Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1135, 127. löggjafarþing 550. mál: kosningar til sveitarstjórna (erlendir ríkisborgarar o.fl.).
Lög nr. 27 8. apríl 2002.

Lög um breytingu á lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.


1. gr.

     Á eftir orðunum „þrjú ár samfellt fyrir kjördag“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag.

2. gr.

     Orðin „og staðfest af sveitarstjórn“ í 7. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     Orðin „danskt, finnskt, norskt eða sænskt“ í 3. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

4. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
 1. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri.
 3. Í stað orðanna „færri en 500“ í a-lið 2. mgr. kemur: 101–500.
 4. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 5.      Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.
       Kjósandi, sem mælt hefur með framboðslista, getur ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.


6. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Nú berast yfirkjörstjórn meðmælendalistar þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði og verður kjósandinn þá ekki talinn meðmælandi neins þeirra.

7. gr.

     Við 1. málsl. 36. gr. laganna bætist: a.m.k. 125 g/m 2 að þyngd.

8. gr.

     1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
     Í kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, skal á áberandi stað festa upp tilkynningu um framboðslista í sveitarfélaginu, þegar um bundna hlutfallskosningu er að ræða, þar sem fram koma heiti stjórnmálasamtaka, listabókstafir og nöfn frambjóðenda í sömu röð og á kjörseðli. Á sama hátt skal festa þar upp kosningaleiðbeiningar er félagsmálaráðuneytið gefur út í því skyni.

9. gr.

     Við 48. gr. laganna bætist: nema varamaður sé tiltækur.

10. gr.

     50. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrár þær sem fylgja, sbr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Skal kjörstjórnin síðan opna sendiumslagið og kanna hvort taka skuli utankjörfundaratkvæðið til greina, sbr. 68. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.
     Atkvæðisbréf, sem kjörstjórn kunna að hafa borist eða berast meðan á atkvæðagreiðslu stendur, skal tölusetja í áframhaldandi röð og skal tölu þeirra getið í kjörbókinni. Skal fara með þau atkvæði svo sem greinir í 1. mgr.
     Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og ef unnt er koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild, ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.
     Í sveitarfélagi, þar sem kosin er sérstök yfirkjörstjórn, er kjörstjórninni heimilt að hefja flokkun atkvæða skv. 1. mgr. daginn fyrir kjördag þannig að atkvæðisbréf verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.

11. gr.

     52. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna skulu hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skulu þeir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.

12. gr.

     Í stað orðanna „Áður en fyrsti kjósandi lætur seðil í kassann“ í 53. gr. laganna kemur: Áður en atkvæðagreiðsla hefst.

13. gr.

     54. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Kjósendur skulu greiða atkvæði í þeirri röð sem þeir gefa sig fram.
     Kjörstjórn getur ákveðið að í kjörfundarstofu séu ekki, auk þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna, aðrir en kjósendur sem ætla að greiða atkvæði. Kjörstjórnin getur auk þess takmarkað fjölda kjósenda í kjörfundarstofu ef þörf þykir til að halda uppi reglu.
     Kjörstjórn skal að öðru leyti sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

14. gr.

     Á eftir orðinu „kjörklefann“ í 1. mgr. 57. gr. laganna kemur: þar sem kjósandinn má einn vera.

15. gr.

     62. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.

16. gr.

     Á undan lokamálslið 63. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill verja atkvæði sínu.

17. gr.

     Orðin „vegna ráðgerðra forfalla sem síðan reynast ekki fyrir hendi á kjördegi“ í 65. gr. laganna falla brott.

18. gr.

     67. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórn á ný, í viðurvist umboðsmanna lista, þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt.
     Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni.
     Ef atkvæðisbréf verður ekki tekið til greina, sbr. 68. gr., skal það áritað eins og segir í 1. mgr. 50. gr.
     Ef kjósandi, sem sent hefur frá sér utankjörfundaratkvæði, er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin geta þess sérstaklega í kjörbókinni og senda slík atkvæðisbréf aðskilin til yfirkjörstjórnar.

19. gr.

     68. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Ekki skal taka til greina utankjörfundaratkvæði ef:
 1. sendandinn er ekki á kjörskrá,
 2. sendandinn er búinn að greiða atkvæði,
 3. sendandinn hefur afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild, sbr. 51. gr.,
 4. sendandinn hefur látist fyrir kjördag,
 5. í sendiumslaginu er meira en eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag,
 6. sjáanlegt er að ekki hafi verið notuð hin fyrirskipuðu kjörgögn er dómsmálaráðuneytið hefur látið gera,
 7. ekki hefur verið farið eftir þeim reglum sem settar hafa verið um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða
 8. atkvæðið hefur ekki verið greitt á þeim tíma sem greinir í 57. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

     Nú berast fleiri en eitt atkvæði greidd utan kjörfundar frá sama kjósanda sem geta komið til greina og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði koma til greina.

20. gr.

     71. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Þegar atkvæðagreiðslu er slitið og gild kjörseðilsumslög hafa verið látin í atkvæðakassann skal oddviti jafnskjótt ganga frá í sérstöku umslagi öllum þeim seðlum sem ónýst hafa, sbr. 64. gr., í öðru umslagi öllum þeim utankjörfundaratkvæðum sem ágreiningur er um, sbr. 69. gr., og í hinu þriðja öllum þeim ónotuðu seðlum sem afgangs eru. Þegar umslögunum hefur verið lokað skal ganga frá þeim öllum þremur ásamt lyklinum að atkvæðakassanum í aðalumslaginu og loka því. Til þess skal nota umslög þau sem yfirkjörstjórn hefur sent í þessu skyni.
     Því næst skal oddviti, er bókun er lokið og kjörbókin hefur verið undirrituð af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef viðstaddir eru, ganga frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók eða afriti úr kjörbók sem undirritað er af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef þeir hafa verið viðstaddir, svo og utankjörfundaratkvæðum sem fara eiga í aðra kjördeild, sbr. 4. mgr. 67. gr., í umbúðum innsigluðum af kjörstjórn og er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli sín á umbúðirnar. Gögnin skal merkja til yfirkjörstjórnar og senda henni þegar í stað á öruggan hátt. Skal yfirkjörstjórn gefa viðurkenningu fyrir móttöku.
     Eftir að kjörstjórn hefur þannig gengið frá kjörgögnum mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar eigi vera í vörslu sama manns.

21. gr.

     72. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Ef yfirkjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum lista.
     Um leið og kosningu er lokið og kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni sendir hún kjörskráreintök þau sem notuð voru við kosninguna í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar.

22. gr.

     Við 78. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill.

23. gr.

     81. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Nú kemur yfirkjörstjórn og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur meðal kjörstjórnar um gildi kjörseðils skal afl atkvæða ráða úrslitum. Úrskurða skal ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.
     Nú verður ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur og skal þá leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.
     Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabókina og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í sveitarfélaginu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.

24. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. apríl 2002.