Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1487, 127. löggjafarþing 638. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.).
Lög nr. 98 15. maí 2002.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
      Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.

2. gr.

     4. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Til þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar setur ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um:
  1. útgáfu og efni starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem fellur undir þessa grein,
  2. umgengni og þrifnað utan húss,
  3. meindýravarnir og eyðingu meindýra,
  4. hreinsun hunda, m.a. vegna sullaveiki, katta og annarra gæludýra,
  5. þátttöku heilbrigðisnefnda í öryggismálum og sóttvörnum og framkvæmd þeirra,
  6. töku sýna og úrvinnslu þeirra,
  7. viðmiðanir fyrir eðlis-, efna- og örverufræðilega þætti,
  8. íbúðarhúsnæði,
  9. starfsmannabústaði og starfsmannabúðir,
  10. gistihús, matsöluhús og aðra veitingastaði, fjallaskála, frístundahúsasvæði, tjald- og hjólhýsasvæði,
  11. skóla og aðra kennslustaði,
  12. rakarastofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur, húðflúrsstofur og hvers konar aðrar snyrtistofur og stofur þar sem fram fer húðgötun og húðrof,
  13. leikskóla, leikvelli, daggæslu í heimahúsum og önnur heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga,
  14. heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili og meðferðar- og vistunarstofnanir og stofnanir fyrir fatlaða,
  15. íþróttastöðvar, íþróttasvæði, íþróttahús, almenningssalerni, sundstaði, baðhús, gufubaðsstofur, sólbaðsstofur og almenna baðstaði, baðvatn og þess háttar,
  16. fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna,
  17. samkomustaði og samkomuhús, þar á meðal kirkjur og söfn,
  18. samgöngumiðstöðvar, farþegaskip, almenningsbifreiðar, farþegaflugvélar og þess háttar,
  19. verslunarmiðstöðvar,
  20. verslanir sem selja vörur er innihalda fegrunar- og snyrtiefni, hættuleg efni og eiturefni,
  21. dýraspítala, dýralæknastofur, dýrasnyrtistofur, dýrasýningar, dýragæslustaði, gæludýraverslanir, hestaleigur og reiðskóla,
  22. garðaúðun,
  23. önnur sambærileg atriði.


3. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
     Stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögum þessum skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins og viðkomandi heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
     Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Rekstraraðila ber að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Heilbrigðisnefnd er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um framkvæmd hollustuverndar.
     Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.

4. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
     Allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun skal hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
     Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir.
     Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og stærð, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Krafist skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 14. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Héraðslæknir eða sá heilsugæslulæknir sem hann tilnefnir“ í 1. málsl. kemur: Yfirlæknir heilsugæslu á viðkomandi eftirlitssvæði, tilnefndur af landlækni.
  2. Í stað orðsins „Héraðslæknir“ í 2. og 3. málsl. kemur: Yfirlæknir heilsugæslu.


6. gr.

     Við 4. málsl. 19. gr. laganna bætist: sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.

7. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Allar olíubirgðastöðvar sem eru starfandi við gildistöku laga þessara skulu hafa gilt starfsleyfi eigi síðar en 31. desember 2005.

8. gr.

     Við fylgiskjal I við lögin bætist nýr töluliður, 24. tölul., svohljóðandi: Olíubirgðastöðvar.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:
Starfsemi sem skal hafa starfsleyfi skv. 4. gr. a, gefið út af heilbrigðisnefnd.
     
Akstursíþróttasvæði.
Almenningssalerni.
Baðstofur og gufubaðsstofur.
Daggæsla í heimahúsum með sex börn eða fleiri.
Dvalarheimili.
Dýragæsla.
Dýralæknastofur.
Dýrasnyrtistofur.
Dýraspítalar.
Dýragarðar og umfangsmiklar dýrasýningar.
Fangelsi og fangagæsla.
Fjallaskálar, nema sæluhús.
Fótaaðgerðarstofur og fótsnyrtistofur.
Frístundahúsasvæði.
Garðaúðun.
Gististaðir.
Gæludýraverslanir.
Gæsluvellir og opin leiksvæði.
Götuleikhús og tívolí.
Hársnyrtistofur.
Heilsugæslustöðvar.
Heilsuræktarstöðvar.
Heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga, með sex börn eða fleiri.
Hestaleigur og reiðskólar.
Húðflúrsstofur og stofur þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr.
Íþróttahús.
Íþróttamiðstöðvar.
Íþróttavellir.
Kírópraktorar.
Leikskólar.
Læknastofur.
Meindýravarnir.
Nálastungustofur.
Nuddstofur.
Sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhringinn.
Samgöngumiðstöðvar og almenningssamgöngutæki.
Samkomuhús.
Sjúkrahús.
Sjúkrastofnanir.
Sjúkraþjálfun.
Skólar og aðrir kennslustaðir fyrir börn eða sex eða fleiri fullorðna.
Snyrtistofur.
Sólbaðsstofur.
Starfsmannabúðir.
Starfsmannabústaðir.
Sundstaðir.
Tannlæknastofur.
Tjald- og hjólhýsasvæði.
Útihátíðir.
Veitingastaðir.
Verslunarmiðstöðvar.
Verslun með vörur sem innihalda hættuleg efni og eiturefni.
Verslun með fegrunar- og snyrtiefni.
Vöruflutningamiðstöðvar.
Önnur sambærileg starfsemi.


10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2002.