Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 973, 122. löggjafarþing 175. mál: vopnalög.
Lög nr. 16 25. mars 1998.

Vopnalög.


I. KAFLI
Gildissvið laganna.

1. gr.

     Með vopni er í lögum þessum átt við hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé með tilliti til aðstæðna ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í slíkum tilgangi.
     Með skotvopni er í lögum þessum átt við vopn eða tæki sem hægt er með sprengikrafti, samanþjöppuðu lofti eða á annan sambærilegan hátt að skjóta úr kúlum, höglum eða öðrum skeytum.
     Með skotfærum er í lögum þessum átt við hvers konar skot eða skeyti sem gerð eru til að skjóta úr skotvopnum.
     Með sprengiefni er í lögum þessum átt við fast eða fljótandi efni eða efnablöndu sem hefur þann eiginleika að geta sprungið við högg, þrýsting eða hita, svo og kveikiefni, svo sem hvellhettur og kveikiþræði.
     Með skoteldum er í lögum þessum átt við flugelda, reyk- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða nánar en um getur í 2.–5. mgr. hvaða efni og tæki skuli teljast skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skoteldar og kveða nánar á um flokkun þeirra.

2. gr.

     Ákvæði laga þessara gilda um:
 1. skotvopn,
 2. skotfæri,
 3. sprengiefni,
 4. skotelda,
 5. önnur vopn, svo sem hnúajárn, örvaboga, högg-, stungu- eða eggvopn, rafmagnsvopn, gasvopn og táragasefni,
 6. efni og tæki sem samkvæmt skilgreiningu 1. gr. teljast ekki til skotvopna, skotfæra, sprengiefna eða skotelda en hafa svipaða eiginleika og verkanir og
 7. eftirlíkingar þeirra vopna sem getur í a–f-liðum.

     Ákvæði laganna gilda einnig um einstaka hluta þeirra efna og tækja sem tilgreind eru í 1. mgr., svo sem láshús, hlaup, hvellhettur og púður.
     Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um meðferð og notkun vopna sem greinir í 1. og 2. mgr. Þar er m.a. heimilt að kveða á um bann við einstökum vopnum.

3. gr.

     Lög þessi gilda ekki um vopn, tæki og efni skv. 1. og 2. gr. sem eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.
     Ákvæði laganna gilda ekki um eftirgreind tæki og efni, en ráðherra getur sett um þau sérstakar reglur:
 1. naglabyssur og skothamra sem ætluð eru til að nota í byggingariðnaði,
 2. línubyssur og tilheyrandi skotfæri, merkjabyssur eða önnur slík skotvopn og skotelda sem eingöngu eru notaðir við björgunarstörf,
 3. vopn og tæki sem eingöngu eru notuð við aflífun dýra í löggiltum sláturhúsum,
 4. önnur tæki og efni sem valda óverulegri hættu samkvæmt ákvörðun ráðherra.


II. KAFLI
Framleiðsla, innflutningur, útflutningur og verslun.

4. gr.

     Enginn má framleiða skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar lögreglustjóra, Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra eða annarra yfirvalda er með brunamál fara.
     Leyfi skv. 1. mgr. má aðeins veita þeim einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og sýnir að öðru leyti fram á hæfni sína til framleiðslunnar.
     Heimilt er að veita skráðu félagi eða firma leyfi skv. 1. mgr., enda tilnefni það einn starfsmann sinn eða fleiri sem fullnægja skilyrðum 2. mgr. til þess að annast framleiðsluna.
     Handhafa skotvopnaleyfis er heimilt að fengnu leyfi lögreglustjóra að hlaða skothylki til eigin nota í þau skotvopn sem hann hefur leyfi fyrir, enda sé heimilt að nota slík skotfæri hér á landi. Skilyrði slíks leyfis eru að lögreglustjóri telji viðkomandi hafa nægilega þekkingu til þess að hlaða skothylki og fara með hleðslubúnað, að hann hafi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár og gengist undir námskeið í hleðslu skotfæra, en ríkislögreglustjóri þarf að samþykkja námsefni og fyrirkomulag slíkra námskeiða. Í leyfi skal koma fram hversu mikið magn af púðri, hvellhettum og skothylkjum leyfishafa er heimilt að kaupa.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um réttindi og skyldur framleiðanda samkvæmt þessari grein, þar með talið um framleiðslu, búnað framleiðsluhúsnæðis og nauðsynlegar öryggisreglur. Áður en slík reglugerð er sett skal haft samráð við Vinnueftirlit ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins.

