Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 907, 117. löggjafarþing 197. mál: meðferð opinberra mála (áfrýjun o.fl.).
Lög nr. 37 19. apríl 1994.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.


1. gr.

     1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Einn dómari skipar dóm í hverju máli. Nú neitar ákærði sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og getur hann þá með samþykki forstöðumanns dómstólsins kvatt til tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi.

2. gr.

     Í 2. mgr. 44. gr. laganna fellur niður orðið „ríkissaksóknari“, en í stað þess kemur: Hæstiréttur.

3. gr.

     Í 3. mgr. 126. gr. laganna breytist tilvísun til 1. mgr. 153. gr. laganna í 2. mgr. 151. gr.

4. gr.

     3. og 4. mgr. 133. gr. laganna verða svohljóðandi:
     3. Ákærði skal kvaddur til að vera viðstaddur uppsögu héraðsdóms sé þess kostur. Sæki hann þing telst dómur þá birtur fyrir honum, en annars lætur ákærandi birta dóm skv. 20. gr.
     4. Endurrit af dómi skal að öðru jöfnu vera til reiðu við dómsuppsögu, en að öðrum kosti ekki síðar en viku eftir þann tíma.

5. gr.

     1. mgr. 135. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Í dómi skal greina dómstól og nafn dómara eða nöfn ef fleiri eru en einn, stað og stund dómsuppkvaðningar, nafn, kennitölu eða fæðingardag og heimili ákærða, sakarefni, lýsingu málsatvika í aðalatriðum og röksemdir dómara um niðurstöðu og viðurlög. Í röksemdum dómara skal koma skýrlega fram hvað hann telji sannað í máli og með hverjum hætti. Niðurstöður skulu loks dregnar saman í dómsorð.

6. gr.

     140. gr. laganna fellur niður.

7. gr.

     147. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Samkvæmt ákvæðum þessa kafla má áfrýja til Hæstaréttar héraðsdómi í opinberu máli í því skyni að fá:
 1. endurskoðun á ákvörðun viðurlaga,
 2. endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á skýringu eða beitingu réttarreglna,
 3. endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á mati á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi,
 4. ómerkingu á héraðsdómi og heimvísun máls,
 5. frávísun máls frá héraðsdómi.

8. gr.

     148. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Ríkissaksóknari getur áfrýjað héraðsdómi ef hann telur ákærða ranglega sýknaðan eða refsingu eða önnur viðurlög að mun of væg, sbr. þó 150. gr. Honum er einnig heimilt að áfrýja dómi ákærða til hagsbóta.

9. gr.

     149. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Ákærði, sem hefur verið sakfelldur í héraði, getur áfrýjað héraðsdómi, sbr. þó 150. gr.
     2. Lögráðamaður kemur í stað ákærða um ákvarðanir um áfrýjun ef ákærði er ósjálfráða.
     3. Nú er ákærði látinn og getur þá maki hans, foreldri, systkin, barn eða sá sem tengist honum þannig vegna ættleiðingar áfrýjað dómi fyrir hans hönd.

10. gr.

     150. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Nú hefur ákærði ekki sótt þing í héraði og mál verið dæmt að honum fjarstöddum skv. 1. mgr. 126. gr. og verður þá dómi aðeins áfrýjað um lagaatriði eða viðurlög og að fengnu leyfi Hæstaréttar.
     2. Áfellisdómi verður aðeins áfrýjað með leyfi Hæstaréttar ef ákærða er þar hvorki ákveðin frelsissvipting né sekt eða eignaupptaka sem er hærri en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum.
     3. Beiðni um leyfi til áfrýjunar skv. 1. eða 2. mgr. skal vera skrifleg og ítarlega rökstudd og berast Hæstarétti innan áfrýjunarfrests. Leiti ákærði eftir áfrýjunarleyfi skal beiðni um það beint til ríkissaksóknara ásamt tilkynningu skv. 2. mgr. 151. gr. Afhending beiðni um leyfi til áfrýjunar rýfur áfrýjunarfrest. Hæstiréttur skal gefa gagnaðila kost á að tjá sig um beiðni innan tiltekins frests. Áfrýjunarleyfi verður ekki veitt nema sérstakar ástæður mæli með því.

