Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 285, 120. löggjafarþing 96. mál: framleiðsla og sala á búvörum (sauðfjárframleiðsla).
Lög nr. 124 6. desember 1995.

Lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í 1. mgr. 2. gr. laganna breytast eftirfarandi orðskýringar:
      Greiðslumark lögbýlis er tiltekinn fjöldi ærgilda eða magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.
      Heildargreiðslumark er tiltekið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er samkvæmt búvörusamningi með tilliti til heildarneyslu innan lands og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.

2. gr.

     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar:
      Beingreiðslumark er tiltekin fjárhæð sem ákveðin er í 37. gr. og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.
      Vetrarfóðraðar kindur eru ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin eru fram á forðagæsluskýrslu.

3. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Verðlagning sauðfjárafurða samkvæmt þessari grein fellur niður frá og með 1. september 1998. Frá þeim tíma metur verðlagsnefnd framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú.

4. gr.

     Við 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna bætist: nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna.

5. gr.

     1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
     Innheimta skal verðmiðlunargjald á heildsölustigi af afurðum nautgripa og sauðfjár og telst gjaldið til heildsölu- og dreifingarkostnaðar sé hann ákveðinn af fimmmannanefnd. Verðmiðlunargjaldið skal vera af mjólk sem lögð er inn í afurðastöð innan greiðslumarks, 0,65 kr. á lítra, og af kindakjöti sem ætlað er til sölu á innlendum markaði, 7,00 kr. á kg.

6. gr.

     20. gr. laganna orðast svo:
     Innheimta skal verðskerðingargjald af verði kindakjöts og hrossakjöts til framleiðenda. Verðskerðingargjaldið skal vera af kindakjöti sem ætlað er til sölu á innlendum markaði, 5% af framleiðendaverði, og af hrossakjöti 2% af framleiðendaverði.
     Verðskerðingargjaldi skal varið til markaðsaðgerða innan lands eða utan og til að leiðrétta birgðastöðu kjöts.

7. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Innheimta skal hjá afurðastöð 3% verðskerðingargjald af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts, sem ætlað er til sölu á innlendum markaði, í sama skyni og 20. gr. kveður á um. Sé úrvinnslu- og heildsölukostnaður ekki ákveðinn af fimmmannanefnd skal ráðherra ákveða viðmiðunarkostnað að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
     Af öllu kindakjöti, sem fer til útflutnings, skal innheimta af verði til framleiðenda sérstakt gjald, 30 kr. á kg, vegna útflutningsuppgjörs. Gjaldið endurgreiðist fyrir unnið kjöt og hráefni til þeirrar framleiðslu, en fyrir kindakjöt, sem flutt er úr landi óunnið, í heilum skrokkum eða niðurhlutuðum, skal því varið til að jafna eftir föngum skilaverð, þó þannig að tekið sé mið af gæða- og vöruflokkum, svo og árstíma.

8. gr.

     Í stað 1. og 2. mgr. 25. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
     Til að standa straum af kostnaði Framleiðsluráðs landbúnaðarins við framkvæmd laga þessara, umfram þann kostnað sem það fær greiddan samkvæmt öðrum ákvæðum laganna, skal innheimta 0,25% gjald af heildsöluverði þeirra búvara sem lög þessi taka til.

9. gr.

     Við 27. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um innheimtu, gjalddaga, álagningu gjaldanna samkvæmt áætlun og annað sem lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna.
     Þá setur ráðherra í reglugerð ákvæði um framkvæmd uppgjörs og greiðslu tekna af verðmiðlunargjöldum, verðskerðingargjöldum og verðjöfnunargjaldi samkvæmt kafla þessum til afurðastöðva og framleiðenda og um uppgjörstímabil.

10. gr.