5. gr.

     Enginn má flytja til landsins skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Leyfi til verslunar með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda skv. 7. gr. felur jafnframt í sér leyfi til innflutnings á þeim vörum. Ríkislögreglustjóra er heimilt að fela lögreglustjórum að veita slík leyfi. Áður en leyfi er veitt til innflutnings skotvopna skal leita umsagnar lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra eða annarra yfirvalda er með brunamál fara. Sé sótt um leyfi til innflutnings á sprengiefni skal og leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins.
     Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita þeim sem hafa skotvopnaleyfi leyfi til innflutnings skotvopna og skotfæra til eigin nota samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
     Óheimilt er að flytja til landsins eða framleiða skotvopn sem ekki eru númeruð eintaksnúmeri framleiðanda. Ríkislögreglustjóra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar skotvopn hefur ótvírætt söfnunargildi.
     Óheimilt er að flytja inn eða framleiða:
 1. sjálfvirka eða hálfsjálfvirka skammbyssu,
 2. sjálfvirkan eða hálfsjálfvirkan riffil,
 3. sjálfvirka haglabyssu,
 4. hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu með skothylkjahólfum sem tekur fleiri en tvö skothylki nema henni hafi verið breytt til samræmis við þennan áskilnað.

     Innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum vopna er bannaður, enda sé ástæða til að ætla að erfitt sé að greina þær frá fyrirmyndinni.
     Óheimilt er að flytja til landsins, framleiða eða eiga sérstaklega hættulegar tegundir vopna, eða hluta þeirra, sem eingöngu eru ætluð til nota í hernaði, svo og slík skotfæri, skotelda og sprengiefni.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–6. mgr. er heimilt með leyfi ríkislögreglustjóra að framleiða vopn til útflutnings. Ríkislögreglustjóri getur og heimilað innflutning slíkra vopna ef þau hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra eða tengsla við sögu landsins.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd innflutnings samkvæmt þessari grein, m.a. um staðfestingu lögreglustjóra á vörureikningum áður en tollafgreiðsla fer fram, um innflutning þeirra efna og tækja sem greind eru í 3.–6. mgr. og eftirlíkinga þeirra. Í reglugerðinni er einnig heimilt að ákveða nánar hvaða efni og tæki megi flytja til landsins og um prófun þeirra, merkingar og gæðaeftirlit.

6. gr.

     Enginn má flytja úr landi skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri má fela lögreglustjórum að gefa út slík leyfi þar sem um er að ræða tímabundinn flutning á milli landa.
     Ekki þarf leyfi fyrir greindum tækjum og efnum sem flutt eru úr landi með skipum eða flugförum ef þessar vörur teljast vera nauðsynlegur búnaður skips eða flugfars.

7. gr.

     Enginn má versla með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema að fengnu leyfi ríkislögreglustjóra.
     Leyfi skv. 1. mgr. má aðeins veita þeim einstaklingi sem hefur verslunarleyfi og skotvopnaleyfi eða sérþekkingu á þeim vörum sem þar um ræðir eftir nánari reglum sem ráðherra setur.
     Leyfi skv. 1. mgr. má veita skrásettu firma eða félagi sem hefur verslunarleyfi, enda tilnefni firmað eða félagið mann sem fullnægi skilyrðum 2. mgr. og hafi umsjón með daglegri verslun og ábyrgist vörslu varanna ásamt stjórnendum firmans eða félagsins.
     Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita félagasamtökum leyfi til þess að selja skotelda í smásölu, enda þótt þau hafi ekki verslunarleyfi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ríkislögreglustjóri heimilað lögreglustjórum að veita leyfi til að selja skotelda í smásölu.
     Aðeins skal veita þeim leyfi skv. 1. mgr. sem hafa til umráða fullnægjandi húsnæði til þess að geyma í þargreindar vörur. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um slíkt húsnæði og um vörslu varanna.
     Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal leita umsagnar viðkomandi lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra eða annarra yfirvalda sem með brunamál fara.
     Leyfi skv. 1. mgr. skal ekki veita til lengri tíma en fimm ára eða til skemmri tíma ef ástæða þykir til að mati ríkislögreglustjóra.

8. gr.

     Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita leyfi til reksturs skotvopnaleigu, enda sé fullnægt ákvæðum 2., 3., 5., 6. og 7. mgr. 7. gr.
     Ráðherra skal setja reglugerð um rekstur skotvopnaleigu og þar skal m.a. kveða nánar á um skilyrði sem leigutaki og leigusali skulu fullnægja, svo og um starfsemina að öðru leyti.

9. gr.

     Verslunareigandi, innflytjandi eða framleiðandi skotvopna, skotfæra, sprengiefna og skotelda skal halda færslubók yfir keypt og seld skotvopn og skotfæri. Skal hann gefa viðkomandi lögreglustjóra, hvenær sem hann óskar þess, nákvæmar upplýsingar um seldar vörur og óseldar vörubirgðir.
     Lögreglustjóri getur, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem skotvopn, skotfæri, skoteldar eða sprengiefni er framleitt eða þar sem birgðir af þessum vörum eru geymdar.

10. gr.

     Sá sem hefur fengið leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda eða leyfi til reksturs skotvopnaleigu má ekki selja eða á annan hátt afhenda þargreindar vörur öðrum en þeim sem sýnir skilríki fyrir því að hann megi kaupa eða taka á móti vörunum.
     Óheimilt er að afhenda kaupanda skotfæri í önnur vopn en þau sem hann hefur heimild til að nota samkvæmt skilríkjum þeim sem hann framvísar skv. 1. mgr. Sama gildir um kaup á púðri og nauðsynlegum hlutum til hleðslu skotfæra skv. 2. mgr. 2. gr.
     Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja takmarkanir á magn skotfæra sem einstaklingi er heimilt að kaupa.

11. gr.

     Þeim sem hefur leyfi til verslunar með skotvopn, skotfæri eða sprengiefni eða reksturs skotvopnaleigu og þeim sem hefur leyfi til sýninga og söfnunar skv. 15. gr. er ekki heimilt að nota greindar vörur nema með leyfi viðkomandi lögreglustjóra.

III. KAFLI
Meðferð skotvopna og skotfæra.

12. gr.

     Enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Leyfið veitir lögreglustjóri í umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Lögreglustjóra er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að hafa skotvopnaleyfi fyrir þann sem er á æfingum á vegum viðurkenndra skotfélaga á viðurkenndu æfingasvæði.
     Skotvopnaleyfi skal vera skriflegt. Í því skal tilgreina nafn, kennitölu og heimilisfang leyfishafa. Þar skal vera nýleg ljósmynd af leyfishafa. Einnig skal tilgreina nákvæmlega hvers konar skotvopn leyfishafa er heimilt að nota. Í skotvopnaleyfi skal skrá öll skotvopn í eigu leyfishafa, gerð þeirra, lástegund, hlaupvídd, hámarksfjölda skota og eintaksnúmer framleiðanda. Lögreglustjóra er heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir leyfi telji hann þess þörf.
     Skotvopnaleyfi skal ekki gefið út til lengri tíma en tíu ára í senn og til skemmri tíma ef ástæða þykir til. Við endurnýjun skotvopnaleyfis er lögreglustjóra heimilt að kanna hæfni leyfishafa ef sérstök ástæða þykir til.

13. gr.

     Veita má leyfi fyrir skotvopnum til veiða, íþróttaiðkunar skv. 17. gr., starfa skv. 14. gr. og til sýninga og söfnunar skv. 15. gr. Umsækjandi skal gera grein fyrir því í hverju skyni sótt sé um leyfi. Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru:
 1. að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði. Í reglugerð er heimilt að víkja frá þessu aldursskilyrði vegna íþróttaskotfimi, sbr. 17. gr.,
 2. að hafa ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða þessara laga,
 3. að hafa nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn.

     Lögreglustjóri getur veitt leyfi fyrir skotvopni þótt viðkomandi hafi brotið ákvæði laga þeirra sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að brot var framið. Að liðnum tveimur árum frá því að brot var framið getur lögreglustjóri þó veitt umsækjanda leyfi, enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum eða varðhaldi og ekki verið um að ræða árásar- eða ofbeldisbrot, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, ítrekuð ölvunarbrot eða brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða lögum þessum.
     Þeir sem sækja um leyfi fyrir skotvopnum skulu sækja námskeið í meðferð og notkun skotvopna. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um námskeið þessi og próf.
     Lögreglustjóri getur veitt manni búsettum erlendis tímabundið leyfi fyrir skotvopni, enda fullnægi viðkomandi skilyrðum 1. mgr. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tímabundið skotvopnaleyfi.

