Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1158, 127. löggjafarþing 371. mál: kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.).
Lög nr. 32 16. apríl 2002.

Lög um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kirkjugarðsstjórn getur einnig afmarkað almennan reit í kirkjugarði, þar sem ösku látinna verði komið fyrir, án þess að grafarnúmers sé getið, en nöfn hinna látnu skulu færð í legstaðaskrá, sbr. 1. mgr. 27. gr.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Dóms- og kirkjumálaráðherra getur heimilað, samkvæmt nánari reglum er hann setur, að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna þar að lútandi. Óheimilt er að dreifa ösku á fleiri en einn stað sem og að merkja dreifingarstað. Sömuleiðis er óheimilt að geyma duftker fram að ráðstöfun þess annars staðar en í líkhúsi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu.


2. gr.

     Í stað orðsins „Utanþjóðkirkjusöfnuðum“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: Skráðum trúfélögum.

3. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Kirkjugarðaráð hefur yfirumsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Í því eiga sæti biskup Íslands eða fulltrúi hans, þjóðminjavörður eða fulltrúi hans, einn fulltrúi tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi kosinn af kirkjuþingi. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Biskup Íslands eða fulltrúi hans skal vera formaður kirkjugarðaráðs. Ef atkvæði falla jöfn í ráðinu ræður atkvæði biskups.
     Kirkjugarðaráð ræður framkvæmdastjóra kirkjugarða og setur honum erindisbréf. Hann skal vera sérfróður um gerð og skipulag kirkjugarða. Laun hans og annar starfskostnaður, svo og kostnaður við störf kirkjugarðaráðs, greiðist úr Kirkjugarðasjóði.
     Kirkjugarðaráð er jafnframt stjórn Kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 40. gr.

4. gr.

     Við 2. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kirkjugarðaráð setur viðmiðunarreglur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur hvað felst í skyldu sveitarfélaga til að leggja til hæfilegt kirkjugarðsstæði og efni í girðingu.

5. gr.

     Í stað orðanna „skipulagsnefnd kirkjugarða“ í 2. mgr. 16. gr. laganna og sömu orða í 3. mgr. 16. gr., 2. mgr. 17. gr., 1. mgr. 18. gr., 1. mgr. 20. gr., 1. og 3. mgr. 27. gr., 2. mgr. 28. gr., 1. og 4. mgr. 31. gr., 32. gr., 1. mgr. 33. gr., 36. gr., 1. mgr. 43. gr., 2. mgr. 50. gr. og 51. gr. laganna kemur, í viðeigandi falli: kirkjugarðaráð; og í stað orðsins „hennar“ í 16. gr. laganna kemur: þess.

6. gr.

     3. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
     Kirkjugarðsstjórn er heimilt að taka þátt í kostnaðarsömum framkvæmdum við útfararkirkjur, en því aðeins að tryggt sé að það gangi ekki svo nærri fjárhag kirkjugarðsins að hann sé ófær um að gegna lögbundnu hlutverki sínu. Ráðherra setur reglur um fjárstuðning kirkjugarðsstjórna í þessum efnum.

8. gr.

     Við 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, 1. málsl., svohljóðandi: Grafstæði í kirkjugörðum skal vera 2,50 x 1,20 metrar og grafstæði duftkera 0,75 x 0,75 metrar.

9. gr.

     1. málsl. 34. gr. laganna orðast svo: Þegar samþykkt hefur verið að leggja niður kirkjugarð eða slétta yfir hann skal það vandlega kynnt almenningi með auglýsingu tvisvar sinnum í dagblöðum eða í staðbundnum blöðum er koma reglubundið út.

10. gr.

     4. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
     Kirkjugarðaráð myndar stjórn Kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 11. gr.

11. gr.

     Í stað orðanna „stjórnar hans“ í 4. mgr. 41. gr. laganna kemur: kirkjugarðaráðs.

12. gr.

     Í stað orðsins „utanþjóðkirkjusöfnuðum“ í 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: trúfélögum, og í stað orðsins „utanþjóðkirkjusafnaðar“ í 2. mgr. 45. gr. kemur: skráðs trúfélags.

13. gr.

     Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Grafreitir skráðra trúfélaga.

14. gr.

     Við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra setur reglugerð um umgengni í kirkjugörðum sem skal vera fyrirmynd að umgengnisreglum kirkjugarðanna. Kemur þessi reglugerð í stað reglugerða fyrir kirkjugarða þar sem reglugerðir eru ekki sérstaklega settar, sbr. 51. gr.

15. gr.

     Á eftir orðunum „Brot gegn lögum þessum“ í 52. gr. laganna kemur: og reglum settum samkvæmt þeim.

16. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2002.
     Umboð fulltrúa í skipulagsnefnd kirkjugarða, svo og umboð stjórnarmanna í stjórn Kirkjugarðasjóðs, fellur niður 30. apríl 2002 og skal kirkjugarðaráð taka við störfum þeirra frá sama tíma.

Samþykkt á Alþingi 8. apríl 2002.