Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 476, 120. löggjafarþing 215. mál: húsnæðisstofnun ríkisins (lánstími húsbréfa o.fl.).
Lög nr. 150 28. desember 1995.

Lög um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994 og nr. 58/1995.


1. gr.

     1. málsl. 26. gr. laganna hljóðar svo: Hámarkslánstími á fasteignaveðbréfum er húsbréfadeild kaupir skal vera 40 ár.

2. gr.

     Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, sem hljóðar svo:
     Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til allt að 15 ára í því skyni að leysa úr tímabundnum greiðsluerfiðleikum hjá lánþegum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar og lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins. Skilyrði er að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum.
     Húsnæðismálastjórn er heimilt, með sömu skilyrðum og um getur í 1. mgr., að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar og lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins í allt að þrjú ár og leggjast þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, enda þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda.
     Lán skv. 1. mgr. og frestun á greiðslu skv. 2. mgr. geta farið saman.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar.

3. gr.

     32. gr. laganna hljóðar svo:
     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með því að starfsemi húsbréfadeildar sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer eftir ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands. Haft skal eftirlit með útgáfu húsbréfa og fjárhag húsbréfadeildar. Skal Húsnæðisstofnun ríkisins veita bankaeftirlitinu allar þær upplýsingar sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegar. Í þeim mæli sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegt til að meta fjárhagsstöðu húsbréfadeildar hefur það rétt til að afla upplýsinga og láta fara fram vettvangsrannsóknir hjá öðrum deildum Húsnæðisstofnunar ríkisins.
     Auk eftirlits með húsbréfadeild skv. 1. mgr. skal bankaeftirlitið hafa eftirlit með viðskiptum með húsbréf á eftirmarkaði á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti, nr. 9/1993, og laga um verðbréfasjóði, nr. 10/1993. Seðlabanki Íslands skal stuðla að því að jafnvægi ríki á húsbréfamarkaði. Seðlabankinn skal í þeim mæli sem hann telur nauðsynlegt hindra að verulegt misvægi myndist á markaðnum fyrir húsbréf.

4. gr.

     3. mgr. 58. gr. a laganna (lögbýli), sbr. 4. gr. laga nr. 12/1994, verður svohljóðandi:
     Vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélaga skulu, að liðnum sex árum frá undirritun kaupsamnings, breytast til samræmis við vexti af lánum til kaupa á almennum kaupleiguíbúðum, nema sveitarfélag sýni fram á að kaupandi uppfylli enn þá skilyrði b-liðar 1. mgr. 64. gr. laganna um tekjumörk og njóti þar af leiðandi óbreyttra vaxtakjara á láni sínu frá sveitarfélagi. Slík endurskoðun skal síðan fara fram á þriggja ára fresti.

5. gr.

     2. mgr. 100. gr. laganna, sbr. 26. gr. laga nr. 58/1995, fellur brott.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1995.