Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1038, 120. löggjafarþing 441. mál: tollalög (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl).
Lög nr. 69 5. júní 1996.

Lög um breyting á tollalögum, nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
 1. Skilgreining á hugtakinu „Tollyfirvald“ verður svohljóðandi: Ríkistollstjóri og tollstjórar.
 2. Eftirfarandi orðaskilgreiningar bætast við málsgreinina:
 3.       Skjalasending milli tölva (SMT): Sendingar á gögnum milli gagnavinnslukerfa sem fylgja ákveðnum stöðlum.
        Rammaskeyti: Safn samstæðra gagna sem raðað er saman samkvæmt ákveðnum stöðlum fyrir skeyti til flutnings með rafeindaboðum milli tölva og forsniðið er þannig að unnt sé í tölvu að lesa það og vinna sjálfvirkt á vélrænan og ótvíræðan hátt. Rammaskeytin skulu gerð samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum staðli sem samþykktur hefur verið til nota við tollafgreiðslu af ríkistollstjóra, sbr. staðal Sameinuðu þjóðanna (UN/EDIFACT) fyrir SÞ-rammaskeyti vegna tollafgreiðslu, og í þeim eiga að koma fram sömu upplýsingar og í þeim tollskjölum sem þau eiga að koma í staðinn fyrir og send eru á milli innflytjenda, útflytjenda, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra, auk annarra upplýsinga sem um ræðir í lögum þessum.
        Gagnaflutningur: Sending rammaskeyta milli innflytjenda, útflytjenda, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra vegna tollafgreiðslu.
        Gagnaflutningsnet: Almennt gagnaflutningsnet Póst- og símamálastofnunarinnar eða annað sambærilegt gagnaflutningsnet sem notar viðurkenndan alþjóðlegan staðal, t.d. X. 400, og fullnægir skilyrðum ríkistollstjóra að öðru leyti.
        Gagnahólf: Gagnahólf í gagnaflutningsneti, skráð á nafn SMT-notanda, þar sem unnt er að geyma rammaskeyti frá SMT-notanda og tollyfirvöldum.
        Lykilorð að gagnahólfi: Sérstakt stafrænt auðkenni sem gerir SMT-notanda mögulegt að fá aðgang að gagnahólfi sínu í gagnaflutningsneti til að senda rammaskeyti eða veita þeim viðtöku.
        Tölvukerfi ríkistollstjóra: Tölvukerfi og hugbúnaður sem notaður er af tollyfirvöldum við tollafgreiðslu, m.a. álagningu aðflutningsgjalda og innheimtu þeirra.
        Umflutningur: Flutningur vöru innan lands undir tolleftirliti frá aðkomufari um borð í útflutningsfar, enda sé upphaflegur ákvörðunarstaður vörunnar annar en Ísland.
        Leyndarkóðun og stafræn undirskrift: Leyndarkóðun á rammaskeyti kemur í veg fyrir að annar en viðtakandi, sem hefur til þess réttan lykil, geti lesið innihald skeytisins. Með stafrænni undirskrift er tryggt að rammaskeyti hafi borist frá tilgreindum sendanda og innihaldi þess hafi ekki verið breytt.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „eða ákveða fast gjald fyrir smásendingar, sem sendar eru í pósti, í stað reiknaðra aðflutningsgjalda“ í 2. málsl. 2. tölul. kemur: ákveðið fyrir smásendingar fast gjald eða hundraðshlutagjald (%-gjald) sem ekki sé hærra en meðaltal þeirra gjalda sem hvíla á slíkum vörum, auk virðisaukaskatts, sbr. lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
 2. Við 7. tölul. bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
 3.      Ákvæði töluliðar þessa skulu gilda eftir því sem við getur átt um bifreiðar sem erlendir ferðamannahópar, ferðaskrifstofur eða aðrir, sem atvinnu hafa af slíkum fólksflutningum, flytja til landsins vegna hópferðalaga um landið, enda verði þær fluttar úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð í upphafi.
 4. Við 13. tölul. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hafi tollur verið endurgreiddur eða felldur niður samkvæmt heimild þessari getur fullbúna varan ekki notið fríðindameðferðar samkvæmt EES-samningnum og öðrum fríverslunar- eða milliríkjasamningum, nema annað leiði af efni þeirra.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
 3.      Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um tollmeðferð samkvæmt þessari grein og bundið hana þeim skilyrðum sem tryggi framkvæmd hennar.


4. gr.

     Á eftir orðunum „greitt er eða greiða ber fyrir vörurnar“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: við sölu þeirra til útflutnings til landsins.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „sölugengi myntar sem skráð er af Seðlabanka Íslands“ í 1. mgr. kemur: opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Seðlabanki Íslands skal tilkynna ríkistollstjóra daglega um opinbert viðmiðunargengi erlendrar myntar.


6. gr.

