Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 764, 116. löggjafarþing 42. mál: upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál.
Lög nr. 21 30. mars 1993.

Lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál.


1. gr.

     Lögum þessum er ætlað að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál hjá stjórnvöldum og að þau annist miðlun upplýsinga um umhverfismál til almennings.

2. gr.

     Lög þessi gilda um aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál hjá ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra.
     Með upplýsingum um umhverfismál er einkum átt við upplýsingar sem varða umhverfi og náttúruauðlindir. Enn fremur er átt við upplýsingar um starfsemi eða ráðstafanir sem hafa, eða líklegt er að hafi, óæskileg áhrif á fyrrgreind atriði.

3. gr.

     Einstaklingur eða lögaðili, sem óskar upplýsinga um umhverfismál, skal senda skriflega beiðni til viðkomandi stjórnvalds þar sem greint skal með skýrum hætti hvaða upplýsinga óskað er og annað er máli skiptir.
     Stjórnvald, sem í hlut á, skal afgreiða beiðni innan fjögurra vikna frá móttökudegi.

4. gr.

     Áður en veittar eru upplýsingar samkvæmt lögum þessum er varða mikilvæga viðskiptahagsmuni einstaklinga og fyrirtækja eða sem varða einkahagi manna skal leita álits viðkomandi fyrirtækis eða einstaklings.

5. gr.

     Grundvallarmarkmið laga þessara, sbr. 1. gr., er að tryggja rétt almennings til upplýsinga um umhverfismál en þó er heimilt að synja beiðni um slíkar upplýsingar, að öllu leyti eða hluta, ef rökstudd ástæða er til að ætla að upplýsingagjöfin geti haft skaðleg áhrif á:
  1. öryggi ríkisins,
  2. alþjóðasamskipti,
  3. mál sem eru í rannsókn eða á undirbúningsstigi,
  4. mikilvæga viðskiptahagsmuni stjórnvalda, einstaklinga og fyrirtækja, að meðtöldum hugverkarétti,
  5. einkahagi manna,
  6. umhverfisvernd.

     Heimilt er að synja beiðni um upplýsingar sem aflað hefur verið fyrir gildistöku laga þessara.
     Skylt er stjórnvaldi að rökstyðja synjun skv. 1. og 2. mgr.

6. gr.

     Heimilt er að kæra ákvörðun um synjun á aðgangi að upplýsingum til hlutaðeigandi ráðherra innan sex vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt ákvörðunin.
     Áður en ráðherra úrskurðar skv. 1. mgr. skal gefa aðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum að.

7. gr.

     Nú óskar aðili upplýsinga sem ekki eru fyrirliggjandi en talið er rétt að afla og láta í té og er þá stjórnvaldi, sem í hlut á, heimilt að taka sanngjarnt og hóflegt gjald fyrir slíka þjónustu.
     Stjórnvald skal gera þeim er upplýsinga óskar grein fyrir því gjaldi sem viðkomandi getur þurft að greiða.

8. gr.

     Stjórnvöld, sem starfa á vettvangi umhverfismála, skulu halda uppi kynningarstarfi fyrir almenning um umhverfismál og umhverfisvernd og tryggja að upplýsingar séu aðgengilegar almenningi.

9. gr.

     Umhverfisráðherra skal árlega birta opinberlega skýrslu um ástand og þróun umhverfismála á Íslandi.
     Enn fremur skulu stjórnvöld, sem starfa á vettvangi umhverfismála, gera grein fyrir lagasetningu, úrskurðum og ákvörðunum á sviði umhverfismála að því leyti sem þær snerta almannahagsmuni.

10. gr.

     Heimilt er umhverfisráðherra að setja reglugerð um nánari framkvæmd á lögum þessum.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1993.