Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1109, 120. löggjafarþing 501. mál: grunnskóli (yfirfærsla til sveitarfélaga).
Lög nr. 77 5. júní 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla.


1. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frumkvæði að lausn málefna grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag, ef þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila.

2. gr.

     Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sveitarfélag getur falið byggðasamlagi um rekstur grunnskóla þau réttindi og skyldur sem á sveitarfélagi hvíla samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

     Við 21. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Eignarhlut ríkisins í skólahúsnæði skal afskrifa í 15 jöfnum áföngum og hann þannig yfirfærður til þeirra sveitarfélaga sem annast og kosta viðhald húsnæðisins. Skal það gert með því að lækka í lok hvers árs eignarhlut ríkisins, eins og hann er skráður hjá Fasteignamati ríkisins 1. ágúst 1996, um 6 2/ 3%, í fyrsta skipti 31. desember 1996. Jafnframt hækki eignarhlutur sveitarfélaga samsvarandi.
     Verði breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að skólahúsnæði er ráðstafað til rekstrar á vegum ríkisins skal samsvarandi yfirfærsla á eignarhlut sveitarfélags eiga sér stað á 15 árum frá sveitarfélagi til ríkis.
     Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við um húsnæði og aðstöðu sem framhaldsskólar hafa afnot af, svo sem íþróttahús og önnur íþróttamannvirki. Enn fremur eru undanskildir skólastjóra- og kennarabústaðir, óbyggðar lóðir og landréttindi.
     Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

4. gr.

     1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
     Starfstími grunnskóla skal á hverju skólaári vera níu mánuðir. Kennsludagar skulu ekki vera færri en 170.

5. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Ákvæði 3. gr. um einsetinn grunnskóla skal komið að fullu til framkvæmda að átta árum liðnum frá gildistöku laga þessara.
     Ákvæði 2. mgr. 27. gr. um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda skal koma til framkvæmda á árabilinu 1995–2001 sem hér segir:
     Haustið 1995 fjölgar kennslustundum um sex, þannig að vikulegur kennslustundafjöldi nemenda verður að lágmarki sem hér segir:      1.–4. bekkur: 26 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 29, 31 og 33 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 34 kennslustundir.

     Haustið 1996 fjölgi kennslustundum um 10, þannig:      1.–4. bekkur: 27 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 30, 32 og 34 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.

     Haustið 1997 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:      1.–4. bekkur: 28 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 31, 32 og 34 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.

     Haustið 1998 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:      1.–4. bekkur: 29 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 32, 32 og 34 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.

     Haustið 1999 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:      1.–4. bekkur: 30 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 32, 32 og 35 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.

     Haustið 2000 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:      1.–4. bekkur: 30 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 33, 33, 35 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 36 kennslustundir.

     Haustið 2001 fjölgi kennslustundum um 7, þannig:      1.–4. bekkur: 30 kennslustundir,
     5.–7. bekkur: 35 kennslustundir,
     8.–10. bekkur: 37 kennslustundir.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. og 3. gr. koma til framkvæmda 1. ágúst 1996. Ákvæði 1. gr. skal endurskoða eigi síðar en 1. janúar 1999.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 1996.