     14. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
SMT-tollafgreiðsla o.fl.
     Þeir sem stunda innflutning á vörum í atvinnuskyni skulu áður en vara eða sending er tekin úr vörslu farmflytjanda eða annars vörsluaðila senda viðkomandi tollstjóra með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem láta ber honum í té við tollafgreiðslu vara, hér eftir nefnt SMT-tollafgreiðsla. Þegar um er að ræða SMT-tollafgreiðslu skal viðkomandi veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, sbr. 109. gr., og hann skuldfærður fyrir lánuðum aðflutningsgjöldum, nema greiðsla í ríkissjóð fari þegar fram með SMT-millifærslu af bankareikningi innflytjanda. Sama gildir um þá sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur og umboðsaðila er koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda eða viðtakenda vara, enda ábyrgjast þessir aðilar og innflytjendur eða viðtakendur vara in solidum greiðslu aðflutningsgjalda. Rekstraraðilar frísvæðis og almennra tollvörugeymslna, sem og umboðsaðilar, bera þó eigi ábyrgð ef þeir hafa sent rammaskeyti eða aðflutningsskýrslu sem byggist á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum frá innflytjanda eða viðtakanda vörunnar, nema hlutaðeigandi rekstrar- eða umboðsaðilar hafi vitað eða mátt vita að upplýsingarnar væru rangar eða ófullnægjandi.
     Aðflutningsskýrsla, sem send er með rammaskeyti, telst vera móttekin hjá tollstjóra við skráningu í tölvukerfi ríkistollstjóra. Vara eða sending telst þá vera tekin til tollmeðferðar, enda fullnægi upplýsingarnar, sem veittar eru með þessum hætti, að öllu leyti þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að heimila afhendingu vöru eða sendingar þegar í stað. Um ábyrgð leyfishafa á réttmæti þeirra upplýsinga sem koma fram í rammaskeyti fer eftir ákvæðum 17. gr.
     Þegar SMT-tollafgreiðsla fer fram skal innflytjandi senda aðflutningsskýrslu um viðkomandi vöru eða sendingu með rammaskeyti um gagnaflutningsnet til tollstjóra þar sem tollmeðferð á að fara fram. Innflytjandi skal nota gagnahólf sem skráð er á nafn hans. Sama gildir um þá sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur og koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda eða viðtakenda vara, enda ábyrgist umboðsaðilar og innflytjendur eða viðtakendur vara in solidum greiðslu aðflutningsgjalda.
     Rammaskeyti samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við fyrirmynd að rammaskeyti fyrir aðflutningsskýrslu eins og ákveðið er af ríkistollstjóra.
     Ríkistollstjóri getur ákveðið að stöðva móttöku skeyta sem send eru í tölvukerfi ríkistollstjóra vegna breytinga á aðflutningsgjöldum, tollskrá, tollgengi eða af öðrum ástæðum sem gera það nauðsynlegt að hans mati.
     Þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum vegna SMT-tollafgreiðslu skulu varðveita í bókhaldi sínu á aðgengilegan og tryggilegan hátt öll gögn sem snerta tollmeðferð vara og sendinga, hvort sem þau eru skrifleg eða ekki. Þeir skulu halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda tollstjórum eða móttaka frá þeim. Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi skal á auðveldan hátt vera unnt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan hátt og prenta þau, ef þess er óskað. Ákveða má í reglugerð að nefndir aðilar skuli prenta á pappír og varðveita tilkynningu tollstjóra um skuldfærslu aðflutningsgjalda og að hún skuli varðveitast með tilheyrandi tollskjölum, sbr. og m.a. VIII. kafla laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum. Að öðru leyti ber að varðveita bókhaldsgögn í samræmi við lög nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum, og fyrirmæli sett samkvæmt þeim.
     Reglur 6. mgr. þessarar greinar um varðveislu gagna skulu enn fremur eiga við, eftir því sem við getur átt, um varðveislu gagna af hálfu annarra aðila en þeirra sem ráðstafa vöru eða sendingu til tollmeðferðar samkvæmt lögum þessum, t.d. flutningsmiðlara, farmflytjenda, tollvörugeymslna og rekstraraðila frísvæða, varðandi gögn og upplýsingar sem þessir aðilar hafa sent tollyfirvöldum eða móttekið frá þeim vegna tollmeðferðar vara samkvæmt lögum þessum.
     Ráðherra getur með reglugerð sett almenn skilyrði sem innflytjendur og aðrir þurfa að uppfylla vegna SMT-tollafgreiðslu. Þar skal enn fremur kveðið á um tryggingar fyrir lánuðum aðflutningsgjöldum, frest til skila á upplýsingum um innflutta vöru, uppgjörstímabil, gjalddaga og skil aðflutningsgjalda, greiðslu kostnaðar vegna gagnaflutnings og gjaldtöku vegna þessarar tollmeðferðar, varðveislu gagna sem snerta tollmeðferð og innflutning vara, endurskoðun aðflutningsgjalda, tolleftirlit og önnur atriði eftir því sem nauðsyn ber til.
     Sé vara ekki flutt inn í atvinnuskyni og innflytjandi, viðtakandi eða aðilar, sem fá heimild til að koma fram fyrir þeirra hönd, nýta ekki þjónustu þeirra sem um ræðir í 1. mgr. skulu þeir láta tollstjóra í té skriflega aðflutningsskýrslu um vöru áður en hún er tekin úr vörslu farmflytjanda, póststofnunar eða annars aðila sem hefur slíkar vörur í sinni vörslu.
     Ráðherra getur í reglugerð eða með öðrum fyrirmælum heimilað afhendingu og viðtöku póstsendinga og vara sem ekki eru á farmskrá, án þess að aðflutningsskýrsla samkvæmt þessari grein sé send eða afhent tollstjóra.
     Ríkistollstjóri getur ákveðið að taka upp leyndarkóðun og stafræna undirskrift í því skyni að vernda upplýsingar í rammaskeyti og staðfesta uppruna þeirra.

7. gr.