11. gr.

     151. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Ef ákærði er staddur við uppkvaðningu héraðsdóms skal dómari kynna honum rétt hans til áfrýjunar og frest til að lýsa henni yfir. Að öðrum kosti annast þetta sá sem birtir ákærða dóm. Skal getið að þess hafi verið gætt í bókun í þingbók eða birtingarvottorði.
     2. Ákærði skal lýsa yfir áfrýjun dóms innan fjögurra vikna frá birtingu hans í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara. Í tilkynningunni skal tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þar á meðal varðandi kröfur skv. XX. kafla ef því er að skipta. Ríkissaksóknara og öðrum ákærendum er skylt að veita ákærða leiðbeiningar um gerð tilkynningar ef eftir því er leitað.
     3. Berist ríkissaksóknara ekki tilkynning ákærða um áfrýjun innan frests skv. 2. mgr. skal líta svo á að ákærði vilji hlíta héraðsdómi.

12. gr.

     152. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Nú hyggst ríkissaksóknari áfrýja héraðsdómi og skal þá áfrýjunarstefna gefin út innan átta vikna frá uppkvaðningu hans. Ef ákærði áfrýjar dómi getur ríkissaksóknari áfrýjað honum af hálfu ákæruvalds þótt sá frestur sé liðinn.

13. gr.

     153. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Ríkissaksóknari skal vera sóknaraðili máls fyrir Hæstarétti, hvort sem hann hefur sjálfur áfrýjað dómi eða ákærði.
     2. Nú er áfrýjun dóms ráðin og gefur þá ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu þar sem skal greina:
 1. heiti og númer sem málið bar fyrir héraðsdómi, fyrir hverjum héraðsdómstóli var leyst úr málinu og hvenær dómur var kveðinn upp í því,
 2. nafn ákærða, kennitölu eða fæðingardag og heimili, svo og hver komi fram fyrir hans hönd við áfrýjun skv. 2. eða 3. mgr. 149. gr. ef því er að skipta,
 3. hvort áfrýjað sé af hálfu annars málsaðila eða beggja og nákvæmlega í hverju skyni það sé gert, þar á meðal hvort máli sé áfrýjað varðandi kröfu skv. XX. kafla, hafi hún verið dæmd að efni til í héraðsdómi,
 4. að ákærða sé stefnt til Hæstaréttar og málið verði tekið þar fyrir svo fljótt sem verða má án frekara fyrirkalls.
     3. Ríkissaksóknari lætur birta áfrýjunarstefnu fyrir ákærða og skal honum þá um leið gefinn kostur á að bera fram ósk um verjanda. Að því búnu sendir ríkissaksóknari Hæstarétti stefnuna með sönnun fyrir birtingu hennar ásamt endurriti héraðsdóms og skipar Hæstiréttur ákærða verjanda nema hann óski eftir að flytja mál sitt sjálfur, enda sé hann hæfur til þess að mati dómsins.

14. gr.

     154. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Þegar áfrýjun er ráðin skal héraðsdómstóllinn, þar sem var leyst úr máli, verða við beiðni ríkissaksóknara um að afhenda honum dómsgerðir.
     2. Þegar ríkissaksóknara hafa borist gögn skv. 1. mgr. og verjandi hefur verið skipaður skal ríkissaksóknari að höfðu samráði við verjanda búa til málsgögn, en til þeirra teljast samrit af þeim málsskjölum og endurritum sem aðilarnir telja þörf á við úrlausn máls eins og áfrýjun er háttað. Hæstarétti skulu síðan afhent málsgögn í þeim fjölda eintaka sem hann telur þörf á, svo og dómsgerðir.
     3. Hæstiréttur setur nánari reglur um frágang málsgagna og dómsgerða.

15. gr.

