Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 571, 116. löggjafarþing 299. mál: framleiðsla og sala á búvörum (stjórn mjólkurframleiðslu).
Lög nr. 112 29. desember 1992.

Lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í 1. mgr. 2. gr. laganna breytast eftirfarandi orðskýringar:
      Efri og neðri mörk greiðslumarks eru leyfileg fráviksmörk framleiðslu á lögbýli frá greiðslumarki býlisins án þess að frávikið valdi breytingu á beinum greiðslum úr ríkissjóði nema kveðið sé á um aðrar viðmiðanir í samningum Stéttarsambands bænda og landbúnaðarráðherra skv. a-lið 30. gr. eða í reglugerðum við lög þessi.
      Greiðslumark lögbýlis er tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.
      Heildargreiðslumark er tiltekið magn kindakjöts mælt í tonnum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er samkvæmt búvörusamningi með tilliti til heildarneyslu innan lands og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.
      Verðlagsár er tímabilið frá 1. september til 31. ágúst árið eftir. Þó getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins, að verðlagsár fylgi almanaksári.

2. gr.

     4. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Þá skipar stjórn Stéttarsambands bænda tvo menn í Framleiðsluráð, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og einn samkvæmt tilnefningu Landssamtaka sláturleyfishafa í landinu.

3. gr.

     1. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Framleiðsluráð kýs úr sínum hópi aðal- og varamenn í framkvæmdanefnd.

4. gr.

     Í 2. mgr. 7. gr. laganna breytist „Búreikningastofu landbúnaðarins“ í „Hagþjónustu landbúnaðarins“.

5. gr.

     Í 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna breytist „Búreikningastofa landbúnaðarins“ í „Hagþjónusta landbúnaðarins“ og í 4. málsl. 2. mgr. 11. gr. og í 3. málsl. 3. mgr. 11. gr. laganna breytist „Búreikningastofu landbúnaðarins“ í „Hagþjónustu landbúnaðarins“.

6. gr.

     20. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra getur heimilað innheimtu verðskerðingargjalds af þeim afurðum sem lög þessi ná til. Það dregst af verði til framleiðenda. Gjald þetta má að hámarki nema 5% af afurðaverði til framleiðenda og skal tekjum af því varið til markaðsaðgerða innan lands eða utan. Innheimta gjaldsins er háð því að fulltrúafundur Stéttarsambands bænda hafi óskað eftir töku þess og að tillaga um það hafi verið kynnt í fundarboði nema um sé að ræða gjaldtöku til að leiðrétta birgðastöðu skv. 44. eða 51. gr. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um innheimtu og ráðstöfun verðskerðingargjalds.

7. gr.

     21. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra getur heimilað innheimtu allt að 5% verðskerðingargjalds af úrvinnslu og heildsölukostnaði afurðastöðva í sama skyni og 20. gr. kveður á um, enda liggi fyrir ósk um gjaldtöku frá landssamtökum viðkomandi afurðastöðva nema um sé að ræða gjaldtöku til að leiðrétta birgðastöðu skv. 44. eða 51. gr.

8. gr.

     Á eftir orðunum „til samtaka framleiðenda“ í 25. gr. laganna komi: eða afurðastöðva.

9. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 29. gr. laganna orðast svo: Nú er ákveðið það magn búvöru sem hverjum framleiðanda eru tryggðar beinar greiðslur fyrir samkvæmt heimild í 30. gr. og verð hennar til framleiðanda er ákveðið skv. 8. gr. og er þá afurðastöð skylt að greiða framleiðanda fullt verð innan greiðslumarks samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli á innleggsdegi, sbr. þó 22. gr., fyrir búvörur, aðrar en þær sauðfjárafurðir sem lagðar eru inn í haustsláturtíð, 1. september til 30. nóvember.

10. gr.

     Í 1. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna breytist dagsetningin „15. október“ í: 25. október.

11. gr.

     4. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
     Um greiðsluskyldu afurðastöðva fyrir innlegg umfram greiðslumark, en innan efri marka þess, fer eftir gildandi samningum landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda skv. a-lið 30. gr.