14. gr.

     Lögreglustjóri getur veitt félagi, stofnun eða einstaklingi leyfi til þess að eiga skotvopn ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar. Í slíku tilviki skal tilnefndur ákveðinn aðili er annist vörslu skotvopnanna og tilheyrandi skotfæra.
     Lögreglustjóra er heimilt, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, að víkja frá ákvæði laganna um að skotvopn skuli númerað eintaksnúmeri framleiðanda við veitingu leyfa skv. 1. mgr. þegar um er að ræða umsókn bónda sem er ábúandi á lögbýli eða dýralæknis um leyfi fyrir hlaupstuttri einskota byssu, þó ekki stærri en 22 cal. (fjárbyssu) til aflífunar búfjár.

15. gr.

     Ríkislögreglustjóri getur heimilað einstaklingi, samtökum og opinberu safni að eiga og varðveita skotvopn sem hefur ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs, tengsla við sögu landsins eða af öðrum sérstökum ástæðum. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um þessi atriði. Heimilt er að veita sömu aðilum leyfi til að eiga og varðveita takmarkað magn skotfæra fyrir framangreind vopn, enda hafi skotfærin ótvírætt söfnunargildi.
     Óheimilt er að nota vopn skv. 1. mgr. til veiða og kaupa fyrir þau skotfæri nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Vopn þessi skal skrá sérstaklega í skotvopnaskrá.

16. gr.

     Skotvopni, sem er hluti dánarbús, skal innan tólf mánaða frá andláti leyfishafa ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga slíkt skotvopn. Þegar um er að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- eða tilfinningagildi er heimilt að víkja frá þessu skilyrði, enda verði skotvopnið gert óvirkt.

17. gr.

     Félag sem hefur iðkun skotfimi að markmiði skal leita leyfis ríkislögreglustjóra. Áður en slíkt leyfi er gefið út skal ríkislögreglustjóri afla umsagnar lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slík leyfi.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um skotvopnaleyfi til einstaklinga til iðkunar skotfimi og um leyfi til skotfélaga til eignar á skotvopnum.

18. gr.

     Halda skal sérstaka skotvopnaskrá fyrir landið í heild. Í hana skrá lögreglustjórar upplýsingar um veitt skotvopnaleyfi samkvæmt reglum er ráðherra setur í reglugerð. Í skotvopnaskrá skal skrá allar breytingar á skotvopnum skv. 38. gr. Þar skal jafnframt skrá öll horfin skotvopn.

19. gr.

     Eiganda skotvopns er óheimilt að selja, gefa eða afhenda á annan hátt skotvopn til eignar, nema viðtakandi sýni fram á að hann hafi leyfi lögreglustjóra til að eiga það eða nota.
     Eiganda skotvopns er heimilt að lána það manni til tímabundinna afnota sem leyfi hefur til að nota sams konar skotvopn. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slík afnot.

20. gr.

     Hver sá sem fer með eða notar skotvopn skal hafa skotvopnaleyfi meðferðis og sýna það þegar lögregla krefst þess. Nú sýnir maður ekki skotvopnaleyfi og getur þá lögregla tekið vopnið í sína vörslu til bráðabirgða þar til viðkomandi leggur fram skilríki fyrir því að hann hafi heimild til þess að nota vopnið.
     Nú er viðkomandi með vopnið að láni eða á leigu og skal hann þá leggja fram skriflega heimild eiganda skotvopnsins því til sönnunar.

21. gr.

     Sá sem fer með eða notar skotvopn skal ætíð gæta fyllstu varúðar. Óheimilt er að bera skotvopn á almannafæri. Við burð og flutning á skotvopnum milli staða skulu þau vera óhlaðin og í umbúðum. Óheimilt er að bera þau á sér innanklæða.
     Þeim sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa er óheimil meðferð skotvopns.
     Þegar ástæða er til að ætla að maður hafi brotið framangreind ákvæði getur lögregla fært hann til læknisrannsóknar, þar á meðal blóð- og þvagrannsóknar, og er honum þá skylt að hlíta þeirri meðferð sem heilbrigðisstarfsmaður telur nauðsynlega vegna rannsóknarinnar.
     Ekki má hleypa af skoti á vegi, yfir veg, úr ökutæki, á almannafæri eða annars staðar þar sem hætta getur stafað af, nema nauðsyn krefji.
     Ekki má hleypa af skoti á annars manns landi eða skjóta yfir annars manns land án leyfis landeiganda eða ábúanda nema lög mæli öðruvísi fyrir um. Mál út af broti á ákvæðum þessarar málsgreinar skal því aðeins höfða að sá krefjist sem misgert var við.

