Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1310, 125. löggjafarþing 623. mál: fæðingar- og foreldraorlof (heildarlög, breyting ýmissa laga).
Lög nr. 95 22. maí 2000.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.
     Lög þessi taka einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður.
     Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.

3. gr.

Yfirstjórn.
     Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála samkvæmt lögum þessum.

4. gr.

Fæðingarorlofssjóður.
     Fæðingarorlofssjóður skal annast greiðslur til foreldra sem réttinda njóta til greiðslu í fæðingarorlofi skv. 13. gr. Þó er heimilt að semja um að vinnuveitandi annist þessar greiðslur, enda fái hann endurgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Greiðslur til foreldra, sbr. 2. mgr. 1. gr., greiðast úr ríkissjóði.
     Fæðingarorlofssjóður skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins sem sér um reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra.
     Fæðingarorlofssjóður skal fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.
     Félagsmálaráðherra skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Skal sjóðurinn árlega gera fjárhagsáætlun sem félagsmálaráðherra leggur fyrir fjármálaráðherra við undirbúning fjárlaga.
     Reikningar Fæðingarorlofssjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir ár hvert í Lögbirtingablaðinu.
     Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

5. gr.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
     Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála og jafnmarga til vara. Nefndarmenn skulu skipaðir til þriggja ára í senn og skal einn skipaður án tilnefningar. Hæstiréttur tilnefnir tvo og skal annar þeirra uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og vera formaður nefndarinnar en hinn skal vera læknir og varaformaður hennar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
     Hlutverk úrskurðarnefndar er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga þessara.
     Úrskurðir nefndarinnar sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds.
     Kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

6. gr.

Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
     Kæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
     Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund.
     Nefndin skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig áður en nefndin úrskurðar í því, enda telji nefndin að hvorki afstaða hans né rök fyrir henni liggi fyrir í gögnum málsins.
     Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     Tryggingastofnun ríkisins skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar sem nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.
     Nefndarmönnum er bannað að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
     Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál.

III. KAFLI
Orðskýringar.

7. gr.

     Fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt lögum þessum er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við:
 1. fæðingu,
 2. frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða
 3. töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

     Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þó á hugtakið starfsmaður í VII. kafla við um alla sem vinna launuð störf í annarra þjónustu.
     Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
     Í lögum þessum telst kona nýlega hafa alið barn þegar barnið er 14 vikna eða yngra.

IV. KAFLI
Fæðingarorlof.

8. gr.

Réttur foreldra á vinnumarkaði.
     Foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Réttur til fæðingarorlofs fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
     Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.
     Kona skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
     Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
     Réttur foreldris til fæðingarorlofs er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst, sbr. þó 6. mgr.
     Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir.
     Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris.

9. gr.

Tilkynning um fæðingarorlof.
     Þegar starfsmaður hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs skal hann tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns. Vilji kona breyta áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 8. gr., ber henni að tilkynna það vinnuveitanda þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag fæðingarorlofs.
     Tilkynning um töku fæðingarorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarolofs milli foreldra barns. Þá skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Vinnuveitandi getur krafist sönnunar á að foreldri fari með forsjá barnsins eða að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána telji hann þess þörf.

10. gr.

Tilhögun fæðingarorlofs.
     Starfsmaður skal eiga rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.
     Með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en viku í senn. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt þessu ákvæði.
     Óski starfsmaður eftir að haga fæðingarorlofi skv. 2. mgr. en vinnuveitandi getur ekki fallist á óskir hans skal vinnuveitandi að höfðu samráði við starfsmann leggja til aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar, sbr. 2. mgr. 9. gr. Skal það gert skriflega og ástæður tilgreindar fyrir breyttri tilhögun.
     Ef samkomulag næst ekki milli starfsmanns og vinnuveitanda um töku fæðingarorlofs starfsmanns á starfsmaður ávallt rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem starfsmaður ákveður.

11. gr.

Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
     Ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Um framkvæmd þessa ákvæðis skal fara eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur.
     Þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, sbr. 1. mgr., skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.
     Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt ákvæði þessu á hún rétt á greiðslum, sbr. 13. gr.

12. gr.

Réttur til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar og fósturláts.
     Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði.

13. gr.

Réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
     Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.
     Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
     Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.
     Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur 54.021 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 74.867 kr. á mánuði.
     Fjárhæð lágmarksgreiðslna kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta greiðslufjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
     Greiðslur í fæðingarorlofi skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
     Réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr.
     Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo sem um mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi og þeirra sem eru undanþegnir greiðslu tryggingagjalds lögum samkvæmt.