     15. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Form aðflutningsskýrslu.
     Ríkistollstjóri ákveður form aðflutningsskýrslu og hvaða upplýsingar skuli þar koma fram, svo sem um innflytjanda, vöru, flutningsfar og annað sem nauðsynlegt getur talist og varðar innflutning. Ákvæði þetta gildir bæði um aðflutningsskýrslu sem send er tollstjóra með tollskjalasendingum milli tölva vegna SMT-tollafgreiðslu og skriflega aðflutningsskýrslu sem annars ber að afhenda tollstjóra.
     Ríkistollstjóri skal hafa til sölu eyðublöð fyrir skriflegar aðflutningsskýrslur. Er honum heimilt að ákveða verð eyðublaðanna með hliðsjón af kostnaði við prentun, dreifingu og aðra umsýslu tollyfirvalda.
     Innflytjendur geta sjálfir lagt til eyðublöð fyrir aðflutningsskýrslur, enda uppfylli þau skilyrði sem ríkistollstjóri setur um form þeirra.

8. gr.

     16. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Ábyrgð á upplýsingum sem gefnar eru með aðflutningsskýrslu.
     Sá sem sendir tollstjóra aðflutningsskýrslu um vöru með rammaskeyti um gagnaflutningsnet vegna SMT-tollafgreiðslu ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem þar eru veittar, séu réttar. Enn fremur ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem hefði átt að leggja fram með aðflutningsskýrslu ef vöru hefði ekki verið ráðstafað til SMT-tollafgreiðslu. Þessi málsgrein tekur til innflytjanda og annarra sem ráðstafa vöru til SMT-tollafgreiðslu, auk aðila sem heimild hafa til að skuldbinda þá.
     Innflytjandi, eigandi eða annar aðili, sem afhendir tollstjóra skriflega aðflutningsskýrslu eða veitir upplýsingar með öðrum hætti vegna tollafgreiðslu vöru, ber ábyrgð á því að þær upplýsingar séu réttar. Sama gildir um hvern þann sem kemur fram gagnvart tollstjóra fyrir hönd aðila sem um ræðir í þessari grein.
     Sá aðili, sem sent hefur rammaskeyti eða aðflutningsskýrslu fyrir hönd innflytjanda, ber ekki ábyrgð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum, nema hann hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar innflytjanda væru rangar eða ófullnægjandi.

9. gr.

     20. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tollafgreiðsla farangurs ferðamanna og farmanna.
     Ferðamenn og farmenn, sem koma til landsins frá útlöndum, skulu gera tollgæslunni grein fyrir tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis. Sama gildir um varning sem er háður sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt er að flytja til landsins. Þeim er skylt að opna töskur og aðrar umbúðir um farangur þegar tollvörður óskar þess, taka upp úr þeim og veita þá aðstoð og gefa þær upplýsingar um farangurinn sem óskað er eftir.
     Þar sem tollafgreiðsla ferðamanna fer fram er tollstjóra heimilt að hafa aðskilda tollafgreiðslu, annars vegar fyrir þá sem hafa meðferðis tollskyldan varning eða varning sem háður er sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt er að flytja til landsins og hins vegar fyrir þá sem hafa engan slíkan varning meðferðis. Farþegar skulu þá sjálfir velja sér tollafgreiðslu og teljast þeir með vali sínu gefa til kynna hvort þeir hafi meðferðis varning sem þeim ber að gera tollgæslunni grein fyrir.
     Taki tollgæslan farangur í sína vörslu til skoðunar síðar getur viðkomandi krafist þess að hann sé innsiglaður þar til skoðun fer fram og að honum verði gefinn kostur á að vera viðstaddur skoðunina. Enn fremur skal honum látin í té fullnægjandi kvittun ef hann óskar þess.
     Með ferðamönnum er í grein þessari átt við farþega sem koma til landsins frá útlöndum með skipum eða flugvélum, en farmenn eru skipverjar og flugliðar sem eru í áhöfn slíkra fara.
     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um tollafgreiðslu samkvæmt þessari grein.

10. gr.

     Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
     Reynist við tollafgreiðslu nauðsynlegt að fresta lokaákvörðun um tollverð vöru samkvæmt ákvæðum 8.–11. gr. eða önnur atriði sem lög þessi taka til skal innflytjanda engu að síður heimilt að leysa til sín vöruna, að því tilskildu að hann setji fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda sem kunna að verða lögð á vöruna, tollstjóri telji ekki ástæðu til að halda vörunni vegna endanlegrar ákvörðunar um þau atriði sem upplýsingar skortir um eða ágreiningur er um og ákvæði annarra laga séu því ekki til fyrirstöðu.

11. gr.

     22. gr. laganna orðast svo:
     Tollyfirvald getur neitað um SMT-tollafgreiðslu ef upplýsingar, sem láta ber viðkomandi tollstjóra í té í rammaskeyti sem sent er með skjalasendingum milli tölva, eru ekki réttar, þeim er áfátt eða öðrum skilyrðum um tollafgreiðslu ekki fullnægt.
     Sama gildir ef aðflutningsskýrslueyðublað er ekki rétt og nákvæmlega útfyllt, tilskilin gögn ekki afhent eða öðrum settum skilyrðum um tollmeðferð vöru eða sendingar ekki fullnægt.

12. gr.

     Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
     Tollyfirvöldum er skylt að veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um tollflokkun vöru, ákvörðun tollverðs, gjaldtöku, útfyllingu á aðflutningsskýrslum, kæruleiðir og hvaðeina sem lýtur að tollafgreiðslu, sbr. þó 141. gr.

13. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur þó með reglugerð breytt mörkum tollumdæma ef sérstaklega stendur á.

14. gr.

     Orðið „tollgæslustjóri“ í fyrirsögn VI. kafla laganna og orðin „og tollgæslustjóra“ í 2.–4. mgr. 28. gr. þeirra falla brott.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 29. gr. laganna:
 1. Orðin „í samráði við tollgæslustjóra“ í 1. málsl. falla brott.
 2. Í stað orðsins „Tollgæslustjóri“ í 3. málsl. kemur: Tollstjóri.
 3. Við bætist nýr málsliður er orðast svo: Tilkynna skal ríkistollstjóra þegar um slík leyfi.


