Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1391, 127. löggjafarþing 678. mál: almenn hegningarlög (öryggi í siglingum, kjarnakleyf efni o.fl.).
Lög nr. 70 8. maí 2002.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (öryggi í siglingum, kjarnakleyf efni o.fl.).


1. gr.

     Við 6. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 44/2001, bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Fyrir háttsemi sem greinir í samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó frá 10. mars 1988.
  2. Fyrir háttsemi sem greinir í bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu frá 10. mars 1988.
  3. Fyrir háttsemi sem greinir í samningi um vörslu kjarnakleyfra efna frá 3. mars 1980.


2. gr.

     Við 2. mgr. 165. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir ef gripið er inn í stjórn skips eða botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

3. gr.

     Við 1. mgr. 168. gr. laganna, sbr. 80. gr. laga nr. 82/1998, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir ef raskað er öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

4. gr.

     Á eftir 169. gr. laganna kemur ný grein, 169. gr. a, svohljóðandi:
     Hver sá sem ólöglega tekur við, hefur í vörslum sínum, notar, flytur, breytir, losar eða dreifir kjarnakleyfum efnum og stofnar með því lífi manna, heilsu eða eignum í háska skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
     Ef brot skv. 1. mgr. hefur í för með sér almannahættu varðar það fangelsi allt að 16 árum.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2002.