     155. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Þegar málsgögn hafa verið afhent skal hæstaréttarritari veita þeim aðila máls, sem hefur hlutast til um áfrýjun, tiltekinn frest til að skila skriflegri greinargerð og gögnum sem hann kann enn að telja vanta og hann hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti. Þegar greinargerð og gögn hafa borist veitir hæstaréttarritari gagnaðila frest til að skila greinargerð og gögnum af sinni hálfu. Hvor aðilinn um sig skal senda hinum aðilanum afrit af greinargerð og gögnum sínum um leið og hann afhendir þau Hæstarétti.
     2. Í greinargerð málsaðila skal koma fram:
 1. hvers hann krefjist fyrir Hæstarétti,
 2. hvort hann felli sig við lýsingu málsatvika í héraðsdómi og röksemdir fyrir niðurstöðu, en ef svo er ekki skal getið á stuttan og gagnorðan hátt í hverjum atriðum hann sé ósammála og hvernig hann rökstyðji í meginatriðum kröfur um breytingu á niðurstöðum héraðsdóms,
 3. athugasemdir við málatilbúnað gagnaðila ef þeirra er þörf,
 4. hvort hann hyggist enn leggja ný gögn fram fyrir Hæstarétti á síðari stigum og hver þau séu þá í meginatriðum.
     3. Málsaðilum er heimilt að leggja frekari gögn fyrir Hæstarétt, en þau skulu þá afhent hæstaréttarritara og kynnt gagnaðila ekki síðar en einni viku fyrir flutning máls. Frá þessu getur Hæstiréttur vikið ef sérstaklega stendur á, enda séu aðilar á það sáttir að ný gögn komi fram með skemmri fyrirvara. Ríkissaksóknara er þó jafnan heimilt að leggja fram nýtt sakavottorð ákærða við upphaf málflutnings.

16. gr.

     156. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Hæstiréttur getur kveðið upp dóm um frávísun máls frá Hæstarétti vegna galla á málatilbúnaði þar fyrir dómi án þess að málflutningur fari áður fram. Á sama hátt getur Hæstiréttur ómerkt héraðsdóm ef verulegir gallar hafa verið á meðferð máls í héraði og vísað því frá héraðsdómi ef undirbúningi undir málshöfðun hefur verið áfátt í meginatriðum.
     2. Nú er málatilbúnaði áfátt, án þess að nauðsynlegt þyki þó að vísa máli frá eða ómerkja héraðsdóm, og getur þá Hæstiréttur lagt fyrir aðila að afla gagna um tiltekin atriði eða grípa til annarra aðgerða til að ráða bót þar á.
     3. Áður en málflutningur fer fram getur Hæstiréttur tekið mál fyrir á dómþingi eftir þörfum til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess. Skulu aðilar kvaddir fyrir dóm með hæfilegum fyrirvara í þessu skyni.

17. gr.

     157. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Mál skal að jafnaði flutt munnlega fyrir Hæstarétti. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef sérstakar ástæður mæla með því. Hæstiréttur getur einnig ákveðið að mál verði dómtekið án sérstaks málflutnings ef samhljóða óskir koma fram um það frá aðilum eða dómi er aðeins áfrýjað um ákvörðun viðurlaga.
     2. Nú er ákveðinn munnlegur flutningur í máli og skal þá hvor aðili um sig tilkynna Hæstarétti að fram komnum greinargerðum þeirra beggja hve langan tíma þeir áætli hvor fyrir sitt leyti að þurfi til að flytja málflutningsræður. Hæstiréttur ákveður hvenær munnlegur málflutningur fer fram og tilkynnir það aðilum með hæfilegum fyrirvara. Um leið skal aðilum tilkynnt hve langan tíma þeir fái til að flytja málflutningsræður ef ekki er fallist á óskir þeirra í þeim efnum. Hæstiréttur getur við sama tækifæri beint til aðilanna að þeir afhendi hvor um sig með tilteknum fyrirvara stutt yfirlit um atvik máls í tímaröð, helstu röksemdir sínar og tilvísanir í fræðirit og dóma sem þeir hyggjast styðjast við í málflutningi.
     3. Hæstiréttur getur ákveðið að munnleg sönnunarfærsla fari þar fram í þeim mæli sem hann telur þörf, enda þyki honum í ljósi atvika ástæða til að ætla að sú sönnunarfærsla geti haft áhrif á úrslit máls.