14. gr.

Uppsöfnun og vernd réttinda.
     Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 6%. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð og greiðir þá Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti.
     Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu jafnframt gilda um leyfi sem veitt er þungaðri konu skv. 11. gr.

15. gr.

Umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins.
     Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., skal sækja um greiðslu í fæðingarorlofi til Tryggingastofnunar ríkisins sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Vilji kona hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 2. mgr. 8. gr., ber henni að tilkynna það Tryggingastofnun þremur vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs,
     Umsóknin skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Umsóknin skal undirrituð af tilvonandi móður og föður, enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Skal forsjárlaust foreldri undirrita umsókn uppfylli það skilyrði 6. mgr. 8. gr. Gildir hið sama þótt annað foreldri sé utan vinnumarkaðar eða í námi, sbr. 2. mgr. 1. gr. Vinnuveitendur beggja foreldra, ef það á við, skulu árita umsóknina til staðfestingar á tilhögun fæðingarorlofs.
     Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

V. KAFLI
Undanþágutilvik.

16. gr.

Fjölburafæðingar.
     Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
     Um greiðslur fer skv. 13. gr.

17. gr.

Veikindi barns eða móður.
     Þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði.
     Einnig er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
     Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
     Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis.
     Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði. Ákvörðun tryggingayfirlæknis er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.
     Umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skal fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.
     Um greiðslur fer skv. 13. gr.

VI. KAFLI
Foreldrar utan vinnumarkaðar og í námi.

18. gr.

Fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar.
     Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér. Réttur til fæðingarstyrks fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
     Fæðingarstyrkur skal vera 33.157 kr. á mánuði. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.
     Vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
     Réttur foreldris til fæðingarstyrks er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst.
     Greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
     Ef annað foreldrið notar hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.

19. gr.

Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi.
     Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér. Réttur til fæðingarstyrks fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
     Fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi skal vera 74.867 kr. á mánuði. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.
     Vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
     Réttur foreldris til fæðingarstyrks er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst.
     Greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
     Ef annað foreldrið tekur hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

20. gr.

Réttur til greiðslu fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar og fósturláts.
     Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að tvo mánuði.
     Ef annað foreldrið tekur fæðingarorlof skv. 12. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.

21. gr.

Fjölburafæðingar.
     Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt.
     Ef annað foreldrið tekur fæðingarorlof skv. 16. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.

22. gr.

Veikindi barns eða móður.
     Þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði.
     Einnig er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
     Heimilt er að framlengja rétt til fæðingarstyrks til móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
     Rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu á rétti til fæðingarstyrks skv. 1.–3. mgr. með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks sé nauðsynleg. Ákvörðun tryggingayfirlæknis er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.
     Ef annað foreldrið tekur fæðingarorlof skv. 17. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.

23. gr.

Umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins.
     Foreldri, sbr. 2. mgr. 1. gr., skal sækja um fæðingarstyrk til Tryggingastofnunar ríkisins þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. þó 15. gr.
     Umsóknin skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu fæðingarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Umsóknin skal undirrituð af tilvonandi móður og föður, enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Gildir hið sama þótt annað foreldrið sé á vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 1. gr.
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um tilhögun á afgreiðslu Tryggingastofnunar.

VII. KAFLI
Foreldraorlof.

24. gr.

Réttur foreldra til töku foreldraorlofs.
     Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., skal eiga rétt á foreldraorlofi í 13 vikur til að annast barn sitt.
     Réttur til foreldraorlofs stofnast við fæðingu barns. Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldri þarf að sækja barnið til annarra landa getur foreldraorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
     Réttur til foreldraorlofs fellur niður er barnið nær átta ára aldri.
     Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.
     Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.

25. gr.

Skipulag foreldraorlofs.
     Foreldri skal eiga rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi.
     Með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga foreldraorlofi með öðrum hætti, t.d. þannig að orlofið skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
     Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs.
     Starfsmanni er óheimilt nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda að taka lengra foreldraorlof en 13 vikur á hverju 12 mánaða tímabili.

26. gr.

Tilkynning um foreldraorlof.
     Starfsmaður öðlast rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda.
     Starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofs. Tilkynning um töku foreldraorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar.
     Vinnuveitandi skal skrá töku foreldraorlofs þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess.

27. gr.

