsti formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, árið 1935, var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna 1939–1942 og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1943–1952. Erindreki Sjálfstæðisflokksins var hann 1939–1942 og framkvæmdastjóri flokksins var hann 1942–1952. Hann átti lengi sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, í stjórn Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og í stjórn

Landsmálafélagsins Varðar. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1965–1970 og formaður flokksins og jafnframt þingflokksins 1970–1973.

Jóhann Hafstein var kennari í þjóðarétti og almennri lögfræði við Viðskiptaháskóla Íslands 1939–1942. Árið 1946 var hann kosinn alþm. Reykvíkinga og átti sæti á Alþingi til vors 1978, er hann dró sig í hlé sökum vanheilsu. Alls sat hann á 35 þingum. Hann var forseti Nd. Alþingis 1959–1961 og 1962–1963. Árið 1946 var hann einnig kosinn í bæjarstjórn Reykjavíkur og átti sæti í henni til 1958 og var jafnframt í bæjarráði 1946–1954. Bankastjóri Útvegsbanka Íslands var hann 1952–1963. Hann átti sæti í bankaráði Framkvæmdabanka Íslands 1953–1966, allan starfstíma bankans, og var tvívegis formaður bankaráðsins. Haustið 1961 varð hann dóms- og kirkjumálaráðherra, heilbrigðismála- og iðnaðarráðherra í forföllum og gegndi þeim störfum til loka þess árs. Síðla árs 1963 tók hann fast sæti í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og tók þá við sömu ráðherrastörfum og 1961. Í júlímánuði 1970 varð hann forsætisráðherra, en lét af ráðherrastörfum í júlí 1971. Auk alls þessa gegndi Jóhann Hafstein ýmsum nefndarstörfum, var í lýðveldishátíðarnefnd 1944 og síðar í stjórnarskrárnefnd, var fulltrúi á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, á þingi Evrópuráðsins og á fundum Þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins.

Jóhann Hafstein helgaði flokki sínum starfskrafta sína vel og lengi. Hann barðist oft hart fyrir málstað sínum og samherja sinna í þjóðmálum, en honum var jafnframt lagið að miðla málum og leita sátta þegar þess þurfti við. Jafnan kvað mikið að honum í þjóðmálaumræðum meðan heilsa hans leyfði. Honum voru hugleikin landhelgismál Íslendinga öryggismál og þátttaka í vestrænni samvinnu. Í ráðherradómi hans ber einna hæst margvíslegar umbætur í iðnaðarmálum, og hann beitti sér einarðlega fyrir stóriðju á Íslandi. Snögglega varð það hlutskipti hans að taka við forustu í ríkisstjórn og flokksformennsku. Að þremur árum liðnum varð hann að láta af formennsku flokks síns vegna bilaðrar heilsu. Hann hélt þó áfram að vinna flokknum það gagn sem hann mátti.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóhanns Hafsteins með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]