Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 505, 121. löggjafarþing 74. mál: Löggildingarstofa.
Lög nr. 155 27. desember 1996.

Lög um Löggildingarstofu.


1. gr.

     Löggildingarstofa er ríkisstofnun með sérstöku reikningshaldi og heyrir hún undir viðskiptaráðherra.

2. gr.

     Löggildingarstofa hefur með höndum faggildingu, löggildingu og eftirlit því tengt eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
     Löggildingarstofa annast eftirfarandi málaflokka:
  1. rafmagnsöryggismál, eins og kveðið er á um í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga;
  2. lögmælifræði, hagnýta mælifræði og faggildingu, eins og kveðið er á um í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992;
  3. öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eins og kveðið er á um í lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995;
  4. önnur verkefni sem stofnuninni eru falin.


3. gr.

     Ráðherra skipar þrjá menn í stjórn Löggildingarstofu til þriggja ára í senn, þar af einn formann. Stjórnin hefur umsjón með rekstri stofnunarinnar og samþykkir starfsáætlanir hennar, fjárhagsáætlanir og fjárhagsuppgjör, gerir tillögu til ráðherra um gjaldskrá og sér til þess að starfshættir séu á hverjum tíma gagnsæir. Ráðherra staðfestir skipulag stofnunarinnar og skiptingu hennar í deildir.

4. gr.

     Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið háskólaprófi á sviði er tengist starfsemi stofnunarinnar. Forstjóri stýrir faglegu starfi stofnunarinnar, hefur umsjón með rekstri hennar og ræður aðra starfsmenn.

5. gr.

     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Hin nýja stofnun skal taka til starfa 1. janúar 1997.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur brott 2. mgr. 14. gr. laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, sbr. lög nr. 147/1995.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Stofnanirnar Löggildingarstofan, sbr. lög nr. 100/1992, og Rafmagnseftirlit ríkisins, sbr. lög nr. 60/1979, eru lagðar niður frá og með 1. janúar 1997 og eru öll störf á þessum stofnunum lögð niður þegar Löggildingarstofa tekur til starfa. Löggildingarstofa tekur á sama tíma við eignum og skuldum Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins. Í lögum og reglugerðum þar sem fyrir koma heitin Löggildingarstofan og Rafmagnseftirlit ríkisins ber eftir gildistöku þessara laga að líta svo á að átt sé við Löggildingarstofu.
     Strax eftir gildistöku laga þessara skal stjórn Löggildingarstofu skipuð. Staða forstjóra skal auglýst laus til umsóknar með fjögurra vikna fyrirvara svo fljótt sem því verður við komið. Starfsmenn Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins skulu að öðru jöfnu sitja fyrir um sambærileg störf hjá hinni nýju stofnun. Nýr forstjóri skal ráða í þær stöður.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1996.