Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 440, 117. löggjafarþing 292. mál: framleiðsla og sala á búvörum (verðmiðlun mjólkurafurða).
Lög nr. 126 28. desember 1993.

Lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993.


1. gr.

     Við lögin bætist ný grein, er verður 72. gr., svohljóðandi:
     Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara veitir landbúnaðarráðherra heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
     Nú heimilar ráðherra innflutning landbúnaðarvara og er honum þá heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara í samræmi við 3. mgr.
     Ráðherra ákveður með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning. Verðjöfnun á unnum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Ráðherra ákveður upphæð gjaldanna. Sér til ráðuneytis skal ráðherra skipa nefnd þriggja manna, einn án tilnefningar, annan tilnefndan af fjármálaráðherra og hinn þriðja tilnefndan af viðskiptaráðherra. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðist við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.

2. gr.

     Við lögin bætist ný grein, er verður 73. gr., svohljóðandi:
     Heimilt er að endurgreiða verðjöfnunargjöld við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni. Ráðherra ákveður með reglugerð þær vörur sem verðjöfnun tekur til og hver endurgreiðslan skuli vera.
     Sama nefnd og um ræðir í 3. mgr. 72. gr. skal vera ráðherra til ráðuneytis um ákvörðun verðjöfnunar við útflutning.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1993.