12. gr.

     Á eftir 5. mgr. 29. gr. laganna kemur ný málsgrein er verður 6. mgr., svohljóðandi:
     Taki mjólkursamlag við mjólk umfram greiðslumark framleiðanda sem verður utan heildargreiðslumarks við lokauppgjör skal samsvarandi magn mjólkurafurða markaðsfært erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Framleiðsluráð landbúnaðarins getur þó heimilað sölu þeirra innan lands ef gengið hefur á birgðir og skortur á mjólkurvörum er því fyrirsjáanlegur.

13. gr.

     6. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
     Hafi verið tekin ákvörðun um verðskerðingu skv. 20.–21. gr. er afurðastöð skylt að halda henni eftir við uppgjör og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á hinu innheimta verðskerðingarfé.

14. gr.

     2. mgr. a-liðar og b-liður 30. gr. laganna falla brott og breytist stafliðaröð í greininni til samræmis við það.

15. gr.

     31. gr. laganna fellur brott.

16. gr.

     Við 39. gr. laganna, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 5/1992, bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða skulu greiddar handhafa réttar til beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993–1994 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. janúar 1993. Þetta gildir þó ekki ef gert er samkomulag á milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki er um sömu aðila að ræða, um annan hátt á greiðslum, enda berist tilkynning þess efnis til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 1993.
     Taki leiguliði við greiðslunum getur eigandi lögbýlis óskað eftir því við ábúðarlok að tekið verði tillit til þeirra við mat skv. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, að því marki sem þær teljast bætur fyrir skerðingu á búrekstraraðstöðu eftir lok ábúðartímans.

17. gr.

     Við 41. gr. laganna, sbr. c-lið 7. gr. laga nr. 5/1992, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Nýti rétthafi greiðslumarks það ekki til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár er landbúnaðarráðherra heimilt að fella það niður, enda hafi viðkomandi rétthafa verið tilkynnt um það og honum gefinn kostur á að leggja greiðslumarkið inn til geymslu.

18. gr.

     2. og 3. málsl. 1. mgr. 44. gr. laganna, sbr. f-lið 7. gr. laga nr. 5/1992, verða svohljóðandi: Verði birgðir kindakjöts í lok verðlagsárs umfram þriggja vikna sölu skulu þær markaðsfærðar innan lands eða utan með markaðsstuðningi sem kostaður skal með innheimtu verðskerðingargjalds, sbr. 20. og 21. gr., hjá framleiðendum kindakjöts og afurðastöðvum við slátrun og innlegg á því verðlagsári sem birgðirnar verða markaðsfærðar. Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður, að höfðu samráði við samtök sauðfjárframleiðenda og afurðastöðva, hvernig birgðunum skuli ráðstafað og er afurðastöðvum, framleiðendum og öðrum sem kunna að eiga umrætt kjöt skylt að lúta ákvörðun Framleiðsluráðs.

19. gr.

     Á eftir IX. kafla laganna kemur nýr kafli, sem verður X. kafli, með fyrirsögninni: Um aðlögun og stjórn framleiðslu mjólkur 1992–1998, og breytist kafla- og greinatala í lögunum til samræmis við það, sbr. 7. gr. laga nr. 5/1992. Kaflinn orðast svo:
     
     a. (47. gr.)
     Heildargreiðslumark mjólkur er tiltekið magn mjólkur, mælt í lítrum, sem beinar greiðslur ríkissjóðs miðast við. Við ákvörðun þess skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöð undanfarandi tólf mánaða tímabil og áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins fyrir komandi ár að teknu tilliti til birgða. Heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla. Það skal endanlega ákveðið þremur mánuðum fyrir upphaf verðlagsárs vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, en verður 100 milljónir lítra verðlagsárið 1992–1993, að lokinni aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu mjólkur að innanlandsmarkaði. Heimilt er að færa niður heildargreiðslumark mjólkur haustið 1993 eða síðar vegna endurkomu fullvirðisréttar sem leigður hefur verið Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Um greiðslur fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til samræmis við úthlutað greiðslumark fer eftir samningum skv. a-lið 30. gr.
     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu í greiðslumark lögbýla.
     