16. gr.

     1. málsl. 30. gr. laganna orðast svo: Fjármálaráðherra er æðsti yfirmaður tollamála samkvæmt lögum þessum og hefur eftirlit með því að ríkistollstjóri, ríkistollanefnd og tollstjórar ræki skyldur sínar.

17. gr.

     Í stað 31.–40. gr. laganna koma tíu nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, er orðast svo:
     
     a. (31. gr.)
Ríkistollstjóri.
     Fjármálaráðherra skipar ríkistollstjóra.
     Ríkistollstjóri ræður aðra starfsmenn embættisins og skiptir með þeim verkum. Að tillögu ríkistollstjóra getur ráðherra ákveðið að einn þeirra skuli vera staðgengill ríkistollstjóra.
     
     b. (32. gr.)
     Ríkistollstjóri fer í umboði ráðherra með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits hvarvetna á tollsvæði ríkisins.
     Ríkistollstjóri skal auk annarra starfa sem honum eru falin lögum samkvæmt hafa eftirlit með störfum tollstjóra og umboðsmanna þeirra og gæta þess að tollframkvæmdin sé í samræmi við lög og reglur og önnur fyrirmæli varðandi tollamálefni og alþjóðasamninga um þau efni sem Ísland er aðili að. Ríkistollstjóri getur kannað tollskjöl aðila og hvert það atriði er varðar framkvæmd laga þessara og annarra laga um tolla og aðra skatta eða gjöld sem lögð eru á af tollstjórum eða umboðsmönnum þeirra. Getur hann í því skyni krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá tollstjórum, umboðsmönnum þeirra og öðrum þeim sem fram koma gagnvart tollstjórum vegna tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum, svo og þeim sem um ræðir í 24. og 122. gr.
     Ríkistollstjóri getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt kæru hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar innflutning, umflutning og útflutning á vörum til og frá landinu og ferðir og flutning fara og fólks til og frá landinu, svo og flutning á ótollafgreiddum varningi innan lands samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagafyrirmælum.
     Ríkistollstjóri getur falið tollvörðum við embætti sitt að annast eftirlits- og rannsóknarstörf hvar sem er á landinu og er tollstjórum skylt að veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd starfanna. Hann getur á sama hátt falið öðrum starfsmönnum störf á sínu starfssviði hvar sem er á landinu.
     Ríkistollstjóri skal annast framkvæmd og samskipti við erlend tollyfirvöld samkvæmt þeim milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og lúta að framkvæmd tollamála, nema annað sé þar ákveðið.
     
     c. (33. gr.)
     Ríkistollstjóri setur tollstjórum og umboðsmönnum þeirra starfsreglur og fyrirmæli varðandi tollframkvæmd. Hann skal veita þeim leiðbeiningar um tollframkvæmdina og kynna þeim dóma, úrskurði og aðrar ákvarðanir sem þýðingu kunna að hafa fyrir störf þeirra. Ríkistollstjóri skal gefa út leiðbeiningar, úrskurði og önnur gögn sem hann metur að rétt sé að kynnt verði fyrirtækjum og almenningi.
     Við embætti ríkistollstjóra skal vera tollskóli er veiti tollstarfsmönnum fræðslu í tollamálum. Gera má það að skilyrði fyrir ráðningu í fasta stöðu að viðkomandi hafi lokið prófi frá skólanum. Ráðherra setur nánari reglur um nám við skólann.
     Ráðherra er heimilt að ákveða að innheimt skuli gjald vegna kostnaðar sem hlýst af námskeiðshaldi við skólann fyrir aðra en tollstarfsmenn.
     
     d. (34. gr.)
     Ríkistollstjóri skal sjá um þróun og rekstur þess tölvu- og upplýsingakerfis sem notað er af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Hann getur sett innflytjendum, útflytjendum, farmflytjendum og öðrum, sem senda tollyfirvöldum upplýsingar vegna tollafgreiðslu um gagnaflutningsnet, samskiptareglur.
     Ríkistollstjóri ákveður form tollskjala og eyðublaða sem notuð eru við tollframkvæmdina og hvaða atriði skuli þar tilgreina.
     
     e. (35. gr.)
     Telji ríkistollstjóri ástæðu að lögum til að breyta ákvörðun tollstjóra um eitthvað sem lýtur að framkvæmd laga þessara eða annarra laga um tollamál, m.a. gjöld og skatta sem tollstjórar leggja á og innheimta, getur hann skriflega og með rökstuddum hætti breytt ákvörðun tollstjóra eða falið honum að taka málið upp að nýju, enda séu skilyrði 98. og 99. gr. uppfyllt ef um hækkun gjalda er að ræða.
     Áður en ríkistollstjóri tekur ákvörðun skv. 1. mgr. um breytingu á gjaldtöku skal málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig. Endurákvörðun ríkistollstjóra um breytingu á gjöldum skal rökstudd þannig að ljóst megi vera á hvaða forsendum hún er byggð. Gjaldanda skal send tilkynning um endurákvörðun með ábyrgðarbréfi og honum jafnframt bent á heimild til að kæra endurákvörðunina til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. Hafi tollstjóra verið falin endurákvörðun gjalda samkvæmt þessari grein gilda sömu málsmeðferðarreglur.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. taka ekki til úrskurðar og ákvörðunar tollstjóra skv. 100. og 142. gr.
     