18. gr.

     158. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Áður en munnlegur málflutningur hefst á dómþingi skal gerð grein fyrir dómsorði héraðsdóms og áfrýjunarstefnu að því leyti sem forseti telur þess þörf til skýringar á málflutningi. Verður svo flutt frumræða af hálfu ákæruvalds og síðan af hálfu ákærða nema forseti hafi ákveðið aðra röð og aðilum verið tilkynnt það í boðun til málflutnings. Eftir frumræður eiga aðilar kost á að færa fram stutt andsvör í sömu röð. Flytji verjandi málið af hálfu ákærða getur forseti heimilað ákærða sjálfum að koma að stuttum athugasemdum að loknum andsvörum verjanda.
     2. Í málflutningi skal gera grein fyrir þeim atriðum í niðurstöðum héraðsdóms sem er leitað breytinga á, kröfum í þeim efnum og röksemdum fyrir þeim. Skal forðast málalengingar og málflutningi beint að þessum atriðum einum ásamt nauðsynlegri frásögn af öðru sem þarf samhengis vegna.
     3. Forseti stýrir þinghaldi. Hann getur krafist að málflytjandi haldi sér við efnið og láti vera að fjalla um þá þætti máls sem eru ekki til endurskoðunar eða ástæðulaust er af öðrum sökum að gera frekari grein fyrir. Forseti getur stöðvað málflutning ef ræður verða langar úr hófi fram eða sett honum tímatakmörk og við þau bundið enda á málflutning.
     4. Að loknum málflutningi tekur Hæstiréttur málið til dóms.

19. gr.

     159. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Refsing og önnur viðurlög á hendur ákærða verða ekki þyngd með dómi Hæstaréttar nema dómi hafi verið áfrýjað í því skyni af hálfu ákæruvalds.
     2. Nú hefur dómi verið áfrýjað af hálfu ákæruvalds en ekki af hálfu ákærða og getur þá Hæstiréttur allt að einu breytt dómi ákærða til hagsbóta.
     3. Við áfrýjun til endurskoðunar á dómi að efni til breytir Hæstiréttur ekki viðurlögum samkvæmt honum nema þau séu utan marka viðkomandi refsilagaákvæða eða í verulegu ósamræmi við brot ákærða.
     4. Hæstiréttur getur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi.
     5. Nú telur Hæstiréttur líkur fyrir að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut hafa ekki gefið munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti og getur þá Hæstiréttur fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný.

20. gr.

     163. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Eftir því sem átt getur við fer að öðru leyti um meðferð og úrlausn opinberra mála fyrir Hæstarétti eftir fyrirmælum laga um meðferð einkamála, svo og ákvæðum þessara laga um meðferð máls í héraði.

21. gr.

     Í 2. mgr. 187. gr. laganna breytist tilvísun til 1. mgr. 159. gr. í 2. mgr. 156. gr.

22. gr.

     1. Nú hefur ákærði lýst yfir ákvörðun sinni um áfrýjun dóms áður en þessi lög öðlast gildi og fer þá um heimild hans til áfrýjunar eftir reglum eldri laga. Það sama á við um áfrýjun af hálfu ákæruvaldsins ef ríkissaksóknari hefur gefið út áfrýjunarstefnu í máli fyrir gildistöku þessara laga.
     2. Reglum þessara laga verður beitt eftir því sem getur átt við um meðferð máls fyrir Hæstarétti þótt dómi hafi verið áfrýjað fyrir gildistöku þeirra.

23. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994.

Samþykkt á Alþingi 6. apríl 1994.