     b. (48. gr.)
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beinna greiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.
     Greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992–1993 skal vera jafnt fullvirðisrétti þess eins og hann er að lokinni aðlögun hans að innanlandsmarkaði haustið 1992.
     Greiðslumark þaðan í frá breytist í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki. Greiðslumark lögbýlis breytist ekki þótt innlegg þess í afurðastöð fari umfram greiðslumarkið.
     Nýti rétthafi greiðslumarks það ekki til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár er landbúnaðarráðherra heimilt að fella það niður, enda sé viðkomandi rétthafa tilkynnt um það, gefinn kostur á að leggja greiðslumarkið inn til geymslu og hann hafi staðfest samþykki sitt við þessari ráðstöfun.
     
     c. (49. gr.)
     Heimil eru aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Heimilt er þar að kveða á um að sala greiðslumarks, sem framleiðandi hefur leigt Framleiðnisjóði eða öðrum framleiðanda, sé háð því að það hafi verið nýtt til innleggs á lögbýli leigusala í allt að tvö ár fyrir sölu.
     Slík aðilaskipti taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir flutningi greiðslumarks frá lögbýli.
     Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýlið á sama hátt og kveðið er á um í 2. mgr. 42. gr.
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess.
     
     d. (50. gr.)
     Bein greiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðanda mjólkur og skal svara til 47,1% af framleiðslukostnaði mjólkur samkvæmt verðlagsgrundvelli á innleggsdegi. Hún greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis.
     Landbúnaðarráðherra skal að undangengnum samningum við Stéttarsamband bænda setja nánari reglur um beinar greiðslur, m.a. um framkvæmd þeirra, greiðslutilhögun, fráviksmörk og ráðstöfun beinna greiðslna vegna ónýtts greiðslumarks. Heimilt er að ákveða misháar beinar greiðslur eftir árstímum.
     
     e. (51. gr.)
     Framleiðsla innan heildargreiðslumarks skal notuð til að fullnægja þörfum innlenda markaðarins. Verði birgðir mjólkurafurða í lok verðlagsárs of miklar að mati Framleiðsluráðs landbúnaðarins skulu þær markaðsfærðar innan lands eða utan með markaðsstuðningi sem kostaður skal með innheimtu verðskerðingar, sbr. 20. og 21. gr., hjá mjólkurframleiðendum og mjólkursamlögum við innlegg á því verðlagsári sem birgðirnar verða markaðsfærðar. Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður, að höfðu samráði við samtök mjólkurframleiðenda og afurðastöðva, hvernig birgðunum skuli ráðstafað og er afurðastöðvum, framleiðendum og öðrum, sem kunna að eiga umræddar afurðir, skylt að lúta ákvörðun Framleiðsluráðs. Ákvæði 24., 26. og 27. gr. gilda um innheimtu verðskerðingargjalds.
     Safnist upp birgðir vegna samdráttar í neyslu skal landbúnaðarráðherra, í samráði við Stéttarsamband bænda, ákveða sérstaka lækkun á heildargreiðslumarki næsta verðlagsárs til að koma birgðastöðu í jafnvægi á allt að tveimur árum. Heimilt er að verja fjármunum sem sparast vegna þessa til að draga úr tekjuskerðingu framleiðenda eða til söluátaks á birgðum innan lands.
     
     f. (52. gr.)
     Ákvæði 45. gr. um úrskurðarnefnd gildir einnig um ágreining vegna ákvörðunar á greiðslumarki lögbýla samkvæmt þessum kafla.
     Allir þeir sem hafa fullvirðisrétt/greiðslumark til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu mjólkur eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðlögun og stjórn framleiðslu mjólkur.

20. gr.

     56. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Framleiðsluráði landbúnaðarins og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Í slíku samkomulagi er heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Fimmmannanefnd getur gripið inn í verðtilfærslu milli afurða telji hún það nauðsynlegt. Verðtilfærsla má aldrei verða hærri fjárhæð en sem svarar hráefnisverði hverrar afurðar. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.