     f. (36. gr.)
Tollstjórar.
     Tollstjórar eru tollstjórinn í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur og sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
     Ráðherra skipar tollstjórann í Reykjavík og skal hann fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti, sbr. lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
     Tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, annast álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Þeir annast jafnframt hver í sínu tollumdæmi eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu, svo og flutningi á ótollafgreiddum varningi innan lands, auk annars eftirlits lögum samkvæmt.
     Tollstjórar ráða tollverði og aðra tollstarfsmenn og skipta með þeim störfum og starfa þeir í umboði og á ábyrgð viðkomandi tollyfirvalds.
     
     g. (37. gr.)
     Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra geta ákveðið að þar sem henta þykir skuli lögreglumenn annast tolleftirlit jafnframt öðrum löggæslustörfum.
     Fela má starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands að annast tolleftirlit.
     Þegar lögreglumönnum, starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum er falið að vinna tollgæslustörf, án þess að þeir hafi tollgæslu að aðalstarfi, hafa þeir sömu heimildir til starfa og gegna sömu starfsskyldum og tollverðir.
     Tollstjórar geta falið tollvörðum að gegna almennum löggæslustörfum, hverjum í sínu tollumdæmi.
     
     h. (38. gr.)
Ríkistollanefnd.
     Ríkistollanefnd skal vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum sem til hennar er skotið skv. 101. og 102. gr. um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun og annað eftir því sem lög þessi mæla fyrir um.
     Ráðherra skipar þrjá menn í ríkistollanefnd, þar af einn sem formann og skal hann fullnægja skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum. Nefndarmenn skulu skipaðir til tveggja ára í senn. Við skipun í nefndina skal þess gætt að nefndarmenn séu óháðir tollyfirvöldum og hagsmunaaðilum.
     
     i. (39. gr.)
     Um kærur til ríkistollanefndar og störf hennar fer eftir ákvæðum 101. og 102. gr.
     
     j. (40. gr.)
Vanhæfi.
     Eigi má maður taka þátt í rannsókn eða annarri meðferð máls, hvorki ákvörðun né kæru, ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu.

18. gr.

     2. mgr. 47. gr. laganna orðast svo:
     Ríkistollstjóri ákveður gerð innsigla og notkun þeirra.

19. gr.

     Við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
     Tollyfirvöld annast rannsókn brota á lögum þessum að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu. Skulu þau, hvenær sem þess er þörf, hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um refsivert brot. Hafi tollstjóri grun um að stórfelld tollsvik hafi verið framin skal hann þegar tilkynna það ríkistollstjóra sem ákveður um framhald málsins. Um rannsókn skulu að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

20. gr.

     Í stað orðsins „hafnsögumenn“ í 3. mgr. 52. gr. laganna kemur: leiðsögumenn.

21. gr.

     1. mgr. 53. gr. laganna orðast svo:
     Ríkistollstjóri ákveður form skýrslna og skjala vegna fara í utanlandsferðum og hvaða upplýsingar skuli þar koma fram, svo sem um flutningsfar, vörur sem það flytur og annað sem nauðsynlegt getur talist og varðar ferðir þess til og frá landinu. Ákvæði þetta gildir bæði um skýrslur og skjöl sem sendar eru tollstjóra með skjalasendingum milli tölva vegna SMT-tollafgreiðslu og um skriflegar skýrslur og skjöl sem annars ber að afhenda tollstjóra. Upplýsingar þessar skulu sendar eða afhentar fyrir eða við komu fars inn á tollsvæði ríkisins en fyrir brottför sé far á leið til útlanda. Ákvæði 14.–25. gr. skulu að öðru leyti gilda eftir því sem við getur átt um slíkar SMT-tollafgreiðslur.

22. gr.

     54. gr. laganna orðast svo:
     Vörur skulu settar á farmskrá til þeirrar tollhafnar sem er ákvörðunarstaður þeirra.

23. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
 1. Orðin „og tollgæslustjóra“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
 2. 6. mgr. orðast svo:
 3.      Farmflytjendum er heimilt að geyma umflutningsvörur í geymslu- eða afgreiðslustöðum sem viðurkenndir hafa verið samkvæmt þessari grein.


24. gr.

     Orðin „í samráði við tollgæslustjóra“ í 65. gr. laganna falla brott.

25. gr.

     1. mgr. 79. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaráðherra er heimilt að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur, þar á meðal áfengi og tóbak, í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli, Keflavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Ísafjarðarflugvelli í tengslum við farþegaflug milli landa. Heimild þessi gildir einnig um sams konar rekstur í Reykjavíkurhöfn, Ísafjarðarhöfn, Akureyrarhöfn, Seyðisfjarðarhöfn og Vestmannaeyjahöfn. Birgðir slíkra verslana má geyma í tollfrjálsum birgðageymslum sem eingöngu eru ætlaðar til þeirra nota.

26. gr.