22. gr.

     Ekki má afhenda öðrum skotfæri en þeim sem skráður er fyrir því skotvopni sem þau eru ætluð fyrir, enda framvísi viðkomandi leyfi fyrir skotvopninu. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um afhendingu skotfæra í reglugerð, þar á meðal um bann við einstökum gerðum skotfæra.

23. gr.

     Eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra skal ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.
     Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vörslu skotvopna og skotfæra. Er m.a. heimilt að setja skilyrði um tiltekna geymslu skotvopna eftir að tilteknum skotvopnafjölda er náð.

24. gr.

     Skotfélagi eða öðrum er óheimilt að efna til skotkeppni eða skotæfinga á öðru svæði en lögreglustjóri hefur leyft að notað verði til slíkrar starfsemi.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð og búnað skotsvæða, þar með talið um geymslu skotvopna og skotfæra. Samráð skal haft við Vinnueftirlit ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins áður en slíkar reglur eru settar.
     Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal lögreglustjóri leita umsagnar sveitarstjórnar, Vinnueftirlits ríkisins og Brunamálastofnunar ríkisins.

25. gr.

     Nú eyðileggst skotvopn eða því er fargað og skal það þá afskráð. Týnist skotvopn eða sé því stolið skal eigandi þess tilkynna lögreglu um það þegar í stað og skal hvarfið skráð í skotvopnaskrá.

IV. KAFLI
Meðferð sprengiefnis.

26. gr.

     Enginn má kaupa sprengiefni nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Leyfið veitir lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfisbeiðandi hefur lögheimili. Ef umsækjandi er lögaðili veitir lögreglustjóri leyfið þar sem starfsstöð umsækjandans er.
     Aðeins má veita þeim leyfi til þess að kaupa sprengiefni sem sýnir fram á að honum sé það nauðsynlegt.
     Leyfi samkvæmt þessari grein skal gefið út fyrir ákveðinni tegund og magni sprengiefnis.
     Eigandi sprengiefnis skal ábyrgjast vörslur þess og sjá um að óviðkomandi nái ekki til þess.
     Þegar lögaðili fær leyfi skv. 1. mgr. skal hann að jafnaði tilnefna ákveðinn mann eða menn sem annist vörslur sprengiefnisins.
     Þeim sem fengið hefur leyfi til þess að kaupa sprengiefni er óheimilt að afhenda það öðrum nema með leyfi lögreglustjóra.

27. gr.

     Sá einn má fara með sprengiefni og annast sprengingar sem fengið hefur til þess leyfi lögreglustjóra. Leyfið veitir lögreglustjóri í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili og gildir það í fimm ár frá útgáfudegi.
     Aðeins má veita þeim leyfi skv. 1. mgr. sem að mati Vinnueftirlits ríkisins hefur næga kunnáttu til þess að fara með sprengiefni eftir nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
     Sá sem fer með og notar sprengiefni skal ætíð gæta fyllstu varúðar.

28. gr.

     Sprengiefni skal geyma í sérstakri sprengiefnageymslu.
     Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um geymslu á sprengiefni, um flutning á því og meðferð þess. Áður en slík reglugerð er sett skal leita eftir tillögum frá Brunamálastofnun ríkisins og Vinnueftirliti ríkisins.

29. gr.

     Nú finnst sprengiefni eða hlutir, sem ætla má að hafi að geyma sprengiefni, rekið á land eða á víðavangi og skal þá finnandi, landeigandi eða ábúandi þegar tilkynna lögreglustjóra um fundinn.

V. KAFLI
Meðferð annarra vopna.

30. gr.

     Vopnaburður á almannafæri er bannaður. Heimilt er að bera á sér bitvopn þar sem eðlilegt og sjálfsagt getur talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar engin hætta er því samfara.
     Bannað er að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum:
 1. bitvopn ef blaðið er lengra en 12 sm, enda sé það ekki ætlað til notkunar við heimilishald eða atvinnu,
 2. fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf, fallrýting, stunguvopn eða önnur slík vopn,
 3. höggvopn, svo sem hnúajárn, gaddakylfu, felukylfu, kylfu sem ekki er ætluð til íþróttaiðkunar eða önnur slík vopn, svo og rafmagnsvopn,
 4. sverð, sem eru sambland högg- og bitvopna,
 5. kaststjörnu, kasthníf eða önnur slík vopn,
 6. lásboga, langboga, slöngubyssu eða önnur slík vopn, svo og örvarodda. Þetta tekur þó ekki til boga sem ætlaðir eru til æfinga eða keppni í bogfimi.