     29. gr. laganna orðast svo:
     Nú er ákveðið það magn mjólkur sem framleiðendum eru tryggðar beingreiðslur fyrir samkvæmt heimild í 30. gr. og verð hennar til framleiðanda er ákveðið skv. 8. gr. og er þá afurðastöð skylt að greiða framleiðanda fullt verð innan greiðslumarks samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli á innleggsdegi, sbr. þó 22. gr. Ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar eftir innleggsmánuð. Heimilt er að semja um annan hátt á greiðslum en að framan greinir.
     Taki mjólkursamlag við mjólk umfram greiðslumark framleiðanda sem verður utan heildargreiðslumarks við lokauppgjör skal samsvarandi magn mjólkurafurða markaðsfært erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Framleiðsluráð landbúnaðarins getur þó heimilað sölu þeirra innan lands ef gengið hefur á birgðir og skortur á mjólkurvörum er því fyrirsjáanlegur. Um greiðsluskyldu afurðastöðva fyrir innlegg umfram greiðslumark mjólkur, en innan efri marka þess, fer eftir gildandi samningum landbúnaðarráðherra og Bændasamtaka Íslands skv. a-lið 1. mgr. 30. gr. laganna.
     Við kaup á kindakjöti frá framleiðendum eða samkomulag um að annast sölu þess skal tilgreina hvort kjötið er til sölu innan lands eða til útflutnings, en greiðslur fyrir kindakjöt skulu vera óháðar greiðslumarki lögbýlis. Skilaverð til framleiðenda fyrir það kjöt sem þeir selja til útflutnings er umsamið söluverð kjötsins milli framleiðanda og afurðastöðvar (kaupanda) að frádregnu sérstöku gjaldi að teknu tilliti til verðjöfnunar skv. 2. mgr. 21. gr. laganna.
     Landbúnaðarráðherra skal fyrir 1. september ár hvert, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands, ákveða hlutfall kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað. Ákvörðun þessi getur gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal kynna sláturleyfishöfum og sauðfjárframleiðendum ákvörðun um útflutningsþörf kindakjöts.
     Sláturleyfishafa og öðrum sem annast sölu eða dreifingu á kindakjöti frá sláturhúsi er skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra eða semja við annan sláturleyfishafa um verkun og útflutning á sama magni. Sé þess ekki kostur er viðkomandi aðila skylt að greiða vegna útflutningskvaðar gjald sem landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september ár hvert og skal svara til mismunar á heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð við útflutning á undangengnum tólf mánuðum. Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa, setja nánari reglur um skipulag útflutnings svo að erlendir markaðir nýtist sem best.
     Allir sauðfjárframleiðendur skulu taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru þó þeir framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks, enda liggi fyrir fullnægjandi vottorð um ásetning þeirra. Þá getur ráðherra ákveðið, að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands, að kjöt af dilkum sem slátrað er á ákveðnum tímabilum utan haustsláturtíðar verði undanþegið útflutningsuppgjöri. Hafi framleiðandi fjölgað vetrarfóðruðu fé frá því sem hann hafði veturinn 1994/1995 getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að sú framleiðsla, sem svarar til fjölgunarinnar, fari öll á erlendan markað. Skal þá miðað við sama hlutfall af framleiðslu og fjölgun nemur. Því til viðbótar skal framleiðandi taka þátt í útflutningi eins og um óbreytta bústærð væri að ræða. Heimild þessari skal aðeins beita haustin 1996 og 1997.
     Hafi verið tekin ákvörðun um verðskerðingu skv. 20. gr. og/eða 1. mgr. 21. gr. er afurðastöð skylt að halda henni eftir við uppgjör og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á hinu innheimta verðskerðingarfé.

11. gr.

     Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða 1995–2000.

12. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu sauðfjárafurða eru:
  1. að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur,
  2. að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda,
  3. að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
  4. að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd.

13. gr.

     37. gr. laganna orðast svo:
     Frá og með 1. janúar 1996 verður beingreiðslumark sauðfjárafurða 1.480 millj. kr. á almanaksári og skiptist hlutfallslega eins milli lögbýla og heildargreiðslumark sauðfjár verðlagsárið 1995/1996 gerði.

14. gr.

     38. gr. laganna orðast svo:
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslu. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búrekstri getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslu.
     Tilkynna skal fyrir 15. september ár hvert um greiðslumark lögbýlisins á næsta almanaksári. Greiðslumark lögbýla fyrir almanaksárið 1996 skal þó tilkynnt 1. febrúar 1996.
     Fram til 1. júlí 1996 eru heimil aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð.
     Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli.

15. gr.

