Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 782, 118. löggjafarþing 257. mál: virðisaukaskattur (skráningarskylda, endurgreiðsla, álag o.fl.).
Lög nr. 40 2. mars 1995.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Eigi skal skrá aðila samkvæmt þessari grein ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Þó á aðili rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standa í beinu sambandi við framleiðslu vöru til sölu í atvinnuskyni á síðari rekstrarárum.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skráningu, þar með talið um afturvirka skráningu til allt að sex ára og um tryggingu vegna skráningar skv. 2. málsl. 5. mgr.

2. gr.

     2. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 17. gr. laga nr. 122/1993, orðast svo:
     Bílaleigum og tryggingafélögum, sem vegna starfsemi sinnar hafa keypt notuð ökutæki, er heimilt að ákvarða skattverð skv. 1. mgr. við endursölu þeirra.

3. gr.

     Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Þeir aðilar, sem um ræðir í 1. mgr. 10. gr., geta við skil á virðisaukaskatti dregið frá reiknuðum útskatti á hverju uppgjörstímabili 19,68% af neikvæðum mismun á söluverði og innkaupsverði seldra ökutækja á viðkomandi uppgjörstímabili, enda eigi formskilyrði 3. mgr. 10. gr. við um söluna að öðru leyti.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Í stað „51/1968“ í 1. mgr. kemur: 145/1994.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Allar bækur, uppgjör og gögn, er varða virðisaukaskattsskil, skal varðveita í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Þeim sem nota sjóðvélar er þó ekki skylt að varðveita innri strimla lengur en þrjú ár frá lokum viðkomandi reikningsárs enda liggi fyrir fullfrágengið bókhald og undirritaður ársreikningur.

5. gr.

     5. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
     Skattskyldir aðilar, sem ekki færa bókhald samkvæmt lögum nr. 145/1994, um bókhald, skulu færa sérstakt bókhald yfir hin skattskyldu viðskipti. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um tilhögun slíks bókhalds.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. Í stað hlutfallstalnanna „2%“ og „20%“ í 2. mgr. kemur: 1% og 10%.
  2. Í stað „51/1968“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: 145/1994.

7. gr.

     Í stað orðanna „flokk 0“ í 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: flokk 1.

8. gr.

     3. mgr. 43. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 106/1990, orðast svo:
     Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis við kaup á vörum eða þjónustu. Endurgreiðsla samkvæmt þessari málsgrein getur eingöngu tekið til virðisaukaskatts af þeim aðföngum sem virðisaukaskattsskyldir aðilar geta talið til innskatts, sbr. 15. og 16. gr.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða III í 33. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum:
  1. Í stað ártalsins „1992“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 1993.
  2. Í stað orðanna „og allt að 14% af fjárfestingu á árinu 1992“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: allt að 14% af fjárfestingu á árinu 1992 og allt að 17% af fjárfestingu á árinu 1993.
  3. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt er heimilt að leiðrétta virðisaukaskattsskil ársins 1993 hjá aðilum sem skráðir voru frjálsri skráningu á grundvelli reglugerðar nr. 487/1992.
  4. Á eftir ártalinu „1996“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: vegna fjárfestingar á árunum 1990–1992.
  5. Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Leiðrétting vegna fjárfestingar á árinu 1993 skal gerð með jöfnum fjárhæðum á árunum 1995 og 1996. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna leiðréttingar á árunum 1994–1996 skal að hámarki nema 75 milljónum króna vegna fjárfestingar á árunum 1990–1992 en að hámarki 10 milljónum króna vegna fjárfestingar á árinu 1993. Leiðrétting hvers árs samkvæmt þessari heimild skal háð því skilyrði að aðili hafi haft með höndum skattskylda útleigu á gistirými fram að þeim tíma er til endurgreiðslu kemur.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1995.