     Heimilt er að víkja frá banni 2. mgr. með leyfi ríkislögreglustjóra ef vopn hefur söfnunargildi eða sérstakar ástæður mæla með.
     Öðrum en lögreglu er óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn og fótajárn úr málmi eða öðru efni. Sama gildir um gasvopn og táragasvopn.

31. gr.

     Barni yngra en 16 ára má ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar.

VI. KAFLI
Meðferð skotelda.

32. gr.

     Bannað er að selja eða afhenda skotelda barni yngra en 16 ára sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum. Öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil.

33. gr.

     Þeir sem fara með skotelda skulu ætíð gæta fyllstu varúðar.
     Ráðherra setur ákvæði í reglugerð um sölu og meðferð skotelda, þar á meðal getur hann sett reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda. Jafnframt getur hann kveðið á um sérstakt eftirlit í því skyni og að innflytjandi skuli eftir atvikum bera kostnað af því.

VII. KAFLI
Refsingar, eignaupptaka o.fl.

34. gr.

     Leyfi samkvæmt lögum þessum getur leyfisveitandi afturkallað hvenær sem er ef ekki teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, leyfishafi hefur ekki farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni og tæki sem leyfið tekur til.
     Þegar um er að ræða leyfi skv. 12. gr. eða 27. gr. skal lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfishafi á lögheimili taka ákvörðun um leyfissviptingu án tillits til þess hvar leyfið er upphaflega gefið út.
     Lögreglustjóra er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til.
     Nú er húsnæði, framleiðsluháttum eða vörslu vara ábótavant að mati lögreglustjóra og getur hann þá til bráðabirgða og án fyrirvara lagt hald á skotvopn, skotfæri, skotelda eða sprengiefni. Sama á við um önnur vopn samkvæmt lögum þessum.

35. gr.

     Þegar leyfi samkvæmt lögum þessum er afturkallað skal sá sem sviptur er leyfinu skila því til lögreglu ásamt þeim vopnum, efnum og tækjum sem hann hefur í vörslum sínum á grundvelli leyfisins.
     Þegar ekki eru fyrir hendi skilyrði til eignaupptöku getur lögreglustjóri að liðnum einum mánuði frá leyfissviptingu ákveðið að selja greindan varning en að sex mánuðum liðnum ef um skotvopn er að ræða. Við sölumeðferð skal svo sem kostur er haft samráð við eiganda varningsins. Söluandvirði að frádregnum kostnaði skal renna til eiganda.
     Nú telur lögreglustjóri vopn, efni eða tæki svo lélegt og verðlaust eða verðlítið að ekki sé rétt að selja það og skal þá eyðileggja það eða gera óvirkt án greiðslu bóta til handa eiganda.

36. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.
     Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim eru refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

37. gr.

     Skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda, sem flutt hafa verið til landsins eða framleidd eru í landinu án heimildar eða finnast vörslulaus eða í vörslu manns án heimildar, skal gera upptæk til ríkissjóðs. Jafnframt skal gera upptæk með sama hætti önnur vopn sem ólögmæt teljast samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
     Nú fremur maður brot með nefndum tækjum eða efnum og skilyrði til upptöku þeirra er fyrir hendi, og er þá heimilt, ef brot er stórfellt, að gera einnig upptæk önnur slík tæki og efni sem sökunautur hefur leyfi fyrir.
     Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. almennra hegningarlaga.
     Ríkislögreglustjóri ákvarðar hvernig geymslu og ráðstöfun þeirra vopna er háttað sem haldlögð eru vegna afturköllunar leyfis eða gerð eru upptæk samkvæmt kafla þessum.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

38. gr.

     Allar breytingar, svo sem á lásgerð, mögulegum skotafjölda eða aukabúnaði sem hefur áhrif á eiginleika skotvopns eða verkan, eru óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra.
     Breytingar skv. 1. mgr. skulu skráðar í skotvopnaskrá og í skotvopnaleyfi.

39. gr.

     Ráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

40. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 1998. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46 13. maí 1977.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 1998.