     Í stað 97.–100. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, er orðast svo:
     
     a. (97. gr.)
Álagning tolla og annarra gjalda.
     Tollstjórar annast álagningu tolla og annarra gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu vara.
     Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að innflytjandi eða umboðsmaður hans skuli reikna út tolla og önnur gjöld í aðflutningsskýrslu.
     Ef tollstjóra er látin í té útreiknuð aðflutningsskýrsla má hann leiðrétta augljósar reikningsskekkjur. Enn fremur má hann leiðrétta einstaka liði aðflutningsskýrslu ef óyggjandi upplýsingar eru fyrir hendi, en gera skal hann innflytjanda viðvart um slíkar breytingar.
     Ef aðflutningsskýrslu er ekki skilað innan tilskilins frests, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 23. gr., getur tollstjóri áætlað aðflutningsgjöld eða knúið innflytjanda til að skila aðflutningsskýrslu með stöðvun tollafgreiðslu.
     
     b. (98. gr.)
     Komi í ljós eftir að aðflutningsskýrsla hefur verið látin tollstjóra í té að hún eða einstakir liðir hennar eða fylgiskjöl eru ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmæltan hátt eða undirrituð á ófullnægjandi hátt eða tollstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði skal hann skora á viðkomandi að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skýringar og þau gögn sem tollstjóri telur þörf á. Fái tollstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests leggur hann toll og önnur gjöld á samkvæmt aðflutningsskjölum og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á aðflutningsskýrslu, svar frá viðkomandi berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi, eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir eða send gögn eru ófullnægjandi eða tortryggileg skal tollstjóri áætla aðflutningsgjöld.
     Telji tollstjóri að mat vegna ákvörðunar tollverðs eða annarra atriða sem varða tollafgreiðslu vöru sé eigi á færi annarra en sérfróðra manna skal honum heimilt án dómskvaðningar að láta mat fara fram á kostnað innflytjanda. Um matið skulu gilda ákvæði IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við getur átt. Tollstjóra er einnig heimilt að láta fara fram sérfræðilega rannsókn á vöru á kostnað innflytjanda sé það talið nauðsynlegt vegna tollflokkunar hennar samkvæmt tollskrá.
     Ef innflytjandi vill ekki una við ákvörðun tollstjóra samkvæmt þessari grein getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra skv. 100. gr.
     
     c. (99. gr.)
Endurákvörðun gjalda.
     Tollstjóri skal í samræmi við ákvæði þessarar greinar endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld ef í ljós kemur að þau voru ekki rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu.
     Hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar látið tollstjóra í té við tollafgreiðslu fullnægjandi upplýsingar og, eftir atvikum, gögn sem byggja mátti rétta álagningu aðflutningsgjalda á skal tollstjóri hafa lokið endurákvörðun aðflutningsgjalda innan 60 daga, talið frá því að hann heimilaði afhendingu vöru. Hafi heimild verið veitt til innflutnings vöru tímabundið en síðan komið til endanlegrar tollafgreiðslu hennar skal frestur til endurákvörðunar vera 60 dagar, talið frá því að aðflutningsgjöld voru ákvörðuð.
     Áður en til endurákvörðunar tollstjóra á aðflutningsgjöldum kemur skv. 1. mgr. skal hann tilkynna viðkomandi skriflega um að til endurákvörðunar geti komið og lýsa í meginatriðum þeim ástæðum sem hann telur að eigi að leiða til þess. Skal tollstjóri jafnframt gefaviðkomandi kost á að tjá sig um hina fyrirhugðu endurákvörðun innan hæfilegs frests og, eftir atvikum, framvísa þeim gögnum sem hann telur máli kunna að skipta við þá ákvörðun. Tilkynningu um að til endurákvörðunar geti komið skal tollstjóri senda eigi síðar en 45 dögum frá því að afhending vöru var heimiluð.
     Endurákvörðun aðflutningsgjalda skv. 2. mgr. skal rökstudd þannig að ljóst megi vera á hvaða forsendum ákvörðun er byggð. Innflytjanda skal tilkynnt um endurákvörðun með ábyrgðarbréfi og honum jafnframt bent á heimild til að kæra hana til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er tollstjóra heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann, talið frá tollafgreiðsludegi, í eftirfarandi tilvikum, enda sé gætt ákvæða 3. og 4. mgr. þessarar greinar eftir því sem við á:
 1. Hafi framlögðum gögnum eða þeim upplýsingum, sem látin voru í té við tollafgreiðslu, verið áfátt þannig að ekki var unnt að byggja á þeim rétta álagningu aðflutningsgjalda. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollafgreiðslu vissi eða mátti vita um réttmæti þessara gagna eða upplýsinga.
 2. Hafi innflytjandi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Það getur m.a. átt við hafi innflytjandi áður fengið úrskurð tollstjóra eða bindandi ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru í tiltekið tollskrárnúmer samkvæmt tollskrá en síðan tollflokkað sams konar vöru í annað tollskrárnúmer við tollafgreiðslu eða áður flutt inn sams konar vöru og fengið tollafgreidda í ákveðnu tollskrárnúmeri án athugasemda eða með samþykki tollstjóra.
 3. Þegar um SMT-tollafgreiðslu er að ræða.

     Um greiðslu vaxta vegna oftekinna aðflutningsgjalda gilda ákvæði laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, með síðari breytingum.
     Um greiðslu dráttarvaxta af vangreiddum aðflutningsgjöldum gilda ákvæði vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum.
     
     d. (100. gr.)
Kærur til tollstjóra.
     Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra um gjaldskyldu, tollflokkun, tollverð eða fjárhæð aðflutningsgjalda við tollmeðferð vöru eigi rétta getur hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til viðkomandi tollstjóra. Ef ágreiningur er um tollmeðferð vöru sem hefur verið endanlega tollafgreidd skal kæra send tollstjóra innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi eða innan 60 daga frá póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun tollstjóra á aðflutningsgjöldum skv. 99. gr.
     Telji tollstjóri óljóst á hvaða rökum kæra er reist eða að fylgigögn séu ófullnægjandi skal hann gefa kæranda kost á að bæta úr því innan hæfilegs tíma. Ef þess er eigi gætt varða meinbugir frávísun kæru.
     Úrskurða skal um kæru svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Úrskurður tollstjóra skal rökstuddur þannig að ljóst megi vera á hvaða forsendum hann er byggður. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurðinn til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr.

