Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 411, 118. löggjafarþing 175. mál: framleiðsla og sala á búvörum (skipan Framleiðsluráðs).
Lög nr. 141 29. desember 1994.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.


1. gr.

     5. gr. laganna hljóðar svo:
     Framleiðsluráð landbúnaðarins er samstarfsvettvangur allra búvöruframleiðenda í landinu og samtaka þeirra.
     Framleiðsluráð skal skipað fimmtán mönnum. Skal stjórn heildarsamtaka bænda skipa fjórtán menn í ráðið, þar af fjóra án tilnefningar og tíu sem eftirgreindir aðilar tilnefna: Landssamband kúabænda, sem tilnefnir tvo menn í ráðið, og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Landssamtök sláturleyfishafa, Félag eggjaframleiðenda, Félag hrossabænda, Félag kjúklingabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Samband garðyrkjubænda og Svínaræktarfélag Íslands, sem tilnefna hver um sig einn mann. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn mann í ráðið. Velja skal jafnmarga varamenn í Framleiðsluráð með sama hætti.
     Framleiðsluráð skal skipað árlega við lok hvers reglulegs búnaðarþings. Ráðið kýs sér formann og varaformann til sama tíma. Þegar rætt er um málefni er varða aðrar búgreinar en fulltrúa eiga í Framleiðsluráði ber að gefa fulltrúum félaga þeirra, einum frá hverju, kost á að sitja fund ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Framleiðsluráð kýs úr sínum hópi aðal- og varamenn í framkvæmdanefnd. Verkefni nefndarinnar er að taka ákvörðun um og afgreiða mál sem ekki þykir fært að fresta til fundar Framleiðsluráðs. Jafnframt getur ráðið falið framkvæmdanefnd framkvæmd einstakra mála.
     Framleiðsluráð ræður sér framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir því sem þörf krefur.

2. gr.

     Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:
H.
     Skipa skal í nýtt Framleiðsluráð skv. 5. gr. laganna að afstöðnu fyrsta þingi nýrra heildarsamtaka bænda. Skal nýskipað Framleiðsluráð taka þegar til starfa og fellur þá jafnframt niður umboð þeirra manna sem nú skipa ráðið.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1994.