Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1022, 121. löggjafarþing 446. mál: bókhald (viðurkenndir bókarar).
Lög nr. 29 5. maí 1997.

Lög um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.


1. gr.

     43. gr. laganna orðast svo:
     Í fjármálaráðuneytinu skal haldin skrá yfir viðurkennda bókara. Öðrum en þeim sem teknir hafa verið á skrá er óheimilt að kalla sig viðurkenndan bókara eða með öðrum hætti gefa til kynna að þeir hafi hlotið viðurkenningu ráðherra samkvæmt þessari grein.
     Sá sem óskar að fá viðurkenningu sem bókari og verður tekinn á skrá skv. 1. mgr. skal fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
  1. Vera heimilisfastur hér á landi.
  2. Vera lögráða og hafa forræði á búi sínu.
  3. Hafa staðist próf skv. 3. mgr.

     Fjármálaráðherra skal hlutast til um að reglulega séu haldin námskeið og próf fyrir þá sem vilja fá viðurkenningu sem bókarar. Í viðurkenningu ráðherra felst að viðkomandi aðili hefur staðist próf í bókfærslu, helstu atriðum reikningsskila og lögum og reglugerðum um skattskil.
     Til að annast námskeið og próf skipar ráðherra þriggja manna prófnefnd. Ráðherra getur, að fenginni umsögn prófnefndar, falið öðrum að annast námskeið og próf samkvæmt lögum þessum. Ákvæði um tilhögun námskeiða, námsgreinar og kennslu, svo og námskeiða- og prófagjöld skulu sett í reglugerð. Við ákvörðun á fjárhæð þeirra skal við það miðað að þau séu eigi hærri en kostnaður við námskeið og próf.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. apríl 1997.