     39. gr. laganna orðast svo:
     Beingreiðsla greiðist úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlisins eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðsla skal vera 3.734 kr. á hvert ærgildi á ári.
     Réttur til beingreiðslu flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða.
     Til að fá fulla beingreiðslu þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 1996. Síðan skal landbúnaðarráðherra ákveða árlega ásetningshlutfall að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðist beingreiðsla hlutfallslega. Á lögbýlum, þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland, er landbúnaðarráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins. Þá getur ráðherra ákveðið að víkja frá framangreindu ásetningshlutfalli hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar sjúkdómum.
     Ráðherra er heimilt að semja við bændur um lækkun ásetningshlutfalls án lækkunar beingreiðslu ef þeir taka þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins, stunda nám eða starfsþjálfun eða taka þátt í atvinnuþróunarverkefnum.
     Þá er heimilt að skerða eða fella niður beingreiðslu ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundin ákvæði um afsetningu afurða.
     Lögbýli heldur greiðslumarki sínu óskertu þótt réttur til beingreiðslu falli niður vegna búskaparhlés án þess að samið sé um búskaparlok og greiddar bætur fyrir.

16. gr.

     40. gr. laganna orðast svo:
     Á árunum 1995 og 1996 er ríkissjóði heimilt að kaupa greiðslumark til framleiðslu sauðfjárafurða, allt að 30.000 ærgildi, og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.

17. gr.

     41. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra úthlutar greiðslumarki sem losnar með samningum um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og um búskaparlok. Við þá úthlutun skal taka mið af greiðslumarki lögbýlis þannig að aukning verði hjá bændum sem hafa 180 ærgilda greiðslumark í sauðfé eða meira, þó þannig að samanlagt greiðslumark í sauðfé og mjólk fari ekki yfir 450 ærgildi á fjölskyldu. Þeir sem hafa innan við 180 ærgilda greiðslumark í sauðfé geta sótt um aukningu, enda sé sauðfjárframleiðsla aðalatvinna viðkomandi bænda samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð sem ráðherra skal setja. Við útreikning vegna úthlutunar skal miða við greiðslumarksskrár mjólkur og sauðfjárafurða eins og þær voru 1. maí 1995. Tekjuviðmiðun skal vera árið 1994.
     Beingreiðslur, sem lausar eru án samninga um búskaparlok, skulu renna til sameiginlegra markaðsaðgerða.

18. gr.

     43. gr. laganna orðast svo:
     Allir þeir sem hafa greiðslumark til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu sauðfjárafurða eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslumark lögbýla, beingreiðslur, framkvæmd og tilhögun þeirra, frávik frá ásetningshlutfalli, kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og úthlutun þess.

19. gr.

     Í stað orðanna „Stéttarsamband bænda“ í 1. mgr. 2. gr., 1.–5. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. og 2. mgr. 8. gr., a-lið 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 34. gr., 42. gr., 2. mgr. 47. gr. og 2. mgr. 48. gr. laganna koma í viðeigandi falli orðin: Bændasamtök Íslands.

20. gr.

     67. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra skal setja reglugerð um gæðastjórn í landbúnaðarframleiðslu. Í reglugerðinni skal lýst kröfum um gæðastjórn, vinnslu, geymslu og dreifingu íslenskra landbúnaðarafurða.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna vegna haustsláturtíðar 1995 halda gildi sínu til 16. desember 1995. Við gildistöku laga þessara falla brott 22. og 23. gr. laganna, svo og ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 99 28. júní 1995, um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Heimilt er á árunum 1996 og 1997 að veita þeim framleiðendum, sem aukið hafa sauðfjárgreiðslumark lögbýlisins frá greiðslumarksskrá eins og hún var 1. maí 1995, undanþágu frá skerðingu beingreiðslu sem ella yrði vegna ásetningskröfu 3. mgr. 39. gr. laganna.

II.
     Til að jafna skilaverð til framleiðenda fyrir afurðir frá sláturtíð 1995, sem seldar eru á erlendum mörkuðum, skal innheimta 10% verðjöfnunargjald af því verði sem kemur til skila við útflutning (fob) hjá hverri afurðastöð. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um innheimtu og ráðstöfun verðjöfnunargjaldsins.

III.
     Til viðbótar verðskerðingargjöldum skv. 20. og 21. gr. laganna skal innheimta 3% verðskerðingargjald árin 1996 og 1997 af framleiðendaverði og 2% gjald af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts sem ætlað er til sölu á innlendum markaði. Gjaldi þessu skal verja til markaðsaðgerða til að tryggja jafnvægi í birgðum kindakjöts áður en verðlagning sauðfjárafurða skv. 8. gr. laganna er aflögð. Í sama tilgangi skal verja fé sem veitt er til uppkaupa greiðslumarks skv. 5. gr. samnings um framleiðslu sauðfjárafurða frá 1. október 1995 milli landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtaka Íslands, ef það nýtist ekki í þeim tilgangi.

Samþykkt á Alþingi 5. desember 1995.