21. gr.

     Stafliðir A til K í ákvæðum til bráðabirgða falla brott og í stað þeirra koma:
A.
     Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal bera kostnað við sölu á kindakjöti sem fellur til haustið 1992 vegna reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur skv. 5. mgr. 39. gr. laganna um mismunandi niðurfærslur eftir landsvæðum.
B.
     Heimilt er að verja á árinu 1993 allt að 250 milljónum króna af innheimtum verðjöfnunargjöldum af mjólk til að greiða fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu mjólkur sem framkvæmd var 1. september 1992 og tók gildi frá og með verðlagsárinu 1992–1993. Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal greiða fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar að því marki sem fullvirðisréttur, sem leigður hefur verið Framleiðnisjóði, er tekinn í notkun á ný verðlagsárið 1992–1993. Greiðsla vegna niðurfærslu skal vera 50 kr. fyrir hvern lítra mjólkur í fullvirðisrétti.
     Greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu mjólkur skulu greiddar handhafa beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu mjólkur verðlagsárið 1992–1993 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. mars 1993. Þetta gildir þó ekki ef gert er samkomulag á milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki er um sömu aðila að ræða, um annan hátt á greiðslum, enda berist tilkynning þess efnis til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. mars 1993.
     Þá skal Framleiðnisjóður bæta niðurfærslu sem nauðsynleg kann að verða vegna þess greiðslumarks (fullvirðisréttar) sem losnar úr leigu hjá sjóðnum verðlagsárið 1993–1994 eða síðar.
C.
     Heimilt er að verja á árunum 1993–1995 allt að 450 milljónum króna af innheimtum verðjöfnunargjöldum af mjólk til að styrkja úreldingu mjólkurbúa eða hagræðingu í mjólkuriðnaði samkvæmt sérstökum reglum sem landbúnaðarráðherra setur.
     Heimilt er að veita styrki til búháttabreytinga af ofangreindri fjárhæð á búum sem liggja fjarri afurðastöð og til búa þar sem flutningskostnaður vex verulega vegna úreldingar mjólkurbús.
D.
     Heimilt er á árinu 1993 að verja allt að 175 milljónum króna af innheimtum verðjöfnunargjöldum af mjólk til að standa straum af hluta kostnaðar við niðurgreiðslu á birgðum mjólkurvara sem til staðar verða í árslok 1992. Skal fjárhæð þessi endurgreidd úr ríkissjóði á árinu 1994, sbr. 6. gr. samnings um stjórnun mjólkurframleiðslu frá 16. ágúst 1992.
E.
     Fram til 31. ágúst 1993 skal tilkynna viðkomandi búnaðarsambandi ef selja á greiðslumark til framleiðslu mjólkur út af svæði þess. Þá skulu aðrir bændur á búnaðarsambandssvæðinu eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu í fjórar vikur eftir að tilkynning um sölu berst til búnaðarsambands. Sé forkaupsréttar neytt skal andvirði greiðslumarksins staðgreitt eða fullnægjandi trygging sett að mati seljanda. Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um auglýsingu og framkvæmd forkaupsréttar samkvæmt þessu ákvæði.
F.
     Á verðlagsárinu 1992–1993 skulu beinar greiðslur til framleiðenda mjólkur á lögbýlum miðast við þann hluta greiðslumarks sem ónotaður er 1. janúar 1993.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laga þessara um greiðslumark og beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur og sauðfjárafurða á lögbýlum falla úr gildi 31. ágúst 1998 nema samningur hafi verið gerður á grundvelli a-liðar 30. gr.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra, svo og ákvæði 7. gr. laga nr. 7/1990, um ráðstafanir vegna kjarasamninga, og 16. gr. laga nr. 9/1989, um efnahagsaðgerðir, auk laga nr. 25/1986, 29/1987, 6/1988 og 5/1992, allra um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46/1985, inn í þau lög og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1992.