Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 492, 113. löggjafarþing 225. mál: virðisaukaskattur (sjóðvélar o.fl.).
Lög nr. 106 31. desember 1990.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. bætist: Sama gildir um leigu tjaldstæða og bifreiðastæða. Útleiga veitinga- og samkomuhúsnæðis er þó skattskyld.

2. gr.

     Í stað orðanna „fyrir færri en níu menn“ í 1. mgr. 10. gr. komi: fyrir níu menn eða færri.

3. gr.

     6. tölul. 3. mgr. 16. gr. orðist svo: Öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða fyrir níu menn eða færri.

4. gr.

     3. málsl. 7. mgr. 27. gr. orðist svo: Sama gildir ef bókhald og þau gögn, sem liggja fyrir um fjárhæðir á virðisaukaskattsskýrslu, verða ekki talin nægilega örugg eða ef tekjuskráning, þar með talið notkun sjóðvélar eða útbúnaður hennar eða notkun og form reikninga, er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

5. gr.

     Við 28. gr. bætist eftirfarandi málsgrein:
     Vanræki skattskyldur aðili að færa tilskilið bókhald samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga þessara eða nota tilskilið söluskráningarkerfi samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim eða ef söluskráningarkerfi er verulega áfátt skal skattrannsóknarstjóri með ábyrgðarbréfi beina til hans fyrirmælum um úrbætur. Ef fyrirmælum þessum er ekki sinnt innan 45 daga getur skattrannsóknarstjóri látið lögreglu stöðva atvinnurekstur viðkomandi á sama hátt og greinir í 3. mgr. þessarar greinar og þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar.

6. gr.

     2. mgr. 40. gr. orðist svo:
     Ef aðili vanrækir tilkynningarskyldu sína skv. 5. gr., vanrækir skyldu sína til að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þar með talið að hann vanrækir að skrá sölu sína í sjóðvél með fullnægjandi útbúnaði, vanrækir að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn, svo sem ákveðið er í lögum þessum eða ákvæðum reglna sem settar eru samkvæmt þeim, skýrir rangt eða villandi frá einhverju er varðar virðisaukaskattsskýrslur hans þótt upplýsingarnar hafi ekki áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslur eða brýtur á annan hátt gegn lögum þessum eða ákvæðum reglna sem settar eru samkvæmt þeim skal hann sæta sektum enda liggi eigi við brotinu þyngri refsing eftir þessum eða öðrum lögum.

7. gr.

     3. mgr. 43. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 119/1989, orðist svo:
     Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi eða þau hafa selt hingað til lands.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Endurgreiðsla skv. 7. gr. er þó heimil vegna viðskipta frá 1. janúar 1990.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1990.