Frestun eða aðrar breytingar á tilhögunforeldraorlofs.
     Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar, sbr. 2. mgr. 26. gr. Skal það gert skriflega, ástæður tilgreindar og ef um frestun er að ræða skal tekið fram hve lengi frestunin varir.
     Frestun er eingöngu heimil þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis/stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt. Svo er t.d. ef um er að ræða árstíðabundin störf, ef ekki tekst að finna hæfan staðgengil, ef umtalsverður hluti starfsmanna sækir um foreldraorlof á sama tíma eða viðkomandi starfsmaður gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn fyrirtækis eða stofnunar.
     Vinnuveitanda er aldrei heimilt að fresta foreldraorlofi lengur en í sex mánuði frá þeim tíma sem foreldraorlof átti að hefjast samkvæmt óskum starfsmanns nema með samþykki hans.
     Óheimilt er að fresta foreldraorlofi sem er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris er nauðsynleg. Einnig er frestun óheimil hafi vinnuveitandi fallist á orlofstökuna eða liðinn er frestur skv. 1. mgr. án svars frá vinnuveitanda.
     Verði ákvörðun vinnuveitanda um frestun foreldraorlofs til þess að starfsmaður nær ekki að ljúka foreldraorlofi áður en barn hans nær átta ára aldri framlengist sá tími sem heimilt er að taka foreldraorlof á til þess dags er barn nær níu ára aldri.

28. gr.

Vernd uppsafnaðra réttinda.
     Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs skulu haldast óbreytt til loka orlofsins. Við lok orlofsins skulu þessi réttindi gilda, sem og breytingar sem kunna að hafa orðið á grundvelli laga eða kjarasamninga.

VIII. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.

29. gr.

Réttur til starfs.
     Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi.
     Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

30. gr.

Vernd gegn uppsögnum.
     Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs skv. 9. eða 26. gr. eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

31. gr.

Skaðabótaskylda.
     Brjóti vinnuveitandi gegn ákvæðum laga þessara varðar það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

32. gr.

Brottfall réttinda foreldra.
     Réttur foreldra, sbr. 1. mgr. 1. gr., til fæðingar- og foreldraorlofs fellur niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs. Sama gildir um rétt foreldra, sbr. 2. mgr. 1. gr., til greiðslu fæðingarstyrks.
     Í tilvikum skv. 1. mgr. skulu kynforeldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., eiga sameiginlegan rétt á tveggja mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu barns. Þá eiga foreldrar, sbr. 2. mgr. 1. gr., sameiginlega rétt á greiðslu fæðingarstyrks í tvo mánuði eftir fæðingu barns.
     Ef annað foreldrið tekur hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs skv. 2. mgr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.

33. gr.

Ósamrýmanleg réttindi.
     Foreldri í fæðingar- og foreldraorlofi á ekki rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
     Foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt til umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð vegna sama barns eða sömu fæðingar. Sama gildir um greiðslur sjúkradagpeninga og lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar.
     Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. og greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. og 19. gr.

34. gr.

Milliríkjasamningar.
     Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

35. gr.

Reglugerðarheimild.
     Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

IX. KAFLI
Gildistaka.

36. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði um fæðingarorlof koma til framkvæmda 1. janúar 2001 og falla þá jafnframt úr gildi lög um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum. Ákvæði um fæðingarorlof taka til barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2001 eða síðar.
     Þrátt fyrir orðalag 8. gr. skal sjálfstæður réttur föður til fæðingarorlofs vera einn mánuður frá og með 1. janúar 2001, tveir mánuðir frá og með 1. janúar 2002 og þrír mánuðir frá og með 1. janúar 2003.
     Ákvæði um foreldraorlof veita foreldrum barna sem fædd eru, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 1998 eða síðar rétt til töku foreldraorlofs.

X. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.

37. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum:
 1. Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Í stað hlutfallstölunnar „1,15“ í 1. mgr. kemur: 0,8.
  2. Í stað hlutfallstölunnar „3,99“ í 3. mgr. kemur: 4,34.
 2. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
 3.      Tekjum af almennu tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
  1. Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla. Þetta hlutfall skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur í samráði við stjórn stofnunarinnar fyrir eitt ár í senn.
  2. Staðlaráð fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,007% af gjaldstofni skv. III. kafla.
  3. Icepro fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,001% af gjaldstofni skv. III. kafla.
  4. Fæðingarorlofssjóður fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,85% af gjaldstofni skv. III. kafla.
  5. Tekjur af almennu tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í 1.–4. tölul. renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eftir reglum sem fjármálaráðherra setur með reglugerð.38. gr.

     Þegar ákvæði laganna um fæðingarorlof koma til framkvæmda verða eftirfarandi breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum:
 1. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
 2.      Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar, örorkustyrkja og barnalífeyris.
 3. 15.–16. gr. a laganna falla brott.


Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.