27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
 1. 1. mgr. ásamt fyrirsögn greinarinnar orðast svo:
 2.      
  Kærur til ríkistollanefndar
       Innflytjandi getur skotið endurákvörðun ríkistollstjóra skv. 35. gr., úrskurði tollstjóra skv. 100. gr. og ákvörðun tollstjóra skv. 142. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga, talið frá póstlagningu úrskurðar eða ákvörðunar.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Ríkistollstjóri getur skotið úrskurði tollstjóra skv. 100. gr. og ákvörðun tollstjóra skv. 142. gr. til ríkistollanefndar innan sama frests og greindur er í 1. mgr.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Nefndin skal hafa úrskurðað í öllum kærum innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Sé munnlegur málflutningur viðhafður skal úrskurður kveðinn upp innan 30 daga frá lokum málflutnings.
 7. Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem verða 6. og 7. mgr. og orðast svo:
 8.      Ríkistollanefnd er heimilt að kveðja sér til aðstoðar við úrlausn ágreiningsmála sérfróða menn og krefjast upplýsinga samkvæmt ákvæðum laga þessara.
       Úrskurður ríkistollanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Málskot til almennra dómstóla um úrlausnarefni sem farið hefur fyrir nefndina frestar eða breytir ekki niðurstöðu hennar fyrr en dómur er genginn.


28. gr.

     1. og 3. mgr. 102. gr. laganna falla brott.

29. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „36/1986“ í 2. mgr. 105. gr. laganna kemur: 25/1987.

30. gr.

     106. gr. laganna orðast svo:
     Aðflutningsgjöld skal greiða tollstjóra í því tollumdæmi þar sem vara er flutt úr fari því sem hana flytur til landsins samkvæmt farmskrá. Sé vara framsend ótollafgreidd í annað tollumdæmi en þar sem afferming fór fram, sbr. VII. kafla, skal þó greiða gjöldin í því tollumdæmi sem varan er send til.
     Aðflutningsgjöld af póstsendingum skulu greidd í því pósthúsi þar sem þeirra skal vitjað samkvæmt tilkynningu pósthúss.
     Aðflutningsgjöld af vörum í tollvörugeymslu eða á frísvæði skulu greidd tollstjóra í því tollumdæmi þar sem tollvörugeymsla eða frísvæði er, nema vörurnar séu framsendar ótollafgreiddar í annað tollumdæmi, en þá skal greiða gjöldin þar.
     Hafi innflytjanda verið veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum skv. 109. gr. skal hann greiða aðflutningsgjöld þar sem hann á lögheimili.

31. gr.

     107. gr. laganna orðast svo:
     Póst- og símamálastofnun annast innheimtu aðflutningsgjalda af póstsendingum sem hún sér um flutning á og afhendingu á þeim undir eftirliti tollstjóra samkvæmt nánari reglum sem fjármálaráðherra setur.
     Tollstjóri getur heimilað aðilum, sem annast vörslu ótollafgreiddra vara samkvæmt VII., VIII. og IX. kafla laga þessara, að veita greiðslu aðflutningsgjalda viðtöku og standa ríkissjóði skil á þeim. Binda má leyfi því skilyrði að leyfishafi setji ríkissjóði tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og annarra gjalda sem leiða kann af tollmeðferð vöru hjá leyfishafa.
     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar greinar.

32. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
 1. Á undan orðunum „stöðvun tollafgreiðslu“ kemur: dráttarvexti og.
 2. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
 3.      Eindagi aðflutningsgjalda, sem innflytjandi hefur vanreiknað í aðflutningsskýrslu eða vanreiknuð reynast samkvæmt upplýsingum sem gefnar hafa verið við tollafgreiðslu, er tollafgreiðsludagur varanna.
       Ef aðflutningsgjöld eru ekki greidd á eindaga eins og hann er ákveðinn samkvæmt þessari grein skal frá og með eindaga reikna dráttarvexti af kröfunni fram að greiðsludegi. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta skulu gilda ákvæði vaxtalaga, nr. 25/1987, með áorðnum breytingum.


33. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
 1. Orðin „enda hafi þeir verið skráðir skv. 110. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra ákveður í reglugerð uppgjörstímabil og eindaga lánaðra aðflutningsgjalda.
 3. Í stað tilvísunarinnar „36/1986“ í 3. mgr. kemur: 25/1987.


34. gr.

     110. gr. laganna fellur brott.

35. gr.

     Við 111. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 6. mgr. og orðast svo:
     Um mótmæli gegn nauðungarsölu gilda ákvæði XI. og XIV. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.

36. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Þeir sem stunda útflutning á vörum í atvinnuskyni skulu, áður en vara eða sending er afhent farmflytjanda eða öðrum vörsluaðila til útflutnings, senda viðkomandi tollstjóra með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem láta ber honum í té við tollafgreiðslu vara. Ákvæði 14.–25. gr. skulu að öðru leyti gilda um útflutning eftir því sem við getur átt.
 3. 2. mgr. fellur brott.
 4. 6. mgr. fellur brott.


37. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
 1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Sé útflytjandi framleiðsluvara sem um ræðir í 1. mgr. annar en framleiðandi þeirra skal auk upprunavottorðs útflytjanda liggja fyrir yfirlýsing framleiðanda sem staðfesti að framleiðsluvörurnar uppfylli skilyrði um fríðindameðferð samkvæmt fríverslunar- eða milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að.
 2. 5. mgr. fellur brott.
 3. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
 4.      Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sett nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.


38. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 126. gr. laganna:
 1. 1. og 2. mgr. orðast svo:
 2.      Hver sem af ásetningi, stórfelldu gáleysi eða ítrekað veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti farms eða vöru eða leggur ekki fram til tollmeðferðar gögn sem lög þessi taka til skal sæta sektum sem nema skulu að lágmarki tvöfaldri en að hámarki tífaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin af aðflutningsgjöldum.
       Hafi brot skv. 1. mgr. verið framið með þeim ásetningi að svíkja undan eða fá ívilnun á aðflutningsgjöldum skal það, auk sekta, varða varðhaldi eða fangelsi ef miklar sakir eru eða brot er ítrekað.
 3. Síðari málsliður 4. mgr. fellur brott.
 4. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
 5.      Gera má lögaðila og fyrirsvarsmanni hans að greiða in solidum sekt fyrir brot á lögum þessum þrátt fyrir að ekki sé upplýst um saknæman verknað starfsmanna lögaðilans, enda hafi brotið verið framið til hagsbóta fyrir lögaðilann.


39. gr.

     134. gr. laganna fellur brott.

40. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 139. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „Tollyfirvöldum“ og „tollyfirvald“ í 2. mgr. kemur: Tollstjóra, og: tollstjóri.
 2. Á eftir orðunum „ólöglegan innflutning“ í 2. mgr. kemur: eða önnur brot gegn lögum þessum.
 3. Í stað fjárhæðanna „50.000 kr.“ og „100.000 kr.“ í 2. mgr. kemur: 75.000 kr., og: 300.000 kr.
 4. Við bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
 5.      Sektir og eignaupptaka samkvæmt þessari grein skulu ákveðnar af tollstjóra eða löglærðum fulltrúa hans.
 6. 3. mgr., sem verður 4. mgr., orðast svo:
 7.      Senda skal ríkissaksóknara skrá um mál sem lokið er skv. 2. mgr. eftir þeim reglum sem dómsmálaráðherra setur, en m.a. skulu ákvæði 19. og 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, gilda um færslu á sakaskrá og leiðbeiningu ríkissaksóknara um sektarfjárhæð fyrir hverja tegund brots.


41. gr.

     142. gr. laganna orðast svo:
     Ef óskað er bindandi upplýsinga um tollflokkun vöru skal senda skriflega beiðni þar að lútandi til tollstjóra. Tollstjóri tekur ákvörðun um tollflokkun vöru samkvæmt þessari grein sem er bindandi fyrir fyrirspyrjanda og tollyfirvöld, nema hún sé afturkölluð af tollstjóra eða henni breytt eftir kæru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr.
     Tollstjóra er ekki skylt að verða við beiðni skv. 1. mgr. ef hún lýtur að vöru sem þegar hefur verið tollafgreidd eða vöru sem er í sendingu sem flutt hefur verið til landsins. Sama gildir ef beiðni reynist augljóslega vera tilefnislaus.
     Erindi skulu fylgja þau gögn sem eru nauðsynleg til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun vöru, svo sem teikning, mynd, vörulýsing eða bæklingur. Ef nauðsyn ber til að mati tollstjóra getur hann sett skilyrði um að sýnishorn af vöru sé lagt fram áður en hann tekur ákvörðun um tollflokkun.
     Tollstjóri skal svara beiðni skriflega innan 30 daga frá því að hún berst. Í svari tollstjóra skal í meginatriðum koma fram á hvaða rökum niðurstaða er byggð. Telji tollstjóri að beiðni hafi ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar eða henni fylgi ekki nauðsynleg gögn til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun skal hann tilkynna viðkomandi hvaða upplýsingar eða gögn vanti. Þegar úr því hefur verið bætt skal tollstjóri svara beiðni innan 30 daga. Afrit af svari tollstjóra ásamt ljósriti af mikilvægustu gögnum skal sent ríkistollstjóra sem skotið getur ákvörðuninni til ríkistollanefndar.

42. gr.

     146. gr. laganna orðast svo:
     Ríkistollstjóri setur nánari reglur um skil tollstjóra á upplýsingum úr aðflutnings- eða útflutningsskjölum og öðrum gögnum að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

43. gr.

     Á eftir orðunum „einfalda tollmeðferð“ í 147. gr. laganna kemur: vegna gagnkvæmra upplýsingaskipta og innheimtu vangreiddra gjalda.

44. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 149. gr. og orðast svo:
     Ákvæði laga þessara um innflutning skulu gilda um útflutning og umflutning eftir því sem við getur átt.

45. gr.

     Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 55 30. mars 1987, ásamt síðari breytingum og breytingum á viðaukum við þau, og gefa þau út með samfelldri greinatölu svo breytt.

46. gr.

     Við gildistöku laga þessara kemur í stað orðsins „tollgæslustjóra“ í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn: ríkistollstjóra.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Til 1. janúar 2000 er heimilt að skila tollskjölum í því formi sem ákveðið var fyrir gildistöku þessara laga en SMT-tollafgreiðsla er heimil að því leyti sem hún hefur þegar verið tekin upp eða verður tekin upp eftir gildistöku þessara laga og skulu ákvæði þessara laga þá gilda að öllu leyti um framkvæmd hennar. Reglugerðir og öll önnur fyrirmæli, sem sett hafa verið skv. 14. gr., 15. gr., 1. mgr. 53. gr. og 1. og 2. mgr. 121. gr. tollalaga, nr. 55/1987, eins og þau voru fyrir gildistöku þessara laga, skulu halda gildi sínu til 1. janúar 2000.

Samþykkt á Alþingi 22. maí 1996.