Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 487, 117. löggjafarþing 298. mál: framleiðsla og sala á búvörum (innflutningur landbúnaðarvara og verðmiðlunargjöld).
Lög nr. 129 28. desember 1993.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.


1. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að innheimta verðmiðlunargjald af afurðum nautgripa og sauðfjár. Skal gjald þetta teljast til heildsölu- og dreifingarkostnaðar sé hann ákveðinn af fimmmannanefnd. Landbúnaðarráðherra ákveður upphæð gjaldsins hverju sinni og má það aldrei vera hærra en 3,5% af heildsöluverði viðkomandi búvöru.
     Tekjum af verðmiðlunargjaldi skal m.a. varið þannig:
  1. til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöðvum í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna og til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum afurðum, sbr. 60. gr.,
  2. til að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva,
  3. til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað.
     Við ráðstöfun tekna af verðmiðlunargjaldi er heimilt að taka tillit til stærðar og staðsetningar afurðastöðva svo að unnt sé að styrkja sérstaklega rekstur þeirra þar sem það þykir hagkvæmur kostur vegna landfræðilegrar einangrunar.
     Áður en ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun tekna af verðmiðlunargjöldum skal leita tillagna frá Framleiðsluráði landbúnaðarins og samtaka þeirra afurðastöðva sem um ræðir.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1993.